Dagur hinna villtu blóma 2012
Dagur hinna villtu blóma verður næst haldinn sunnudaginn 17. júní árið 2012. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa.
Flóruvinir og aðrir sem eru reiðubúnir til að standa fyrir plöntuskoðunarferð á blómadaginn eru hér með beðnir að láta vita á póstfangið hkris@nett.is sem fyrst, og endilega fyrir 15. maí næst-komandi. Taka þarf fram hvar fólk á að mæta, og á hvaða tíma dagsins 17. júní. Gjarnan mættu einnig fylgja með upplýsingar um hvað markverðast er að sjá á því svæði sem skoðað verður. Upplýsingum verður safnað saman hér á vefsíðuna og auglýstur eins og gert hefur verið síðastliðin ár.
Árið 2012 verður boðið upp á plöntuskoðunarferðir sem hér segir:
1. Reykjavík - Laugarnes. Mæting á Laugarnestanga kl. 20:00. Gengið verður um ósnortna fjöruna á Laugarnestanga, en þar er gróðurfar fjölbreytt. Plöntur verða greindar og fjallað um gróður svæðisins, og starfsemi flóruvina kynnt. Leiðsögn: Hjörtur Þorbjörnsson.
2. Reykjavík - Geldingatangi. Mæting kl. 13:30 við eiðið út í Geld-ingatanga. Leiðsögn: Rikharð Brynjólfsson.
3. Skorradalur. Mæting kl. 14:00 við bæinn Fitjar við austurenda Skorradalsvatns. Ekið þaðan lítinn spöl og gengið í friðaðan birkiskóg í Vatnshornslandi. Fólk hafi með sér nesti, en boðið er upp á jurtate. Leiðsögn: Þorvaldur Örn Árnason, Ragnheiður Elísabet Jónsdóttir og Jóhanna Berghild Hergeirsdóttir, en þau eru félagar í Sjálfboða-liðasamtökum um náttúruvernd sem verða þarna að störfum.
4. Borgarnes. Mæting kl. 10:00 við fólkvanginn Einkunnir, vestast í landi Hamars við Borgarnes. Leiðsögn: Guðrún Bjarnadóttir og Hilmar Már Arason.
5. Hvanneyri. Mæting kl. 13:00 á kirkjuhlaðinu á Hvanneyri. Leiðsögn: Björn Þorsteinsson.
6. Snæfellsjökull, þjóðgarður. Mæting kl. 14:00 við Búðakirkju. Gengið um plöntufriðlandið í Búðahrauni. Leiðsögn: Starfsfólk þjóðgarðsins.
7. Skarðsströnd. Mæting kl. 10:00 á Ytri-Fagradal. Gengið verður upp Nónhlíð á brún Fagradalsfjalls. Fjallið er ákaflega grösugt ofan og dásamlegt útsýni yfir Breiðafjörð. Farið eftir brúninni að Nýpurhyrnu, niður í Nýpurdal niður á veg. Boðið upp á jurtate að göngu lokinni, og bílferð til baka. Leiðsögn: Þóra Sigurðardóttir og Halla Steinólfsdóttir.
8. Breiðavík við Látrabjarg. Mæting kl. 14:00 við kirkjuna í Breiðavík. Leiðsögn: Hákon Ásgeirsson.
9. Ísafjörður. Mæting kl. 10:00 við skátabústaðinn Dyngju fyrir ofan Vegagerðina. Leiðsögn: Kristjana Einarsdóttir.
10. Hólmavík. Mæting kl. 10:30 við Galdrasýninguna á Hólmavík. Gengið verður inn með Steingrímsfirði. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir.
11. Ólafsfjarðarmúli. Mæting kl. 10:00 á bílastæðinu við gangamunnann að austanverðu. Gengið um hlíðarnar þar fyrir neðan og utan. Leiðsögn: Hörður Kristinsson.
12. Ásbyrgi. Mæting kl. 14:00 við Gljúfrastofu. Leiðsögn: Starfsfólk þjóðgarðsins.
13. Egilsstaðir, Fljótsdalshéraði. Mæting kl. 9:30 við Miðhús. Gengið verður í Taglarétt og um Miðhúsaskóg. Leiðsögn: Skarphéðinn G. Þórisson.
14. Neskaupstaður. Mæting kl. 10:00 á bílastæðinu við fólkvanginn. Gengið þaðan upp í hlíðina fyrir ofan vitann. Leiðsögn: Erlín Emma Jóhannsdóttir og Gerður Guðmundsdóttir.
15. Skaftafell. Mæting við Skaftafellsstofu kl. 14:00. Leiðsögn: Starfsfólk þjóðgarðsins.
16. Sólheimar í Grímsnesi. Mæting kl. 15:00 við Sesseljuhús á Sólheimum. Leiðsögn: Valgeir Bjarnason.
Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið með flóruvinum að þessum degi á hverjum stað fyrir sig undanfarin ár, meðal annarra Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrusetrið á Húsabakka, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.
Grafík: Merki Dags hinna villtu blóma á Norðurlöndum.
Birt:
Tilvitnun:
Hörður Kristinsson „Dagur hinna villtu blóma 2012“, Náttúran.is: 14. júní 2012 URL: http://nature.is/d/2012/06/14/dagur-hinna-villtu-bloma-2012/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.