Útgerðir í Norður-Evrópu sem stunda makrílveiðar verða um mánaðamótin sviptar heimild til að merkja afurðir sínar með umhverfisvottun Marine Stewardship Council. Að sögn breska blaðsins The Guardian er ástæðan ofveiði Íslendinga og Færeyinga sem geri að verkum að makrílstofninn sé ekki lengur sjálfbær.

The Guardian segir ákvörðun Marine Stewardship Council (MSC) snerta um 1.400 vörutegundir sem framleiddar eru úr makríl. Upphafið að málinu megi rekja til ársins 2010 þegar Íslendingar og Færeyingar hafi stóraukið makrílveiði sína. Heildarveiðin sé nú komin í um 900 þúsund tonn sem sé um 260 þúsund tonnum umfram efri mörk sem sérfræðingar mæli með. Vegna þessa sé mikil hætta á ofveiði úr makrílstofninum.

Richard Lochhead, hjá samtökum skoskra útgerðarmanna, segir við The Guardian að það sé mikið áhyggjuefni að makríliðnaðurinn missi vottun MSC. "Það er mjög mikilvægt og í þágu hagsmuna allra að tryggja aðmakrílstofninn sé sjálfbær og fái viðurkenningu frá alþjóðlegum aðilum á borð við MSC," segir Lochhead við The Guardian.

Birt:
28. mars 2012
Höfundur:
gar
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
gar „Makrílútgerð svipt umhverfisvottun vegna ofveiði Íslendinga og Færeyinga“, Náttúran.is: 28. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/28/makrilutgerd-svipt-umhverfisvottun-vegna-ofveidi-i/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: