Á 7. áratug síðustu aldar hófu íslensk stjórnvöld undirbúning að Búrfellsvirkjun og orkusölu til álvers í Straumsvík með 33 þúsund tonna framleiðslugetu á ári. Í upphafi var orkuþörf álversins um 66 MW. Nú er framleiðslugeta þess 180 þúsund tonn á ári og Rio Tinto Alcan áformar að auka framleiðslugetuna um 40 þúsund tonn til viðbótar. Til að mæta aukinni orkuþörf í Straumsvík hyggst Landsvirkjun ráðast í byggingu Búðarhálsvirkjunar (80 MW).

Í dag er stærðarhagkvæmni nýrra álvera á Íslandi um 400 þúsund tonn á ári. Fyrir hvert nýtt álver þarf því nærri 700 MW virkjun eða virkjanir sem jafngildir einni Kárahnjúkavirkjun. Svo mikil orka er vandfundinn.

Við blasir að sú stefna sem mörkuð var á 7. áratug síðustu aldar er nú orðin gjaldýrota.

Landsvirkjun hefur nú upplýst viðsemjendur sína um að hún treysti sér ekki til að afhenda meiri orku fyrir nýtt álver á Bakka en sem nemur 125 þúsund tonna ársframleiðslu (c.a. 250 MW). Það stenst ekki kröfur Alcoa sem vill fá tryggingu fyrir orku til að knýja 360 þúsund tonna álver. Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa áttað sig á þessu því í nýjasta stefnuplaggi flokksins er einungis talað um, að ,,koma á orkufreku verkefni á Bakka” - eins það er orðað. En flokkurinn leggur á það ofuráherslu að ,,Setja framkvæmdir í Helguvík af stað” með stjórnvaldsaðgerðum. Ekki er þó sagt hvernig.

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, svaraði ásökunum um að ríkisstjórnin stæði í vegi fyrir framkvæmdum við álver í Helguvík í fréttaskýringarþætti Stöðvar2 með þessum oðrum: Það er bara tómur þvættingur. Það eru bara ekki fyrir hendi orkusölusamningar. Það er núna ágreiningur fyrir gerðardómi úti í Svíþjóð milli framkvæmdaaðilans og orkufyrirtækjanna um framkvæmd samninganna. Það hefur ekki verið tryggður aðgangur að orkunni. Fyrirtækin hafa ekki orku, veitufyrirtækin hafa ekki aðgang að orkunni og geta ekki tryggt hana. Þannig er bara staðreyndin. Það stendur ekki á ríkisstjórninni í þessu máli og allt annað er bara ómerkilegur spuni.”

Spuninn? Norðurál hefur brugðist við umræðunni um orkuskort með því að lýsa yfir að fyrirtækið stefni nú að byggingu álvers í Helguvík með 270 þúsund tonna framleiðslugetu þótt allir viti að svo lítið álver stenst ekki kröfur um stærðarhagkvæmni. Fyrr en síðar munu eigendur Norðuráls krefjast orku til að geta stækkað álver sitt í Helguvík og hefur fyrirtækið þegar bent á ýmsa orkukosti. Til dæmis Norðlingaölduveitu í Þjórsárverum og Þjórsárvirkjanir.

Ekki verður annað séð en að Norðurál hafi farið af stað með byggingu álvers í Helguvík til þess að koma fæti á milli stafs og hurðar, þ.e. orka fyrir álverið var aldrei fyrir hendi á Reykjanesi og/eða Hellisheiði eins og látið var í veðri vaka. En nú vill forstjóri Norðuráls að Landsvirkjun, ,,sem er eina fyrirtækið sem er alfarið í eigu ríkisins,” - eins og forstjóri Norðurál orðaði það við fréttaman Stöðvar2, bjargi málum með þátttöku sinni í orkuöflun fyrir álverið.

Spurninging er: Hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessum undirmálum?

Birt:
6. nóvember 2010
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Helguvíkurfirringin“, Náttúran.is: 6. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/06/helguvikurfirringin/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: