Fæðing
Fyrir ári síðan var ég viðstödd fæðingu systursonar míns – bæði sem hómópati og nuddari og sem vitni að þessu kraftaverki sem ég gleymi seint.  Fæðingin fór rólega af stað og gekk frekar hægt enda strákurinn stór og fyrsta barn móður sinnar.   En hann stakk sér inn í heiminn engu að síður eftir langa mæðu, blár  og krumpaður eftir öll átökin, setti upp skeifu og reyndi að segja okkur hvernig hann hefði það. Við sem horfðum á öll þessi innri átök mömmunnar, gátum lítið gert annað en að hvetja hana til dáða meðan hún rembdist og bjóða fram mjúkar hendur til að sýna í verki löngun okkar til að taka á okkur hluta af þjáningunni – sem var auðvitað bara táknræn. Ég sá hvernig óttinn við meiri sársauka hafði áhrif á hraða fæðingarinnar og  svo baráttugleðina þegar hún fékk loksins að rembast og núna þegar ég rifja þetta svona upp þá sé ég líka fyrir mér þennan dugnaðarfork sem hamaðist af öllum kröftum að koma sér út úr þessum þrönga gangi.  

Líkaminn er alltaf að koma á jafnvægi
Það er alltaf jafn merkilegt að verða vitni að því hvernig lífið hefur sinn gang, sama hvernig við berjumst á móti. Og þannig á það líka að vera. Aukinn áhugi á heildrænni meðferð og – hugsun sýnir einmitt að samfélagið er að vakna til meðvitundar um þetta.  Líkami okkar er alltaf að vinna að því að koma á jafnvægi og heilbrigðu ástandi. Stundum þarf hann aðstoð við að ljúka því verki. Lyf eru ekki alltaf eina svarið. Þau geta einmitt bælt niður tilraunir náttúrunnar til að hafa sinn gang. Þetta á kannski sérstaklega við á meðgöngu, í fæðingu og í meðferð ungbarna þar sem lyf geta verið varasöm. 

Hómópatía örvar eðlislæga tilraun líkamans til að lækna sig sjálfur
Hómópatía er meðferðarform sem hjálpar til við að örva eðlislæga tilhneigingu líkamans til að lækna sig sjálfur.  Hún er algerlega skaðlaus, veldur engum aukaverkunum og er þess vegna mjög örugg aðferð til að auka heilbrigði og bæði andlega og líkamlega vellíðan móður og barns. Hómópatinn horfir á manneskjuna í heild og veikindi eða vanlíðan eru í hans augum merki um ójafnvægi sem verður að skoða í samhengi við heildina. Hómópatinn notast við efni úr jurta-, steina- og dýraríki sem eru þynnt út með ákveðnum aðferðum og það er einmitt þessi mikla þynning sem gerir þau svo skaðlaus. Hver og einn fær efni sem er sniðið að hans eigin þörfum og einstaklingseðli og tvær manneskjur með sama kvillann fá þannig ekki endilega sama efnið eða “remedíuna”. Ef þú færð remedíu sem samsvarar einkennum þínum í heild þá hefur hún yfirleitt áhrif á heilsu þína og vellíðan almennt. Þess vegna er líka algengt að kona sem til dæmis kvartar undan morgunógleði á meðgöngu, finni þegar hún fer að taka hómópatíska remedíu að það dregur ekki bara úr morgunógleðinni heldur mörgu öðru sem amaði að henni og henni fer hugsanlega almennt að líða betur í sjálfri sér.

Hómópati og ljósmóðir
Ananda Zaren, hjúkrunarkona, ljósmóðir og hómópati í Santa Barbara í Kaliforníu hefur notað hómópatíu í hundruðum fæðinga. Hún segir: “Vegna þess hve hómópatískar remedíur eru öruggar þá eru þær ómetanlegar á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu. Ekkert meðferðarform er öruggara. Hún segir einnig að hómópatía, sé hún rétt notuð í fæðingu, geti komið í veg fyrir vandamál í fæðingu, stytti fæðingartímann og auki sársaukaþröskuld móðurinnar þannig að hún eigi auðveldara með að umbera verkina.

Heilbrigðari börn
Hómópatar hafa stundum sagt í léttum tón að meðganga sé mjög góður tími til að fá hómópatíska meðferð þar sem tvær manneskjur (móðirin og barnið) fái remedíu á verði einnar.  
Remedíurnar bæta ekki aðeins heilsu móðurinnar heldur nýtast þær líka fóstrinu.  Þó að þessi þáttur hafi ekki verið formlega rannsakaður enný á, þá hafa hómópatar tekið eftir því að konur sem hafa fengið hómópatíska meðferð á meðgöngu virðast fæða heilbrigðari börn.  Hómópatar hafa komist að þessari niðurstöðu með því að bera saman annars vegar börnin sem fengu hómópatíska meðferð í móðurkviði og önnur börn þessara sömu kvenna sem fengu hana ekki.  Hómópatar hafa líka talað um að konur sem fá hómópatíska meðferð áður en þær verða ófrískar fái síður morgunógleði á meðgöngu.  

Meðgangan
Það er almennt vitað að heilsa móðurinnar hefur bein áhrif á heilsu fóstursins. Þar sem meðganga getur verið mikið álag fyrir líkama konunnar finna ófrískar konur oft meira fyrir ýmsum kvillum sem annars eru lítið að trufla þær eða stundum ýmis ný einkenni.  Þetta getur verið ógleði, brjóstsviði, loft í meltingarvegi, sýkingar í leggöngum, blöðrubólga, frunsur, svefnleysi, blóðleysi, bakverkir, eymsli í brjóstum, bjúgur, gyllinæð, hægðatregða, sinadráttur, útbrot á húð og æðahnútar.  Sum þessi einkenni eru lítils háttar og getur nægt að gera breytingar á mataræði og lífsstíl. Önnur getur þurft að meðhöndla og þar sem konur þurfa að fara sérstaklega varlega í lyfjanotkun á meðgöngu getur verið þess virði að láta reyna á hómópatíuna. Hómópatískar remedíur geta líka komið að gagni við að koma í veg fyrir slit á meðgöngu.
Það er yfirleitt mælt með því að ófrískar konur leiti sér aðstoðar hjá menntuðum hómópata frekar en að meðhöndla sig sjálfar. Þar sem heilsa þeirra hefur áhrif á tvo einstaklinga skiptir máli að konan fái bestu hugsanlega meðferð og reyndur hómópati getur best gefið hana. En eins og áður sagði eru hómópatískar remedíur hættulausar og ef ekki gefst kostur á öðru er hægt að verða sér út um góðar bækur og remedíurnar er margar hægt að kaupa í Skipholtsapóteki, Heilsuhúsinu og í Blómavali.
Dr. Imberechts, virtur belgískur læknir og hómópati segir: “Hómópatískar remedíur eru mjög gagnlegar við ýmsa fylgikvilla á meðgöngu og sjúklingar mínir biðja sjaldan um annað en hómópatíska meðferð.”   

Langvarandi og ný leg einkenni
Hómópatar gera greinarmun á akút – eða “bráðaeinkennum” annars vegar og hins vegar krónískum eða langvarandi einkennum. Þau fyrrnefndu eru merki um tilraun líkamans til að verja sig gegn ný tilkomnu álagi eða sýkingu. Þau síðarnefndu lýsa endurteknum, misheppnuðum tilraunum líkamans til að koma aftur á heilbrigðu ástandi.  Þessi einkenni geta haldið áfram að sýna sig vegna stöðugs álags eða endurtekinna sýkinga eða vegna erfða, lífsstíls eða umhverfisáhrifa. Stundum stafar það sem virðist vera bráðaeinkenni í raun af undirliggjandi langvarandi ástandi.      

Sepia, Pulsatilla og Nux Vomica
Til að gefa hugmynd um einstaklingsgreininguna í hómópatískri meðferð ætla ég að nefna sem dæmi remedíur sem eru algengar að nota við ógleði á meðgöngu. Eins og áður sagði eru engir tveir einstaklingar eins og því koma mun fleiri en þrjár remedíur til greina við morgunógleði en til að einfalda málið nefni ég aðeins þessar þrjár. Kona sem þarf remedíuna Sepia, er auk ógleðinnar oft pirruð og afskiptalaus gagnvart sínum nánustu. Ógleðin er líkleg til að vera stöðug og verst milli 15 og 17. Konunni líður betur af að borða en langar ekki í mat. Kona sem þarf Nux-vomica er líka oft pirruð og með stöðuga ógleði sem lagast við að kasta upp og versnar við það að borða. Hún er verst á morgnanna og er með eins og stein í maganum eftir máltíð. Konu sem þarf Pulsatillu líður ekki betur af því að kasta upp.  Henni líður betur í fersku lofti, þolir illa feitan, þungan mat og er oft viðkvæm og lítil í sér.  

Hómópatía í fæðingu
John George, M.D. fæðingar- og kvensjúkdómalæknir í Seattle, notar hómópatískar remedíur í starfi sínu.  “Remedíurnar auðvelda á margan hátt fæðinguna fyrir konuna og lækninn.  Rétt valin remedía gefin fyrir fæðingu undirbýr leghálsinn með þvi að mýkja og auðvelda, þynna og víkka út leghálsinn áður en fæðingin sjálf hefst. Hríðarnar verða jafnari og markvissari.  Verkir minnka og þar af leiðandi er síður þörf á deyfingu.”
Algeng remedía að nota í fæðingu er til dæmis Caulophyllum.  Hún getur styrkt legvöðvana og hjálpað við að koma fæðingunni betur á veg. Hún var notuð í rannsókn sem gerð var á svínum.  200 gyltum var gefið Caulophyllum við upphaf burðar og fækkaði afgerandi fjölda andvana grísa. Þessar gyltur voru í svínahjörð þar sem var tiltölulega algengt að grísirnir fæddust andvana. Í fæðingunni sem ég sagði frá hér að ofan notuðum við Pulsatillu til að koma fæðingunni betur af stað og það hafði greinileg áhrif; hríðarnar urðu markvissari og kraftmeiri. Að sjálfsögðu eru ótal fleiri remedíur sem koma til greina í fæðingu og eins og áður virka þær best ef er valin remedía sem hentar einstaklingnum.  

Hómópatía fyrir ný bakaða móður

Fæðing getur verið erfið fyrir líkamann. Ef móðirin er útkeyrð eða ef hún er með verki í vöðvum eftir áreynsluna eins og af mari er Arnica oft það sem hún þarf.  Arnica er líka gefin almennt eftir högg eða fall til að hjálpa líkamanum að jafna sig eftir áfallið og flýtir fyrir að marið komi út. Ef konan hefur rifnað eða verið klippt í fæðingunni getur verið gott að gefa henni Bellis perennis og eða Calendulu í formi jurtatinktúru.  
Svo tekur brjóstagjöfin við og einnig þá geta hómópatískar remedíur reynst ómetanlegar.  Brjóstabólga er til dæmis yfirleitt meðhöndluð með fúkkalyfjum. Það getur sannarlega verið þess virði að reyna aðra leið áður. Þrátt fyrir að fúkkalyf geri sitt gagn þá er gott að losna við allt sem þeim fylgir þar sem barnið fær þau beint í brjóstamjólkinni. Þess má geta að júgurbólgu í kúm má líka meðhöndla á sama hátt og losna þannig við allt það tap sem fylgir því að aðskilja fúkkalyfjamjólkina frá og henda henni.  Ef mjólkin næst ekki upp eða geirvörturnar verða aumar eru aðrar remedíur sem koma til greina.  

Fæðingarþunglyndi
Fæðingarþunglyndi getur komið upp hvenær sem er á fyrsta árinu eftir fæðingu. Og þrátt fyrir að það sé algengt í mildara formi þá er alls ekki sjálfsagt að sætta sig bara við það.  Og annað mikilvægt er að vera ekki með sjálfsásakanir. Jafnvel þótt aðstæður séu eins og best verður á kosið og barnið rólegt þá eru meðganga og fæðing yfirleitt alltaf töluvert álag fyrir konuna. Ef þunglyndi er alvarlegt er mjög mikilvægt að leita til sérfræðinga og þar getur hómópatía verið mjög góð leið að auki til að meðhöndla konuna heildrænt, hjálpa henni að byggja upp orku og ná sér aftur líkamlega og andlega. Mildari form af fæðingarþunglyndi svara líka yfirleitt mjög vel í hómópatískri meðferð. Algengar remedíur í fæðingarþunglyndi eru; Cimicifuga, Nat-mur, Sepia, Ignatia, Pulsatilla. Til dæmis er Cimicifuga gagnleg þegar konan er þunglynd bæði af andlegum og hormónatengdum ástæðum. Henni gæti liðið eins og það hangi svart skþ yfir lífi hennar og allt ómögulegt. Hún getur verið kvíðin eða taugatrekkt og talar mikið. Kona sem þarf Nat-mur er líklega sorgmædd og viðkvæm og vill vera ein og fá að gráta í friði. Þrátt fyrir að vera sorgmædd þá bregst hún illa við ef einhver reynir að hugga hana. Í fæðingarþunglyndi er yfirleitt mikilvægt að skoða heildarmyndina, bæði mataræði, svefn, hreyfingu og svo möguleika konunnar til að fá meiri aðstoð ef á þarf að halda.    

Niðurlag
Hómópatía getur bæði verið einföld og flókin í notkun – allt eftir því hver forsaga einstaklingsins er og eftir þekkingu þess sem beitir henni. Hún getur virkað hægt – þegar líkaminn þarf langan tíma til að leiðrétta ójafnvægið og hún getur virkað mjög hratt – svo kraftaverki líkist. Hún getur komið af stað mjög djúpstæðum breytingum, án þess þó að grípa inn í líkamsstarfssemina. Það er alltaf líkaminn sjálfur sem ræður ferðinni.  Þessari grein er aðeins ætlað að gefa einhverja innsýn í möguleika hómópatíunnar á þessum mikilvæga tíma í lífinu þegar ný r einstaklingur kemur í heiminn. Til að gera efninu full skil þyrfti helst heila bók. Ég hvet áhugasama til að lesa sér meira til og kynna sér málið. 

Grafík: Kona með ný fætt barn sitt. Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinsdóttir.

Birt:
27. febrúar 2009
Höfundur:
Guðrún Arnalds
Uppruni:
Andartak
Tilvitnun:
Guðrún Arnalds „Hómópatía á meðgöngu og í fæðingu.“, Náttúran.is: 27. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/25/homopatia-meogongu-og-i-faeoingu/ [Skoðað:27. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 25. febrúar 2009
breytt: 1. nóvember 2010

Skilaboð: