Föstudaginn 28. nóvember 2008, opnaði Samhjálp nytjamarkaðinn Allt milli himins og jarðar.

Sjá nytjamarkað Samhjálpar á korti

Sjá nytjamarkaði á Grænu Íslandskorti

Fyrir nokkrum árum vaknaði sú hugmynd að stofna nytjamarkað til stuðnings starfinu. Það var svo í vor að hugmyndin fékk byr undir báða vængi og farið var að vinna að hugmyndinni af fullum þunga enda þá þegar farið að gæta nokkurra erfiðleika í rekstrinum vegna aukins kostnaðar. Eftir að hafa leitað að hentugu húsnæði, tókum við um það ákvörðun að opna nytjamarkað í húsnæði okkar að Stangarhyl 3 en þar höfum við u.þ.b. 300 m2 kjallara sem hentar vel til starfseminnar.

Mikil þörf
Hafi verið þörf sl. vor þá hefur sú þörf ekki minnkað núna við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Rekstur úrræða okkar, s.s. kaffistofu utangarðsfólks og meðferðarheimilisins Hlaðgerðarkots, hefur þyngst til mikilla muna. Til viðbótar svo við þyngri rekstur hefur ásókn í úrræði okkar aukist til mikilla muna en sem dæmi má nefna að í lok september höfðum við ekki getað veitt innlögn 600 einstaklingum í Hlaðgerðarkot sem er sami fjöld og allt árið 2007. Þann 26.11. sl. komu 95 einstaklingar á kaffistofuna en meðal gesta undanfarið má nefna fjölskyldu sem á erfitt vegna veikinda og mikils lyfjakostnaðar og hefur hún því leitað á kaffistofuna til þess að fá að borða, en þar eru máltíðir veittar án endurgjalds.

Þó vilji sé til þess að skerða ekki þjónustu, þá höfum við þurft að grípa til þess að fækka innlögnum um 10 pláss í Hlaðgerðarkoti í þeirri tilraun að láta enda ná saman.Þó svo að þjónustuskerðing hafi orðið í Hlaðgerðarkoti er það von okkar að til þess þurfi ekki að koma til hvað önnur úrræði varðar og horfum við m.a. vonaraugum til þess að viðbrögð verði það góð við nytjamarkaðinum að hann hjálpi okkur, þó ekki væri nema að halda í horfinu. Í viðbót við úrræði eins og kaffistofuna, göngudeild og félagsmiðstöð, rekur Samhjálp 90 rúm í gisti- meðferðar- og áfangaúrræðum og því til mikils að keppa að láta enda ná saman.

Við þurfum þinn stuðning
Til þess að halda megi úti nytjamarkaði þarf vörur. Því er það beiðni okkar til þín, að ef þú þarft að taka til í bílskúrnum eða geymslunni þá þiggjum allt sem þú þarft að losa þig við og er þá sama hvort um húsgögn, skrautmuni, nytjavörur, bækur eða föt er að ræða, við þiggjum allt á milli himins og jarðar. Hafðu samband í síma 5611000, alla virka daga á milli kl. 09 og 15. Allur ágóði af sölunni mun renna til hjálparstarfs Samhjálpar en svo sem sjá má á heimasíðunni rekur Samhjálp umfangsmikið hjálparstarf víðsvegar um borgina.

Opnunartími
Opnunartími markaðarins verður frá þriðjudegi til laugardags á milli kl. 13 og 18. Gengið er inn á austur gafli hússins.
Stefnt er að því að ávallt verði nýjar vörur á þriðjudögum.
Birt:
4. desember 2008
Höfundur:
Náttúran
Uppruni:
Samhjálp
Samhjálp
Tilvitnun:
Náttúran „Nytjamarkaðurinn Allt milli himins og jarðar“, Náttúran.is: 4. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/04/nytjamarkaourinn-allt-milli-himins-og-jaroar/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: