Svifryk 23 sinnum yfir heilsuverndarmörk árið 2010
Svifryk 23 sinnum yfir heilsuverndarmörk árið 2010
Gjóska frá öskufallssvæðinu við Eyjafjallajökul hefur átta sinnum valdið því að styrkur svifryks fór yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík. Hæst fór styrkurinn í 500 míkrógrömm á rúmmetra 4. júní sl. Mörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Árið 2010 hefur styrkur svifryks þegar farið 23 sinnum yfir heilsuverndarmörk í Reykjavík þar af átta sinnum vegna gjósku. Fimm skipti eru rakin til bílaumferðar og tvö til flugeldamengunar. Önnur skipti skrifast á uppþyrlun ryks frá jörðu, mengunar frá Evrópu og sandstorma frá Suðurlandi.
Anna Rósa Böðvarsdóttir tekur reglulega saman yfirlit um loftmengun í Reykjavík en Umhverfis- og samgöngusvið hefur undanfarin ár rekið mælistöðvar við Grensásveg og í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, nú ásamt Umhverfisstofnun. Sviðið rekur einnig færanlega mælistöð. Samkvæmt reglugerð mátti styrkur svifryks einungis fara sjö sinnum yfir mörkin í Reykjavík en Eyjafjallajökull og aðrir þættir settu strik í reikninginn.
Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) sem verður til vegna útblásturs frá bifreiðum hefur á árinu farið einu sinni yfir sólarhrings – heilsuverndarmörk við Grensásveg en má fara sjö sinnum yfir samkvæmt íslenskri reglugerð. Mörkin eru 75 míkrógrömm á rúmmetra.
Brennisteinsvetni (H2S) hefur tvisvar sinnum farið yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk árið 2010 en má fara fimm sinnum á ári samkvæmt íslenskum viðmiðum í nýlegri reglugerð. Flest skiptin voru í janúar 2010 vegna kulda, austanáttar, hægviðris og lagskiptingar lofts. Mörkin eru 50 míkrógrömm á sólarhring.
„Við höfum þegar gefið út 12 tilkynningar á árinu 2010,“ segir Anna Rósa, en það er gert til að vara einstaklinga með viðkvæm öndunarfæri við loftmengun. Götur hafa tvisvar verið rykbundnar með saltpækli. „Við sendum einnig ábendingar til almennings og stofnanna um hvernig draga megi úr loftmengun af mannavöldum, til dæmis með því að nota bílinn minna, forðast nagladekk en þau spæna upp malbikið, nota strætó, hjóla og ganga til og frá vinnu,“ segir Anna Rósa. Hún minnir á að nagladekk eru talin óþörf í Reykjavík þótt leyfilegt sé að nota þau frá 1. nóvember ár hvert. Þau valda mengun, hávaða og eru kostnaðarsöm því þau spæna upp malbikið margfalt hraðar en venjuleg vetrardekk. Allt sem þarf er varkárni við akstur.
Upplýsingar um loftgæði eru að finna á heimasíðu Umhverfis- og samgöngusviðs. Daginn sem svifryksgildin fóru í 500 míkrógrömm á rúmmetra fóru notendur rúmlega 33. þúsund sinnum inn á heimasíðu Umhverfis- og samgöngusviðs.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Svifryk 23 sinnum yfir heilsuverndarmörk árið 2010 “, Náttúran.is: 18. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/18/svifryk-23-sinnum-yfir-heilsuverndarmork-arid-2010/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.