Eftirfarandi upplýsingar um ál er að finna á vef Alcan á Íslandi:„Ál er þriðja algengasta frumefni jarðskorpunnar, næst á eftir súrefni og kísli, og nemur það um 8%af þyngd hennar. Ál finnst í jarðvegi, flestum bergtegundum og öllum leirtegundum. Íslensk fjöll, þar með talinn Keilir, Hekla og Esjan, eru því að hluta til úr áli. Ál er í matvælum, mannslíkamanum, gróðri, vatni og meira að segja rykögnum í andrúmsloftinu. Af öllum málmum á jörðinni er mest til af áli, sem er t.d. 800 sinnum algengara en kopar, sem menn hafa þekkt og notað í mörg þúsund ár.

Þrátt fyrir það finnst hreint ál hvergi í náttúrunni. Það er ávallt í sambandi við önnur efni og aðeins er hægt að vinna ál á hagkvæman hátt úr einni bergtegund, báxíti, sem finnst aðallega á breiðu belti við miðbaug jarðar. Úr báxíti er súrál unnið en það er efnasamband súrefnis og áls og líkist það fínum, hvítum sandi. Súrál er svo meginhráefnið í álframleiðslu, en með rafstraumi er hægt að kljúfa það í frumefni sín.“
-
Ekki er þó minnst neitt á það á vef Alcan að við vinnslu súráls verður eftir rauð baneitruð drulla annars staðar í heiminum!
Ef Alcan færi að framleiða 460.000 tonn á ári í Hafnarfirði hefur fyrirtækið áður verið valdur að því að annarstaðar í heiminum urðu til um 2 milljónir tonna af rauðri drullu (Red mud), mengaðri af vítissóda, sem er náttúrunni dýralífi og mönnum mjög skaðleg. Alcan á báxítnámur meðal annars í Ástralíu, Gíneu, Gana og Brasilíu.

Til að ál nái nauðsynlegri þéttni í jarðvegi verða að koma til sérstakar aðstæður.
Í heitu og röku regnskógarloftslagi verður veðrun eða mikil útskolun jarðlaga þannig að leysanlegri efni skolast úr jarðveginum með regnvatni og eftir sitja þau efni sem ekki eru eins leysanleg eins og ál og járn. Málmarnir safnast þannig smátt og smátt upp í jarðvegslagi sem kallað er laterít sem er mjög veðraður eða útskolaður rauður jarðvegur og inniheldur mikið af járni og áli.

Þegar upprunabergið er álríkt getur svona veðrun myndað jarðlag sem er kallað báxít. Báxít (bauxite) er málmgrþti með ríkulegt álinnihald og er eina formið á álríku jarðefni sem nýta má til álvinnslu. Báxít er með öðrum orðum hráefnið til álframleiðslu og þar sem mikið er af báxíti er grundvöllur fyrir námuvinnslu.

Eftirfarandi lýsing á báxítvinnslu er að finna í bók A.S.M. Draumalandið:

"Báxítinu er mokað inn í súrálsverksmiðju þar sem það er skolað uppúr vítissóda en eftir situr fíngert hvítt duft, súrál. Fyrri hvert tonn af súráli sem þannig fellur til myndast eitt til tvö tonn af rauðri drullu sem á ensku heitir einfaldlega Red Mud. Fyrir utan skógareyðingu og gríðarlega orkuþörf er rauða leðjan langstærsta vandamálið sem fylgir álvinnslunni. Leðjan er menguð af vítissóda, hún er hábasísk og hættuleg fólki. Leðjunni er safnað í lón og tjarnir en efnin seytla út í umhverfið og menga grunnvatn, stöðuvötn og drykkjarvatn. Fyrir milljón tonn af framleiddu áli verða því til um það bil fjórar milljónir tonna af rauðri leðju einhverstaðar í veröldinni."
(bls. 228)

Alcan var með báxít og súrálsvinnslu á Jamika í tæplega 50 ár. 2001 fóru þeir og seldu til Glencore sem síðan var keypt af Rusal í fyrra. Kemur svo kannski að því einn daginn að Rusal kaupi Alcan? Líttu á þessa frétt: canada.com/montrealgazette

Birt:
19. mars 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „460 þús. tonna ársframleiðsla af áli skilur eftir sig 2 millj. tonn af rauðri baneitraðri drullu annars staðar í heimi“, Náttúran.is: 19. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/baneitrud_drulla/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 6. október 2010

Skilaboð: