Ályktun um stækkun friðlands í Þjórsárverum - Landvernd
Aðalfundur Landverndar lýsir áhyggjum vegna tillagna starfshóps um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem skipaður var af umhverfisráðherra í lok árs 2006. Í tillögu hópsins er ekki gert ráð fyrir stækkun friðlandsins í suður en ganga þarf þannig frá verndun Þjórsárvera að verndunin nái ekki aðeins yfir allt votlendið heldur allt gróðurlendið og að verin séu vernduð í viðeigandi heild, þ.m.t. Eyvafen.
Skoðanakannanir benda til þess að hugmyndir um varanlega og víðtæka verndun Þjórsárvera njóti mikils stuðnings. Hugmyndir um að Þjórsárver og nærliggjandi svæði gætu átt heima á heimsminjaskrá munu aldrei verða að veruleika nema að verndun svæðisins verði tryggð enda eru Þjórsárver afar áhugavert náttúrufyrirbæri og mikilvægur hluti af náttúruarfleifð þjóðarinnar og heimsins alls.
Falla verður því frá öllum hugmyndum um virkjanaframkvæmdir á svæðinu. Minnt er á að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ólögmætt það umhverfismat sem var forsenda virkjunar á svæðinu en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að í raun hefði ekki farið fram lögformlegt mat á hluta áformaðra framkvæmda. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefði átt að vera búið að afturkalla leyfi sem veitt var í september 2004 af þáverandi iðnaðarráðherra til að reisa og reka Norðlingaölduveitu, enda megin forsendan fyrir leyfisveitingunni það umhverfismat sem nú hefur að hluta til verið dæmt ógilt.
Eftir áratuga baráttu þar sem að sjónarmið verndunar og virkjunar í Þjórsárverum hafa tekist á virðist nú vera víðtæk samstaða í samfélaginu um að vernda þetta svæði. Það liggur fyrir óyggjandi vitneskja um verðmæta náttúru svæðisins og mikilfenglegt landslag. Gnúpverjar hafa lengi staðið í baráttu um verndun Þjórsárvera og umhverfisráðherra hefur lýst yfir áhuga á að stækka friðlandið og ganga þá lengra en lagt er til í tillögum starfshópsins. Bent er á að tillaga starfshópsins er ráðgefandi en bindur ekki hendur ráðherra. Jafnframt er bent á að hópurinn var ekki skipaður á þann veg að ólíkir hagsmunaaðilar ættu þar hlut að máli. Frjáls félagasamtök eins og Landvernd áttu t.a.m. ekki aðild að þessari vinnu.
Landvernd hvetur umhverfisráðherra til að veita Þjórsárverum þá friðun sem þeim sæmir og láta friðunina ná yfir allt gróðurlendið. Þar sem um þjóðlendu er að ræða er mikilvægt að aðrir ráðherrar og Alþingi sýni þann stuðning sem þarf til þess að tryggja megi í eitt skipti fyrir öll að Þjórsárverum verði þyrmt.
Skoðanakannanir benda til þess að hugmyndir um varanlega og víðtæka verndun Þjórsárvera njóti mikils stuðnings. Hugmyndir um að Þjórsárver og nærliggjandi svæði gætu átt heima á heimsminjaskrá munu aldrei verða að veruleika nema að verndun svæðisins verði tryggð enda eru Þjórsárver afar áhugavert náttúrufyrirbæri og mikilvægur hluti af náttúruarfleifð þjóðarinnar og heimsins alls.
Falla verður því frá öllum hugmyndum um virkjanaframkvæmdir á svæðinu. Minnt er á að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt ólögmætt það umhverfismat sem var forsenda virkjunar á svæðinu en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að í raun hefði ekki farið fram lögformlegt mat á hluta áformaðra framkvæmda. Í ljósi þessarar niðurstöðu hefði átt að vera búið að afturkalla leyfi sem veitt var í september 2004 af þáverandi iðnaðarráðherra til að reisa og reka Norðlingaölduveitu, enda megin forsendan fyrir leyfisveitingunni það umhverfismat sem nú hefur að hluta til verið dæmt ógilt.
Eftir áratuga baráttu þar sem að sjónarmið verndunar og virkjunar í Þjórsárverum hafa tekist á virðist nú vera víðtæk samstaða í samfélaginu um að vernda þetta svæði. Það liggur fyrir óyggjandi vitneskja um verðmæta náttúru svæðisins og mikilfenglegt landslag. Gnúpverjar hafa lengi staðið í baráttu um verndun Þjórsárvera og umhverfisráðherra hefur lýst yfir áhuga á að stækka friðlandið og ganga þá lengra en lagt er til í tillögum starfshópsins. Bent er á að tillaga starfshópsins er ráðgefandi en bindur ekki hendur ráðherra. Jafnframt er bent á að hópurinn var ekki skipaður á þann veg að ólíkir hagsmunaaðilar ættu þar hlut að máli. Frjáls félagasamtök eins og Landvernd áttu t.a.m. ekki aðild að þessari vinnu.
Landvernd hvetur umhverfisráðherra til að veita Þjórsárverum þá friðun sem þeim sæmir og láta friðunina ná yfir allt gróðurlendið. Þar sem um þjóðlendu er að ræða er mikilvægt að aðrir ráðherrar og Alþingi sýni þann stuðning sem þarf til þess að tryggja megi í eitt skipti fyrir öll að Þjórsárverum verði þyrmt.
Birt:
6. maí 2007
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um stækkun friðlands í Þjórsárverum - Landvernd“, Náttúran.is: 6. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/06/lyktun-um-stkkun-frilands-jrsrverum-landvernd/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. maí 2007