Mikil og ómetanleg lífsgæði eru fólgin í því að hafa heilnæmt loft í umhverfi sínu. Hafnfirðingar munu kjósa í lok mánaðarins um það hvort að þeir hafi áhuga á því að fá stærsta álver Evrópu nálægt íbúabyggð bæjarins. Mikil og ómetanleg lífsgæði eru fólgin í því að hafa heilnæmt loft í umhverfi sínu. Hafnfirðingar munu kjósa í lok mánaðarins um það hvort að þeir hafi áhuga á því að fá stærsta álver Evrópu nálægt íbúabyggð bæjarins. Ekki munu þessar framkvæmdir einungis hafa áhrif á hafnfirsk heimili heldur alla landsmenn. -
Ljóst er að mengun frá álverinu mun aukast gríðarlega og er það umhugsunarvert vegna nálægðar við íbúðarbyggð í Vallarhverfi og Stór-Reykjavíkursvæðinu. Mengun kemur meðal annars í formi koltvíoxíðs og flúorkolefna (PFC-efni) en heildarlosun á þessum gróðurhúsalofttegundum verður um 805.000 tonn miðað við 460.000 tonna ársframleiðslu af áli á ári. Þess má geta að losun flúorkolefna sem eru sterkar gróðurhúsalofttegundir, munu jafngilda um 92.000 tonnum af koltvíoxíði. Til þess að átta sig á samhengi þessara stærða er áhugavert að benda á það að heildarútblástur koltvíoxíðs frá álverinu mun jafnast á við allan bílaflota landsmanna.
Svifrykslosun mun aukast meira en tvöfalt en nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar svifryks. Rannsókn var framkvæmd á 50.000 konum í Bandaríkjunum og niðurstöður sýndu það að líkurnar að deyja úr hjartasjúkdómum jukust um 76% og á heilablóðfalli um 83% fyrir hver 10 mg á rúmmetra svifryksmengunar. Niðurstöðurnar benda til þess að svifryk sé hættulegasta tegund loftmengunar sem til er.

Forsvarsmenn álversins í Straumsvík hafa hótað Hafnfirðingum því að fái þeir ekki að stækka muni þeir draga úr starfseminni innan fárra ára og að henni verði síðan sjálfhætt. Íbúar Hafnafjarðar eru ekki einir um að verða fyrir hótunum fyrirtækisins. Alcan hefur einnig gefið út þá yfirlýsingu gagnvart yfirvöldum í Kitimat í Bresku Kólumbíu að ef yfirvöld gangi ekki að skilmálum þeirra varðandi endursölu á umframorku muni þeir hætta við stækkun álversins og loka því. Forsvarsmenn Alcan gera út á þá ímynd meðal Hafnfirðinga að þeir séu kjölfestufyrirtæki í bæjarfélaginu. Eðli stórfyrirtækja er þannig að þau eru alltaf að leita að góðri arðsemi til að ávaxta peninga eigenda þess. Alþekkt er hvernig bandarískir bílaframleiðendur hafa lagt niður verksmiðjur sínar í N-Ameríku og flutt þær til landa þar sem vinnuafl er ódýrara. Í þeim aðgerðum hafa þúsundir manna misst vinnuna en ekki hafa fyrirtækin haft miklar áhyggjur af samfélagslegri ábyrgð sinni. Með því að samþykkja stækkun í kosningum í lok mars er langt frá því gulltryggt að Alcan verði hér um aldur og ævi. Þeir munu fara þegar þeim hentar en ekki þegar það er góður tími fyrir íbúa Hafnafjarðar. Er hægt að treysta fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að vera kjölfestufyrirtæki í bænum en stendur svo í hótunum við íbúa bæjarins í næsta orði?

Ef af stóriðjuframkvæmdum verður munu vextir til íslenskra heimila og fyrirtækja haldast háir. Árið 2009 gætum við búið við allt að 4% hærri stýrivexti en ella ef ekki væri þtt undir þessa miklu þenslu sem fylgir framkvæmdunum samkvæmt spá Kaupþing. Afborganir heimila af íbúðarlánum hækka og vextir af neyslulánum haldast háir vegna mikillar verðbólgu og hávaxtastefnu. Vegna stóriðjustefnunnar hafa verið gefin út krónubréf fyrir fleiri hundruð milljarða sem spila með þann mikla vaxtamun sem er á milli Íslands og annarra ríkja. Erlendir spákaupmenn hafa með þeim náð hreðjataki á íslenska hagkerfinu. Ljóst er að ef þeir hafa ekki lengur áhuga á að taka þátt í þeirri fjárfestingu gætum við séð fram á mikla lækkun á íslensku krónunni. Ef stóriðjustefnan fær að halda áfram hömlulaust er ljóst að áhrif spákaupmanna á íslenskt hagkerfi mun aukast enn frekar og með því erum við að fresta þeim mikla vanda sem við búum við í hagstjórn landsins, þ.e. skuldasöfnun og miklum viðskiptahalla við útlönd. Erlendir greiningaraðilar eru farnir að lýsa yfir áhyggjum sínum yfir mikilli skuldasöfnun landsins og ekki verður bót á því ef við förum að slá lán fyrir 160 milljarða króna stækkun álversins í Straumsvík. Allt er þetta nátengt stóriðjustefnu núverandi ríkisstjórnar sem hefur ekkert breyst þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar ráðamanna ríkisstjórnarflokkanna.

Með því að samþykkja stækkun álversins eru Hafnfirðingar að auka enn frekar áhrif Alcan á bæjarfélagið. Íslenskur almenningur mun halda áfram að borga hátt gjald stóriðjustefnunnar. Mikil fórn felst í því að setja bæinn í hendur stóriðjurisa með tilheyrandi mengun sem getur valdið miklum heilsufarslegum vandamálum.
-
Höfundur: Ólafur Örn Pálmarsson, náttúrufræðikennari.

Birt:
20. mars 2007
Tilvitnun:
Ólafur Örn Pálmarsson „Hver er fórnarkostnaður stærra álvers í Straumsvík?“, Náttúran.is: 20. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/fornarkostn_straumsvik/ [Skoðað:17. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 1. maí 2007

Skilaboð: