Blátunna er sorptunna, svipuð þeirri sem nú þegar eru við hvert heimili undir almennt sorp. Blátunna er þó með bláu loki til aðgreiningar frá hinni. Blátunna er ætluð undir pappírsúrgang eins og dagblöð, hvítan prentpappír, sléttan pappa eins og fernur og morgunkornskassa og einnig minni bylgjupappakassa.

Blátunnan er val íbúa þ.e.a.s. það er val hvers heimilis að nýta þessa þjónustu sveitarfélagsins og taka þannig ábyrgð á umhverfinu með því að endurnýta pappír úr flóði blandaðs úrgangs. Ekki verður innheimt sérstakt gjald vegna Blátunnunar, þar sem urðunarkostnaður verður minni með tilkomu verkefnisins.

Sveitarfélagið Ölfus útvegar íbúum sveitarfélgsins Blátunnuna en hana er hægt að panta á skrifstofu sveitar-félagsins í síma 480 3800 eða í gegnum póstfangið olfus@olfus.is. Gunný ór umhverfisstjóri annast verkefnið og svarar spurningum er það varðar.

Á heimasíðunni blatunna.is má einnig leita frekari upplýsinga og frétta um verkefnið. Í fyrstu verða 300 tunnur í boði en strax á næsta ári verður fleirum bætt við.
Blátunnan verður losuð mánaðarlega í þéttbýli og annan hvern mánuð í dreifbýli. Til að losunin gangi sem best er ætlast til að tunnan sé staðsett sem næst götu, ekki fjær en 15 metra. Rétt er að geyma tunnuna þannig að hún fjúki ekki og nota til þess sorptunnuskþli eða einfaldar festingar sem tefja ekki losun tunnunnar.
Innihaldið fer til SORPU sem annast böggun og útflutning á því þar sem það er selt til endurvinnslu.

Hvað MÁ fara í Blátunnuna?

Allur pappír og sléttur pappi er endurvinnanlegur. Það þýðir að í Blátunnuna á að setja dagblöð, tímarit, auglýsingapóst, prentpappír, hreinar og tómar umbúðir úr sléttum pappa svo sem fernur, morgunkornspakka, eggjabakka og pakkningar utan af matvælum eins og kexi og pasta.

Hvað MÁ EKKI fara í Blátunnuna?
Matarleifar og plast má alls ekki fara ofan í Blátunnu. Því er mikilvægt að fjarlægja allar matarleifar og plastumbúðir sem kunna að leynast í pappaumbúðum sem og skola allar fernur vel. Losið því pökkuð blöð úr plast-pokum eða öðrum umbúðum og setjið þann úrgang í þar til gerða grenndargáma. Pressið allar umbúðir vel saman, þannig fer minna fyrir þeim í Blátunnunni - það kostar að flytja loft.

Hver er ávinningurinn?
Blátunnuverkefninu er ætlað að ná pappír úr blönduðu sorpi sem er á leið til urðunar. Með því að endurnýta pappírinn sparast hráefni, kemísk efni og orka sem annars þarf í meira mæli þegar pappír er unnin úr trjám.
Blátunnan minnkar einnig þörf hvers heimils á tveimur hefðbundnum sorptunnum þar sem heildarsorprými eykst töluvert með tilkomu Blátunnunar.
Blátunnan er aukin þjónusta við íbúa sveitarfélagsins þar sem hún tekur við fleiri tegundum pappírs en grenndargámarnir hafa gert, auk þess sem sá sem hefur aðgang að Blátunnu þarf ekki að safna blöðum og öðrum pappír innandyra á milli grenndargámaferða.
Birt:
April 22, 2009
Tilvitnun:
Guðmundur Tryggvi Ólafsson „Blátunna - Ný endurgjaldslaus endurvinnsluþjónusta í Ölfusi“, Náttúran.is: April 22, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/22/blatunna-ny-endurgjaldslaus-endurvinnsluthjonusta-/ [Skoðað:June 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: