Afrakstri sumars komið í hús
Margir rækta grænmeti í görðum sínum. Hildur Hákonardóttir heldur í september tveggja kvölda námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um hvernig best megi nýta afrakstur sumarsins.
Námskeiðið Að nýta afrakstur sumarsins tekur tvö kvöld. Fyrra kvöldið grípur Hildur Hákonardóttir niður í sögu lækninga- og nytjajurta og stiklar á ýmsu úr sögu vestrænnar matarhefðar. Síðara kvöldið fer í hagnýtar ráðleggingar, hvaða jurtir má þurrka, sulta, sýra, salta, frysta, leggja í olíur eða vínanda.
"Á haustin fáum við uppskeru rótarávaxta og káls sem þarf að sinna og koma í hús, því ekki ætlum við að rækta grænmeti til að missa það svo úr höndunum á okkur," segir Hildur og nefnir að aðal geymsluaðferðirnar séu fjórar. Það eru frysting, kalda geymslan, þurrkun og súrsun. Hún nefnir sem dæmi að ber megi frysta en einnig brokkolí og blómkál. Hvítkálið sé hins vegar best fallið til súrsunar.
Einnig má láta grænmeti standa úti fram á veturinn að sögn Hildar. Þá verður þó að velja tegundir sem ekki er hætta á að tréni. Hildur nefnir sem dæmi að grænkál og rósakál geti staðið lengur enda megi það frjósa. "Þá geta gulrætur verið í garðinum alveg fram að jólum," bætir hún við. Hún segir meginstefnu sína í ræktun vera að hafa ferskt grænmeti níu til tíu mánuði ársins, og vinna það því sem minnst. "Ég vil komast sem léttast frá þessu," segir hún og hlær.
Á námskeiðinu mun hún fara yfir flóruna af plöntum sem má rækta og hvaða geymsluaðferð er heppilegust fyrir hverja. Hún segir þó ekki hægt að kenna frágang á grænmeti eins og stærðfræðiformúlu því það fari eftir aðstæðum hvers og eins, hvaða geymsluaðferð henti best.
Námskeiðið fer fram á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands dagana 13. og 15. september en skráningarfrestur er til 6. september.
Myndin er af Hildi Hákonardóttur í garði sínum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Afrakstri sumars komið í hús “, Náttúran.is: 10. ágúst 2010 URL: http://nature.is/d/2010/08/10/afrakstri-sumars-komid-i-hus/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.