Ríkisstjórnin samþykkti nýverið aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem felur í sér að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda um allt að 30% til ársins 2020 með tíu lykilaðgerðum. Fjármálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp um eina af lykilaðgerðunum, sem er breyting á bifreiðasköttum og gjöldum.

Markmið áætlunarinnar er að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi svo stjórnvöld fái staðið við stefnu sína og skuldbindingar í loftslagsmálum. Stefna íslenskra stjórnvalda er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 30% til ársins 2020 miðað við losun árið 2005.

Tíu lykilatriði í framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar eru eftirfarandi:

  1. Innleiðing viðskiptakerfis með losunarheimildir.
  2. Kolefnisgjald.
  3. Breytt kerfi skatta og gjalda á bíla og eldsneyti.
  4. Notkun ríkis og sveitarfélaga á sparneytnum og vistvænum ökutækjum.
  5. Efling göngu, hjólreiða og almenningssamgangna sem valkosts í samgöngum.
  6. Notkun lífeldsneytis á fiskiskipaflotanum.
  7. Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja.
  8. Aukin skógrækt og landgræðsla.
  9. Endurheimt votlendis.
  10. Efldar rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum.

Samkvæmt áætluninni mun binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu verða sú einstaka aðgerð sem mestu mun skila. Vonast er til að með markvissum aðgerðum sé hægt að draga saman losun frá samgöngum um 12%, um 39% frá sjávarútvegi og 10% frá landbúnaði. Losun frá stóriðju mun lúta öðrum reglum en önnur losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Hún mun falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, þar sem fyrirtæki munu fá úthlutað losunarheimildum. Þessi fyrirtæki geta síðan keypt eða selt losunarheimildir á markaði í samræmi við árangur hvers og eins við að ná tilskildum markmiðum um minnkun losunar fram til 2020.

Fjármálaráðherra hefur nýverið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um bifreiðagjöld og vörugjöld af ökutækjum og eldsneyti sem hvetja á almenning til að kaupa vistvænni bifreiðar og eldsneyti. Breytingar á sköttum og gjöldum á bíla og eldsneyti til að hvetja til loftslagsvænni samgangna er ein af lykilaðgerðunum í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Þar er gert ráð fyrir að hægt sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum um 23% miðað við losun ársins 2008. Þessar breytingar marka því mikilvægt upphaf fyrstu aðgerða í áætluninni.

Í kjölfar þess að aðgerðaáætlunin hefur verið samþykkt verður stofnaður samstarfshópur ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að hafa umsjón með að áætluninni sé hrint í framkvæmd, setja ný verkefni á fót og veita umhverfisráðherra upplýsingar og ráðgjöf. Hópurinn mun skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar árlega um árangur við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar.

Á heimasíðu umhverfisráðuneytisins gefst almenningi kostur á að senda samstarfshópnum tillögur að leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum (pdf-skjal).

Aðgerðaáætlunin byggir á skýrslu sérfræðinganefndar um möguleika til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á vörugjöldum af ökutækjum, eldsneyti o.fl, bifreiðagjald og olíugjald og kílómetragjald.

Ljósmyndin af Snæfellsjökli er tekin sumarið 2004. Í skýrslu Halldórs Björnssonar kemur fram að Snæfellsjökull þynntist að meðaltali um 1,5 m.á ári á árunum 1999 - 2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
Nov. 12, 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum“, Náttúran.is: Nov. 12, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/12/adgerdaaaetlun-i-loftslagsmalum/ [Skoðað:April 17, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: