Rauða eiturleðjan sem slapp úr úrgangslóni við súrálverksmiðju í Ungverjalandi hefur borist út í Dóná. Vonast er til að leðjan þynnist nægilega út í vatnsmiklu fljótinu svo skaðinn verði ekki mikill.

Leðjan rann úr lóninu á mánudag og olli gríðarlegu tjóni á fjörutíu ferkílómetra svæði, en hefur síðan verið að berst niður eftir ám og vatnaleiðum frá þessu svæði í áttina til Dónar, sem er næstlengsta fljót Evrópu.

„Öllu lífi í ánni Marcal hefur verið útrýmt," segir Tibor Dobson, talsmaður almannavarna í Ungverjalandi. Hann sagði björgunar­fólk enn vinna hörðum höndum að því að dæla bæði gifsefnum og ediksýru út í ána Raba þar sem hún rennur út í Dóná, í því skyni að draga úr skaðsemi leðjunnar og minnka tjónið.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, sagði slysið ekki eiga sér nein fordæmi í sögu Ungverjalands.

„Ef þetta hefði gerst að nætur­lagi hefðu allir hér látið lífið," sagði hann þegar hann kom til Kolontar í gær. „Þetta er svo mikið ábyrgðarleysi að yfir það er ekki hægt að finna nein orð.

Mynd: Greenpeace aktivisti tekur sýni af rauðu eðjunni. Xinhuanet.

Birt:
8. október 2010
Höfundur:
ab
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
ab „Eitureðjan komin út í Dóná“, Náttúran.is: 8. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/08/eituredjan-komin-ut-i-dona/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: