Ökukennarinn Grétar H. Guðmundsson sérhæfir sig í kennslu vistaksturs og hefur kennt fjölmörgum bílstjórum vistvænna aksturslag.

"Ég varð mér úti um kennararéttindi í vistakstri hjá Ökukennarafélagi Íslands fyrir nokkrum árum. Við erum nokkrir kennarar sem höfum leyfi til að kenna undir merkjum eco-driving sem er aðferð sem var þróuð í Finnlandi," segir ökukennarinn Grétar Guðmundsson.

Grétar hefur kennt bílstjórum margra fyrirtækja vistakstur og þá sérstaklega á landsbyggðinni, en hann er sjálfur búsettur í nágrenni Hellu. "Ég er um þessar mundir að vinna með Landgræðsluna en hef til dæmis kennt bílstjórum hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða og hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Svo tek ég bílstjóra hjá Guðmundi Tyrfingssyni á hverju ári. Hjá Ökukennarafélaginu höfum við einnig kennt bílstjórum hjá Strætó, Hópbílum og Orkuveitu Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt," segir Grétar.

Kennslan fer þannig fram að nemendur keyra ákveðinn hring sem Grétar vísar þeim á. Síðan fer hann yfir það hvernig hann vill að þeir breyti akstri sínum. Að því loknu keyra þeir sama hring á ný . Grétar er með tölvu í bílnum sem skráir niður meðaleyðslu, meðalhraða og aksturstíma og er að meðaltali um 10 prósenta lækkun á eldsneytisnotkun á milli ferða án þess að menn tapi tíma.

Til að ná fram þessum árangri leggur Grétar meðal annars áherslu á að menn haldi jöfnum hraða og ný ti hreyfiorkuna í bílnum betur. Hann segir einnig mikilvægt að hafa lengra bil á milli bíla til þess að bíllinn á undan sé ekki að stjórna ferðinni með sínum hraðabreytingum. Hann nefnir einnig að menn þurfi að nýta flæðið í brekkum betur á niðurleið og kennir aðferðir til að eyða litlu á uppleið.

"Ég þori að fullyrða að þetta aksturslag eykur umferðaröryggi og dregur úr viðhaldskostnaði bíla. Það dregur einnig úr eldsneytisneyslu, sem kemur sér vel nú þegar bensínið hefur hækkað, og er um leið umhverfisvænna," segir Grétar.

Grétar segist hafa fundið fyrir auknum áhuga á vistakstri undanfarna mánuði en á meðan á þenslunni stóð var minna um að fyrirtæki legðu áherslu á að bílstjórar þeirra tileinkuðu sér vistvænt aksturslag. "Nú líta menn á þetta sem lið í því að draga úr rekstrarkostnaði," segir Grétar.

Myndin er af Grétari H. Guðmundssyni sem segist finn fyrir auknum áhuga á vistakstri. 

Birt:
16. apríl 2008
Höfundur:
vera
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
vera „Minni útgjöld og mengun“, Náttúran.is: 16. apríl 2008 URL: http://nature.is/d/2008/04/16/minni-utgjold-og-mengun/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: