Vísindarannsóknir sýna að erfðabreyttar plöntur eru ekki öruggar
Í grein sinni í Fréttablaðinu 22. sept. s.l. gerir Eiríkur Sigurðsson tilraun til að skrifa burtu vísindi sem sýna áhættu af völdum erfðabreyttra plantna.
Eiríkur fullyrðir að Orf líftækni muni nota leyfi sitt til ræktunar á erfðabreyttu (eb-) byggi í samræmi við íslensk lög. Leyfi Orf var veitt til tilrauna í rannsóknaskyni, ekki til ræktunar fyrir framleiðslu. Þó hefur Orf síðar lýst yfir að fyrirtækið hyggist stunda “stórfellda ræktun”. Þar sem Orf hefur aðeins ræktunarleyfi í Gunnarsholti má reikna með að þar verði þau áform framkvæmd. Hvernig ætlar Orf að nota tilraunaleyfi til framleiðsluræktunar? Hafi Umhverfisstofnun (Ust) veitt leyfið á þeirri forsendu að um stórfellda ræktun yrði að ræða, hversvegna setti hún þá skilyrði fyrir leyfinu sem eiga við um litla tilraunareiti – þ.e. að hver svæði sé girt rafgirðingu og þakið netum? Er hugsanlegt að leyfið sé ætlað til tilrauna á nokkrum blettum innan leyfðra 10 ha en ekki til stórfelldrar ræktunar á heilum 10 ha?
Eiríkur minntist ekki á að áform Orf um “stórfellda” útiræktun myndu setja Ísland í sérflokk í Evrópu. Engin leyfi hafa verið veitt innan ESB til stórfelldrar útiræktunar á eb- lyfjaplöntum. Einungis tilraunaræktun á litlum skikum (að jafnaði hálfur ha) hefur verið leyfð með eb- lyfjaplöntur. Líftæknifyrirtæki sem sækja um leyfi til stórfelldrar ræktunar (til markaðssetningar afurða) innan ESB þurfa að leggja fram niðurstöður dýrarannsókna. Þar sem Ust mundi tæpast vilja Ísland á skjön við Evrópu og Ust hefur aldrei krafið Orf um dýratilraunir hlýtur Ust að hafa reiknað með að umrædd leyfi verði ekki notuð til stórfelldrar ræktunar.
Eiríkur fjallar um vísindahugtak sem etv. má nefna flata genafærslu (Horizontal Gene Transfer). Hún gerist þegar erfðaefni (DNA) í eb- plöntum sundrast ekki í meltingarvegi heldur berst úr þörmum í líffæri þess sem neytir þeirra. Eiríkur virðist viðurkenna að þetta gerist en heldur því fram að DNA úr eb- plöntum sé engu skaðlegra en DNA úr öðrum plöntum. Hefur hann enga hugmynd um vaxandi fjölda rannsókna sem sýna að eb- fóður valdi alvarlegu heilsutjóni á dýrum? A.m.k. 14 óháðar og ritrýndar rannsóknir hafa leitt í ljós að tilraunadýr fóðruð á eb- afurðum urðu fyrir skaða á nær öllum helstu líffærum. Nefnum örfá dæmi: Rottur sem fengu eb- tómata mynduðu magasár. Dánartíðni afkvæma var fjórföld hjá rottum sem fengu eb- soja í samanburði við rottur sem fengu venjulegt soja. Kanínur sem fengu eb- soja sýndu truflanir á ensímbúskap í nýrum og hjarta. Rottur sem fengu eb- maís þróuðu vandamál í starfsemi lifrar og annarra hreinsilíffæra, svo og á hjarta, milta, nýrum og nýrnahettum. Rannsóknir á sauðfé sem fóðrað var á eb- maís í þrjár kynslóðir sýndu truflanir á starfsemi meltingarkerfis í fullorðnum ám og á lifur og brisi í lömbum þeirra.
Tvær nýlegar rannsóknir, önnur birt í tímaritinu Fisheries Science (2008) og hin í Aquaculture Research (2009), sýndu að fiskur (regnbogasilungur og beitarfiskur) sem fékk erfðabreytt fóður hafði DNA úr eb- plöntum í nær öllum innri líffærum. Eiríkur reynir allt til að gera lítið úr þessu með því að ræða önnur atriði rannsóknanna. Mikilvægasta niðurstaða þessara rannsókna er að ´flöt genafærsla´ á sér stað í fiski. Verði tilraunadýr og búfé fyrir tjóni á líffærum þegar erfðabreytt efni berast í líffæri þeirra er líklegt að hið sama gerist í fiskum. Reikna má með að framhaldsrannsóknir verði gerðar úr því að þessi hætta blasir nú við.
Ekki þarf að undra þótt erfðabreyttar plöntur valdi skaða þegar venjulegar plöntur gera það ekki, enda er um gjörólíkar plöntur að ræða. Eb- mat- og fóðurjurtir innihalda DNA sem ekki hefur áður verið hluti af fæðu manna og dýra. Erfðatækni breytir hefðbundnum plöntum með sn. genasmíð, sem ekki er bara samsett úr framandi geni (t.d. úr dýrum, skordýrum, fiski, jafnvel mönnum), heldur líka bakteríu, vírus og geni sem framkallar sýklalyfjaónæmi. Matvælum og fóðri er veruleg áhætta búin frá öllum þessum fjórum þáttum (sjá www.erfdabreytt.net).
Sá vísindaveruleiki blasir við að erfðabreyttar plöntur eru gjörólíkar hefðbundnum plöntum. Hvar sem þær eru ræktaðar til matar, fóðrunar eða lyfjapróteina skapa þær heilsufarsáhættu fyrir líf á landi og í legi sem við erum rétt að byrja að skilja. Erfðabreyttar lyfjaplöntur eru einkum áhættusamar vegna þess að þær framleiða prótein til nota í lyf og lækningaefni. Fyrirbyggja verður að þessi lífvirku prótein komist í mat eða fóður, beint eða óbeint, hvort sem er með vindi, jarðvegi eða vatni. Eina örugga leiðin til ræktunar erfðabreyttra lyfjaplantna er í lokuðum húsum með föstum gólfum.
Höfundur er sjálfstætt starfandi ráðgjafi.
Myndin er tekin af tilraunareit Orfs líftækni með erfðabreyttu bygg í Gunnarsholti. Ljósmynd: Hákon Már Oddsson.
Birt:
Tilvitnun:
Sandra B. Jónsdóttir „Vísindarannsóknir sýna að erfðabreyttar plöntur eru ekki öruggar“, Náttúran.is: 16. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/16/visindarannsoknir-syna-ad-erfdabreyttar-plontur-er/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 20. október 2011