Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands segir:

Nú neita þeir pólitíkinni ákaft stjórnmálamennirnir. Ákvarðanir Landsvirkjunar séu teknar á viðskiptalegum forsendum en ekki pólitískum. Þetta er þekkt aðferð stjórnmálamanna til að koma sér hjá gagnrýni eða falla frá fyrri ákvörðunum án þess að viðurkenna það.

Árni Mathiesen lýsti því yfir í viðtali við Fréttastofu RÚV á sunnudaginn að ríkisstjórnin hefði ekki skipað Landsvirkjun að selja ekki orku til álvera. Hann segir að LV hafi farið að eigin stefnu. Spurður hvort rætt hafi verið í ríkisstjórn hvort rétt sé að stjórnvöld beiti tækjum sínum til að hægja á álversframkvæmdum vildi fjármálaráðherra ekkert segja og sagði ekki til siðs að ræða hvað rætt væri ríkisstjórn.

Geir fór fínna í það í viðtali við RÚV í gærmorgun. Hann sagði að álver í Helguvík væri ekki á könnu á LV og engin ákvörðun verið tekin [í ríkisstjórn] um að hætta við að byggja hér upp orkufrekan iðnað.



Hvort heldur menn segja að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar hafi verið tekin á pólitískum eða viðskiptalegum forsendum er það meiri háttar stefnubreyting að hætta við orkusölu til nýrra álvera á suður- og vesturlandi; stefna sem verið hefur í gildi í fjóra áratugi.

Hafa ber í huga að aðeins eitt lítið álver til viðbótar rúmast innan hins íslenska undaný águákvæðis vegna Kyoto-bókunarinnar. Heildarundaný ágan er 8 milljónir tonna af koltvísýringi á tímabilinu 2008 – 2012 eða 1600 þúsund tonn á ári að meðaltali. Verði reist tvö ný álver til víðbótar yrði heildarlosun koltvísýrings komin um eða yfir 2 milljónir tonna á ári í lok 2012. Ísland hæfi þá næsta skuldbindingartímabil með verulega hærri losun en meðaltal hins fyrsta kveður á um og það er ekki að semja í góðri trú í ljósi þess að aðildarríki Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna eru nú að semja um verulegan samdrátt eftir 2012. Tvö ný álver verða ekki byggð án þess að ganga gegn yfirlýstum samningsmarkmiðum alþjóðasamfélagsins.

Össur Skarphéðinsson sagði í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar þann 4. nóvember, að

... Eins og málum er nú háttað hafa stjórnvöld engin bein stjórntæki til þess að stýra uppbyggingu stóriðju á landinu – eða hafa áhrif á staðsetningu hennar eða tímasetningar byggingaráfanga. Þannig gæti bygging álvers í Helguvík hafist á fyrri hluta næsta árs (2008) án þess að ríkisvaldið hafi haft nokkuð með framvindu þess máls að gera. Forsendur slíkra framkvæmda eru aðallega að samningar hafi náðst um kaup á raforku og flutningi hennar og að kröfur laga um umhverfis- og skipulagsmál séu uppfyllt. Stjórnvöld hafa engin tæki til að stýra framkvæmdum, þannig að þær falli sem best að æskilegustu efnahagsýróun, t.d. framboði á innlendu starfsfólki, stöðu framkvæmda í víðara samhengi og öðrum hagvaxtarþáttum. Í þessu felst m.a. eins og ég sagði áðan að stjórnvöld geta ekki haft áhrif á tímasetningar framkvæmda eða hvar þær væru best í sveit settar, t.d. miðað við markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnun búsetuskilyrða og félagslegra lífsgæða. Stjórnvöld verða, í þessu tilliti, að lúta því sem að hendi ber hverju sinni. Þetta er að mínu mati óviðunandi, og þarfnast rækilegrar skoðunar.

