Hafnfirðingar standa frammi fyrir einni mikilvægustu ákvörðun lífs sín þegar þeir ganga að kjörborðinu um stækkun álversins í lok mánaðarins. Hafnfirðingar standa frammi fyrir einni mikilvægustu ákvörðun lífs sín þegar þeir ganga að kjörborðinu um stækkun álversins í lok mánaðarins. Ljóst er að ákvörðun þeirra getur haft mikil áhrif á stóriðjuframkvæmdir á Íslandi, hvort sem er til stöðvunar eða aukningar á því sviði. Úrslit kosninganna gætu valdið hugarfarsbreytingu í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar felli þeir tillögur um stækkun.

Frumforsenda þess að álfyrirtæki hefji starfsemi sína í tilteknum löndum er ódýr orka. Við Persaflóa á sér stað mikil uppbygging álvera og eru ríki þar meðal annars að taka við framleiðslu frá álverum sem lokað hefur verið í Evrópu og N-Ameríku. Í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum er verið að byggja álversverksmiðju í 2 áföngum. Eftir að fyrsta áfanga uppbyggingarinnar er lokið árið 2010 mun álverið framleiða 700.000 tonn af áli á ári. Í seinni áfanga þessa álvers mun ársframleiðslan verða 1,4 milljónir tonna af áli. Þau álver sem verið er að byggja eins og þetta dæmi gefur til kynna gífurlega stór og greinilegt að ákvarðanir um byggingu þeirra stjórnast ekki af virðingu við umhverfið heldur gróðavon.

Alcan hefur ekki eingöngu áhuga á að byggja risaálver á Íslandi en haft er eftir talsmanni þeirra að þeir hafi áhuga á að byggja álver í Saudi Arabíu. Í fréttinni er sagt að Alcan hafi hug á að byggja 700.000 tonna álver þar ef þeir finna samstarfsaðila. Ljóst er að endanlegri stækkun álversins í Straumsvík er ekki lokið og verður henni líklega aldrei lokið. Hafnfirðingar verða því ekki aðeins að hugsa til morgundagsins þegar þeir kjósa um stækkun álversins heldur verða þeir að líta til næstu 100 ára þegar þeir kjósa. Þeir verða að velta fyrir sér hvort þeir vilji að mengun í Hafnafirði aukist til muna og bærinn verði háður Alcan um nánustu framtíð. Verða Hafnfirðingar tilbúnir að segja nei við enn frekari stækkun í framtíðinni þegar við verðum orðin enn háðari álrisanum?

Alcan Inc. sem er rekstraraðili álversins í Straumsvík hefur sótt um að stækka framleiðslugetu álversins úr 180.000 tonna framleiðslu af áli í 460 þúsund tonn. Mikill kostnaður fylgir því að stækka álverið og virkja þá orku sem til þarf. Kostnaður við stækkunina er talin vera um 160 milljarðar en til samanburðar má benda á að sú upphæð er jöfn heildarverðmæti íslenska matvælafyrirtækisins Bakkavarar sem rekur 46 verksmiðjur í 7 löndum með um 16.000 starfsmenn. Hér er því um að ræða gífurlegan kostnað sem gefa mun af sér hlutfallslega fá störf.

Fyrir álverið í Straumsvík er fyrirhugað að reisa þrjár virkjanir á vegum Landsvirkjunar í Neðri-Þjórsá. Virkjanirnar sem reisa á eru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Við það bætist orka frá Orkuveitu Reykjavíkur sem mun útvega álverinu orku með 20 MW jarðvarmavirkjun. Virkjanirnar þrjár í Þjórsá munu framleiða um 2.000-2.500 Gígawattsstundir af orku á ári en það er nærri helmingur af framleiðslugetu Kárahnjúkavirkjunar.
Í Neðri-Þjórsá verður Urriðafossi, Hestafossi og Búðafossi fórnað fyrir virkjun raforkunnar. Þess má geta að Urriðafoss er vatnsmesti foss landsins og þykir fallegur ásýndum. Einnig verður röskun á búskap nokkurra bæja þar sem vatn mun fara yfir árfarveg Þjórsár, beitarland og tún bændanna.

Núna er góður tími til að segja okkar skoðun á því að frekari stóriðju er ekki óskað með frekari jarðraski og eyðingu á fallegri náttúru. Ekki er gæfulegt til framtíðar að reiða sig enn frekar á rándýra og mengandi stóriðju nálægt stækkandi íbúðarhverfi bæjarins, þegar mun fleiri sóknarfæri standa til boða í atvinnu uppbyggingu bæjarins.

Höfundur: Ólafur Örn Pálmarsson, náttúrufræðikennari.

Birt:
20. mars 2007
Tilvitnun:
Ólafur Örn Pálmarsson „Er stækkun álversins í Straumsvík góður kostur?“, Náttúran.is: 20. mars 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/staekkun_straumsvik_godur_kost/ [Skoðað:17. maí 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 1. maí 2007

Skilaboð: