Að skurna kartöflur
Faðir minn kenndi mér að skurna kartöflur. Þá geymast kartöflurnar eins og þær væru nýjar fram á vor. Ekki veit ég hvar hann lærði þetta, og við gerðum það ekki fyrr en nokkru eftir stríð. Strax og kartöflurnar eru teknar úr moldinni eru þær þvegnar, þurrkaðar og látnar standa í dimmu og sæmilega upphituðu rými í 10–12 daga.
Svo finnur hver sitt lag. Ef garðurinn er heima við er stundum auðveldast að taka kartöflurnar upp smám saman. En það er líka hægt að taka allt upp í einu og þvo á jörðinni, kannski á plastdúk með slöngu. Mér fellur best að taka upp eins og tvær fötur af kartöflum í einu og þvo þær strax. Það er mikilvægt að moldin þorni ekki á kartöflunum, því þá verður þvotturinn tvöfalt erfiðari og allt í lagi að hafa vatnið aðeins volgt til að hlífa höndunum. Svo læt ég kartöflurnar þorna á borði í dimmum bílskúr ofan á akrýldúk og ef grindur eru undir sígur vatnið strax niður en annars tekur það svolítið lengri tíma eftir hitastigi. Eins er hægt að láta kartöflurnar þorna úti við, bara ef sól skín ekki á þær. Þegar þær eru orðnar þurrar eru þær flokkaðar eftir stærðum og dagsetning krotuð á miða og sett hjá. Kartöflunum er síðan raðað í kassa og þær þurfa að standa við 12–16 gráðu hita, annaðhvort í geymslu eða í volgum bílskúr. Þar þurfa þær að standa í myrkri í 10–12 daga. Þetta þýðir að kartöflur, sem eru teknar upp þrjá daga í röð, geta farið í sama kassa. Við svona verk þarf alltaf að finna sitt eigið vinnulag – ef hitinn er til dæmis hærri má geyma kartöflurnar aðeins skemur áður en þær eru svo settar í eins kalda geymslu og völ er á.
Þegar kartöflur eru teknar upp er hýðið viðkvæmt og rifnar oft og þarf að fara um þær mjúkum höndum. Þær vilja springa ef þær detta eða þeim er hent hranalega í fötur eða kassa. Þegar kartöflur eru þvegnar veikist húðin enn meir en skurnunin veldur því að hýðið grær og þykknar, en þó ekki meira en svo að hægt er að borða þær með hýðinu fram í júní. Það er mikið verk að þvo kartöflurnar allar á haustin en líka skemmtilegt að þurfa aldrei að gera það yfir veturinn og þurfa varla að skræla eina einustu kartöflu árið um kring nema þær hafi lent í kláða eða öðru húðvandamáli. Það er til saga um fátæk hjón norður á Ströndum, sem áttu lítið eitt snemmvorið nema kartöflur. Þau suðu kartöflurnar, flysjuðu þær og gáfu börnunum, svo þau fengju nóg, en átu sjálf aðeins hýðið. Þegar komið var fram á sumar voru börnin orðin lasleg en foreldrarnir, sem átu aðeins kartöfluflusið, voru hraustir og sprækir. Kartöflusoð hefur læknað liðagigt.
Reglan er auðvitað sú að borða smælkið og litlu kartöflurnar fyrst. Þegar ég var barn þótti mér smælkið yfirmáta gott, líklega í og með af því að þetta voru fyrstu nýju kartöflurnar sem við fengum. Þess vegna er mér gjarnt að gefa smælki sem sérstakar vinargjafir. Ekki þær alsmæstu, sem eru óþroskaðar og enn ekki búnar að fá bragð, heldur þessar sem eru á stærð við kirsuberjatómata. Þegar tekið er upp fellur alltaf eitthvað til af erfiðum kartöflum, snigil- eða músétnum, gaffalstungnum, sprungnum eða illa hrúðruðum kartöflum, sem ekki er hægt að geyma til vetrarins. Ef skemmdin er þess eðlis að það megi nema hana í burt þannig að eitthvað gott og ætt standi eftir, er upplagt að muna eftir uppskriftum sem nota sundurskornar kartöflur eða stappaðar. Þær grænu eru ekki notaðar.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Ljósmynd: Nýuppteknar og hreinsaðar Premium kartöflur lagðar til þurrkunar, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Að skurna kartöflur“, Náttúran.is: 12. september 2014 URL: http://nature.is/d/2009/08/13/ao-skurna-kartoflur/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 13. ágúst 2009
breytt: 12. september 2014