Ross Beaty hagræðir sannleikanum erlendis - Segir takmarkaðar auðlindir óþrjótandi
Ross Beaty, forstjóri Magma Energy, hefur haldið því fram í viðtölum við erlenda fjölmiðla að varmaorka á Íslandi sé óþrjótandi – að hún muni endast ekki aðeins fyrir næstu kynslóðir heldur í þúsundir ára. Þannig virðist Beaty ekki taka mark á íslenskum vísindamönnum sem telja óvíst hvort unnt sé að virkja háhitasvæði lengur en í 50 ár.
Í viðtali við Business News Network í september í fyrra sagði Ross Beaty:
„Frá því ég stofnaði Magma í fyrra hefur það verið ætlunin að mynda stærsta orkufyrirtæki í jarðvarma í heiminum. Við munum gera það með hefðbundnum aðferðum; þú uppgötvar, þú byggir, þú framkvæmir og þú kaupir. Það eru engin töfrabrögð á bakvið þetta, þú vinnur mikið og hugsar stórt. Einmitt það sem við erum að gera.“
Þá ber Beaty saman jarðvarmaorku og námuiðnað, sem hann hefur efnast á og er þekktastur fyrir.
„Helsti munurinn á jarðvarma og námuiðnaði – fyrir utan að jarðvarmaiðnaður er grænn og hreinn – er að þessar orkuauðlindir endast að eilífu. Þessar auðlindir munu endast kynslóðir eftir kynslóðir, ef ekki þúsundir ára. Þetta er svalur bissness,“ sagði hann.
Stefnir að þúsund megavöttum
„Markmið okkar er að virkja um þúsund megavött árlega innan tíu ára, þannig yrðum við stærsti virkjandi jarðvarmaorku heims. En ef við verðum enn stærri, þá er það bara enn betra. Því meira sem þú nærð að vaxa, því meira fjármagn færðu og fjármagnskostnaður verður minni,“ sagði hann jafnframt.
Nokkrir Íslendingar rifja upp þetta viðtal við Ross Beaty í ummælakerfi kanadíska blaðsins Globe and Mail, en blaðið birti á mánudaginn var viðtal við Beaty. Er Beaty kveðinn í kútinn með nokkur atriði, m.a. að íslenskir vísindamenn telja óvíst hvort orkuauðlindir í jarðvarma endist lengur en 50-60 ár, auk þess sem draumar um eitt þúsund megavött eru vægat sagt skýjaborgir miðað við núverandi aðstæður.
Benda Íslendingarnir á það að Beaty er aldrei spurður þessara spurninga í kanadískum fjölmiðlum. Þar fær hann að slá um sig með alhæfingar af þessu tagi í þeim tilgangi að fá fjárfesta til liðs við Magma Energy. Á meðal þeirra sem þar tjá sig er Jón Þórisson, aðstoðarmaður Evu Joly á Íslandi og samherji Bjarkar Guðmundsdóttur í baráttunni gegn fjárfestingu Magma á Íslandi.
Mynd: Ross Beaty er brattur á erlendum vettvangi. Segir jarðvarma endast að eilífu, þó vísindamenn segi annað, og að hann muni brátt virkja þúsund megavött á ári.
Birt:
Tilvitnun:
NA „Ross Beaty hagræðir sannleikanum erlendis - Segir takmarkaðar auðlindir óþrjótandi“, Náttúran.is: 21. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/21/ross-beaty-hagraedir-sannleikanum-erlendis-segir-t/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.