Dagur hinna villtu blóma verður næst haldinn sunnudaginn 13. júní árið 2010. Þann dag gefst fólki víðs vegar um landið kostur á að fara í tveggja tíma gönguferð um nágrenni sitt án endurgjalds, og fá leiðsögn um algengustu plöntur sem þar vaxa. Neðst á þessari síðu er tengill inn á síður fyrri blómadaga, allt frá árinu 2004 þegar hann var fyrst haldinn hér á Íslandi.

Gönguferðir þessar eru ókeypis fyrir þátttakendur, og ekki þarf að tilkynna þátttöku fyrir fram, heldur aðeins mæta á auglýstum stað á réttum tíma. Hversu víða hægt er að bjóða upp á plöntuskoðun fer eftir því hversu margir sjálfboðaliðar fást til að veita leiðsögn.

Árið 2010 er áætlaðar plöntuskoðunarferðir á eftirtöldum stöðum:

1. Sog á Reykjanesskaga. Mæting kl. 13:00 á borholuplaninu við Sog (framhjá Trölladyngju og upp brekkuna). Beygið út af Reykjanesbraut við Kúagerði í átt að Keili. Við háspennulínu er snarbeygt til hægri og ekið að Höskuldarvöllum og fram með Trölladyngju. Leiðbeinendur: Ragnheiður E. Jónsdóttir og Jóhanna B. Hergeirsdóttir.

2. Laugarnestangi í Reykjavík. Mæting kl. 11:00 við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga. Leiðsögn: Hjörtur Þorbjörnsson, safnvörður Grasagarðs Reykjavíkur. Gengið um Laugarnestanga, en þar er gróðurfar fjölbreytt. Fjallað verður um gróður svæðisins og plöntur greindar til tegundar.

3. Kópavogsdalurinn. Mæting kl. 13:00 á bílastæðinu við Digraneskirkju. Í ferðinni verður leitast við að kynna fyrir fólki þær villtu plöntutegundir sem fyrir augu ber á þessu vinsæla útivistarsvæði. Genginn verður tiltölulega stuttur hringur en farið rólega yfir svo öllum hæfi. Leiðbeinandi: Gróa Valgerður Ingimundardóttir.

4. Hvanneyri. Mæting kl. 10:00 við kirkjuna á Hvanneyri. Leiðsögn um plöntur með grasnytja- og þjóðtrúarívafi. Leiðbeinandi: Guðrún Bjarnadóttir.

5. Snæfellsnesþjóðgarður. Mæting á Búðum kl. 14:00. Farið verður um Búðahraun, en þar er einstakt blómaskrúð og sjaldæfir og stórir burknar. Leiðbeinandi: Guðrún Lára Pálmadóttir.

6. Skarðsströnd við Breiðafjörð. Mæting á bænum Ytra-Fagradal á Skarðsströnd kl. 13:00. Gengið verður verður að ósum Fagradalsár, og með fjörunni að Nýpurdal og heim að bænum Nýp. Leiðbeinendur: Þóra Sigurðardóttir og Halla Steinólfsdóttir.

7. Ísafjörður. Mæting kl. 14:00 á bílastæðinu við tjaldstæðið í Tunguskógi. Leiðbeinendur: Kristjana Einarsdóttir og Christian Gallo.

8. Hólmavík. Mæting við sundlaugina á Hólmavík kl. 14:00. Leiðsögn: Hafdís Sturlaugsdóttir.

9. Naustaborgir á Akureyri. Mæting kl. 14:00 við hlið Naustaborga að norðaustan, skammt ofan Sómatúns í Naustahverfi. Leiðbeinandi: Hörður Kristinsson.

10. Grund í Eyjafirði. Mæting við hliðið á trjáreitnum ofan við Grund kl. 10:00 fyrir hádegi. Skoðaðar verða villtar plöntur í nágrenni reitsins og inni í honum, ásamt gömlum, ræktuðum trjám. Leiðbeinendur verða Hörður Kristinsson og Helgi Þórsson.

11. Vatnajökulsþjóðgarður í Ásbyrgi. Mæting við Gljúfrastofu kl. 14:00. Farið verður um Ásbyrgi. Leiðbeinandi: Jóna S. Óladóttir, landvörður.

12. Grímstorfa á Fljótsdalshéraði. Mæting kl. 9:30 við heimreiðina að Hafrafelli. Gengið verður undir Hafrafellinu að Grímstorfu og farið upp í hana. Gert er ráð fyrir að öll ferðin taki 3-4 tíma, og fólk er beðið að vera vel skóað. Leiðbeinandi: Skarphéðinn G. Þórisson.

13. Neskaupstaður. Mæting kl. 10:00 á bílastæðinu við Norðfjarðarvita. Gengið verður út í Fólkvang Neskaupstaðar, um Haga, Urðir og upp í Skálasnið. Leiðbeinandi: Erlín Emma Jóhannsdóttir.

14. Vatnajökulsþjóðgarður í Skaftafelli. Mæting við þjónustumiðstöðina í Skaftafelli kl. 14:00. Leiðbeinandi: Hálfdán Björnsson.

15. Kirkjubæjarklaustur. Mæting við Skaftárskála kl. 16:00. Gengið að Hæðargarðsvatni og um Landbrotshóla. Leiðbeinendur: Ólafía Jakobsdóttir og Snorri Baldursson.

16. Sólheimar í Grímsnesi. Mæting kl. 13:00 við Sesseljuhús - umhverfissetur á Sólheimum. Leiðbeinandi: Sigurður H. Magnússon.

Flóruvinir standa fyrir degi hinna villtu blóma, og veita leiðsögn sem sjálfboðaliðar. Ýmsar stofnanir hafa stutt og staðið  með flóruvinum að þessum degi á hverjum stað fyrir sig, meðal annarra Grasagarðurinn í Laugardal, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Hólaskóli, Landbúnaðarháskóli Íslands, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrufræðistofur landshlutanna og Umhverfisstofnun.

Flóruvinir og aðrir sem eru reiðubúnir til að standa fyrir plöntuskoðunarferð á blómadaginn eru hér með beðnir að láta vita á póstfangið hkris@nett.is fyrir 15. maí næstkomandi. Taka þarf fram hvar fólk á að mæta, og á hvaða tíma dagsins 14. júní.

Gjarnan mættu einnig fylgja með upplýsingar um hvað markverðast er að sjá á því svæði sem skoðað verður. Upplýsingum verður safnað saman hér á vefsíðuna eins og gert hefur verið síðastliðin ár.

Dagur hinna villtu blóma hefur síðan 2004, þegar Íslendingar bættust í hópinn,  verið haldinn á öllum Norðurlöndunum ásamt Færeyjum og Grænlandi.

Birt:
June 11, 2010
Tilvitnun:
Hörður Kristinsson „ Dagur hinna villtu blóma “, Náttúran.is: June 11, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/06/11/dagur-hinna-villtu-bloma/ [Skoðað:June 20, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: