Nytjar á dýrum úr villtri náttúru
Félagið Matur-Saga-Menning stendur fyrir fræðslufundi í Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði næstkomandi fimmtudag klukkan 20.
Tveir valinkunnir náttúruunnendur segja frá sínum sérsviðum á fundinum, þeir Stefán Hrafn Magnússon hreindýrabóndi á Grænlandi, sem mun skýra frá hreindýraveiðum og -nytjum, og Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður, sem mun gera grein fyrir öflun og nytjum á svartfugli, einkum lunda, og því gagni sem menn hafa haft af fýl.
Fundurinn er hluti af fyrirlestraröð sem félagið ætlar að standa fyrir í vetur um nytjar á dýrum úr villtri náttúru Íslands. Meðal þess sem til stendur að fjalla um eru rjúpur, endur, gæsir og fleiri fuglar, veiðar og nytjar á fiski úr ám og vötnum auk fjörunytja.
Þess skal getið að félagið hefur frá stofnun árið 2006 lagt áherslu á að kynna íslenskan mat og matarhefðir í víðum skilningi fyrir landsmönnum, meðal annars með sýningum, ferðalögum og erindaflokkum sem snerta meginmarkmið þess.
Veitingar verða seldar á staðnum á fimmtudag. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.
Ljósmynd: Hreindýr, af vef Umhverfisstofnunar.
Birt:
Tilvitnun:
Matur - Saga - Menning „Nytjar á dýrum úr villtri náttúru“, Náttúran.is: 19. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/19/nytjar-dyrum-ur-villtri-natturu/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.