Við Fréttablaðið daginn eftir sagði Össur:

Svigrúm til uppbyggingar álvera hér á landi er minna en ýmsir halda. Gangi öll áform um uppbyggingu upp mun framleiðslugeta Íslands á raforku verða fullnýtt. Svigrúm til aukinnar álframleiðslu hér á landi takmarkast auk þess af heimildum til losunar gróðurhúsalofttegunda.

Draga verður þá ályktun af ummælum Össurar að stjórnvöld kjósi fremur að álver verði fremur reist á Húsavík fái þau nokkru um það ráðið.

Tveimur dögum síðar, þann 7. nóvember, sagði Davíð Oddsson við Fréttblaðið, að

Orkan í fallvötnunum eða eftirspurn eftir henni hverfur ekki þótt menn breyti tímasetningum á framkvæmdum.

Fréttablaðið hefur eftir honum að „Nú sé hagfellt að menn pústi aðeins í efnahagslífinu. Aðstæður þar skipti miklu máli við tímasetningu framkvæmda og skattalækkana."

Það eru ekki miklar líkur á að menn tapi nokkrum tækifærum, segir Davíð við Fréttablaðið. Frekar sé hugsanlegt að eftirspurn eftir orku aukist. Smá bið geti hugsanlega orðið til þess að samningsstaðan batnaði. Aðstæður í efnahagslífinu kný i ekki á um þetta nú.

S.l. föstudag tók svo stjórn Landsvirkjunar ákvörðun um að ekki virkja fyrir ný álver nema fyrir norðan. Greinilegt er að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar hafði verið þaulrædd innan stjórnarráðsins og Seðlabankans.

Markmið stjórnvalda er í fyrsta lagi að hemja þenslu, í öðru lagi að koma í veg fyrir offjárfestingu í álframleiðslu (ekki setja öll eggin í sömu körfu líkt og Björn Ingi Hrafnsson orðaði það pent í Morgunblaðinu í gær), í þriðja lagi að minnka líkur á að Ísland fari fram úr skuldbindingingum sínum gagnvart Kyoto-bókuninni og – í fjórða lagi – verði nýtt álver byggt – tryggja að "markmið ríkisstjórnarinnar um jöfnun búsetuskilyrða og félagslegra lífsgæða." eins og Össur orðað það.

Afstaða borgarstjórnar
Í hádegisfréttum RÚV í dag jánkaði sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, spurningu fréttamanns um hvort til greina kæmi að fallið verði frá Bitru-virkjun.

Dagur B. Eggertsson svaraði hreinskilningslega en vandræði borgarstjóra eru þau að lög um mat á umhverfisáhrifum skipta harla litlu máli í þessu samhengi. Yfirlýsing sveitarstjóra Ölfuss í Fréttablaðinu 9. nóvember um að

... sveitarfélagið [hafi] úrslitavald að lokum og getur tekið aðra ákvörðun en Skipulagsstofnun, eins og við gerðum með námuna í Ingólfsfjalli.

er til marks um að landsstjórnin hefur engin stjórntæki í sínum höndum til að halda aftur af framkvæmdum sem sveitarstjórnir sækjast eftir að koma á koppinn. Við þær aðstæður verður meirihluti Borgarstjórnar að sannfæra stjórn Orkuveitu Reykjavíkur um að skynsamlegast sé að hægja verulega á virkjanaferlinu. Við hljótum að treysta á að Vinstri Græn og Samfylkingin beiti sér gegn Bitru- og Hverahlíðarvirkjun og þar með orkusölu til Helguvíkur. Ummæli Björns Inga Hrafnssonar í Morgunblaðinu í gær gefa til kynna að hann sé sveigjanlegur.
Birt:
14. nóvember 2007
Tilvitnun:
Náttúruverndarsamtök Íslands „Fallið frá stóriðjustefnu - nema fyrir norðan“, Náttúran.is: 14. nóvember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/11/14/fallio-fra-storiojustefnu-nema-fyrir-noroan/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: