Nú skulum við aðeins velta fyirr okkur grasflötinni. Mjög oft er hún stærsti hluti garðsins og hana þarf að hirða, ef vel á að vera. En það kostar vinnu, ekki satt? Jú vissulega ef við viljum að hún líti út eins og “green” á golfvelli. Ef við ætlum að spila golf í garðinum okkar, getum við staðið öðruvísi að verki.
Í fyrsta lagi þá er réttur undirbúningur næstum allt sem til þarf ef þú ert með nýja lóð en meiri vinnu og lengri tíma getur þurft til ef flötin er gömul. En hvað er þá réttur undirbúningur? Mjög gott afrennsli og rþr jarðvegur. En snúum okkur að undirbúningi nýrrar lóðar fyrst.
Ef um ný byggingu er að ræða einhvers staðar í móum skaltu ekki biðja byggingarverktakann um að grófjafna lóðina og keyra í hana gróðurmold fyrr en þú ert búinn að teikna og ákveða hvað á að vera hvar. Það getur vel verið að þú viljir hafa stóran hluta lóðarinnar sem náttúrulegastan og það þýðir að þú jafnar aðeins þar sem þú vilt hafa slétta slegna grasflöt. Í beð og matjurtagarð seturðu mold aðeins á þá staði. Mér hefur alltaf fundist það sárt að sjá hvað náttúrulegum gróðri er hent í fullkomnu hugsunarleysi til dæmis í þessum fallegu holtum og móum í Grafarvoginum. Lyngi og öllum þessum smávaxna og fallega holtagróðri er þtt miskynnarlaust upp og ekið brott. Í staðinn koma sléttar og fábreyttar grasflatir og allar eins. Svo fer fólk að berjast við að koma innlendum og erlendum plöntum til við skilyrði sem þær eiga oft ekki möguleika á að vaxa í. En hvað um það, hver hefur sinn smekk. Flestar íslenskar plöntur hafa alist upp við óblíð náttúruskilyrði, vind, uppblástur og umhleypinga. Þess vegna þarf jarðvegurinn í flestum tilfellum að vera fremur rþr og með góðu afrennsli. Að sjálfsögðu eru undantekningar frá þessu en þetta er meginreglan. Aðalatriðið er að okkar íslensku plöntur eru flestar ákaflega sérhæfðar. Þegar þú hefur ákveðið hvar þú vilt hafa slegna og vel hirta grasflöt flyturðu þangað frjóa og góða gróðurmold, sléttar vel og sáir. Þar sem þú vilt hafa engja eða móagróður gerirðu sem minnst, sérstaklega ef slíkur gróður er þar fyrir. Kannski viltu þó gera stíg og þá gerirðu það með því að setja stígamöl sem er sérstök leirkennd malarblanda. Í mölinni ætti til dæmis að geta þrifist blóðberg sem gefur frá sér ilm þegar stígið er á það. Og við það að ganga á því eykst rótar- og hliðarvöxturinn. Það er að minnsta kosti mín reynsla en ég plantaði blóðbergi í grasstein.
Svo geturðu sáð eða plantað í engið þitt öðrum tegundum til að auka fjölbreytnina. Lyklar (Primula) og sumar murur (Potentilla) eru ágætar, einnig garðasól (Papaver) og fleiri tegundir. Af laukum mætti nefna vepjulilju (Fritillaria melagris) og fjölmarga páskaliljublendinga. Svo er bara að fara í Plöntuhandbókina eftir Hörð Kristinsson eða Íslensku garðblómabókina eftir Hólmfríði A. Sigurðardóttur og finna þær tegundir sem þú vilt hafa, lesa um hvenær þær blómstra, útbúa rétt umhverfi fyrir þær og og fara svo á stúfana og ná sér í fræ og sá því á staðinn þar sem plönturnar eiga að vaxa. Það er þó kannski betra að sá því í bakka eða potta sem maður holar niður í einu horni garðsins og gleymir þar til næsta vor. Sum fræ taka sér þó lengri tíma en einn vetur til þess að spíra.
Sérstaklega ef þau eru keypt í pökkum í blómabúðum vegna þess að þá eru þau ekki fersk en sumar plöntur taka engar áhættu á því að það komi hlýindakafli um miðjan vetur, spíra og deyja svo í næsta frosti. Ég hef lent í því að fræ, sem ég var með í potti, var hent í steinhæðarbeð vegna þess að ég var búinn að gefa upp alla von. En þá spíruðu þau og komu upp árið eftir. Svo vertu þolinmóður þótt þú þurfir að bíða. Mundu að blómin vaxa meðan þú sefur.
Úti í haganum hjálpa húsdýrin við að koma fræjunum niður, kþrnar, kindurnar og hestarnir stíga fræin niður í jarðveginn og þessa aðferð getur þú notað líka. Þú sáir að morgni á góðum degi og heldur svo smá garðveislu seinnipartinn og gefur “húsdýrunum” þínum í glas og lætur þau spígspora á flötinni þar sem þú varst að sá.
Hvað grastegundum viðkemur er til óhemju fjölbreytt úrval, sérstaklega af stör (Carex). Puntinn þarf varla að kynna fyrir neinum svo algengur sem hann er. Tvær punttegundir eru kjörnar en það er fjallapuntur (Deschampsia alpina) og bugðupuntur (D. Flexuosa). Skrautpuntur og snarrótarpuntur eru of stórvaxnir og grófgerðir fyrir minn smekk. Gresi (Agrostis) eru algeng en sjálfur setti ég aðeins hálíngresi og tþtulíngresi í mína flöt. Sveifgrös (Poa) eru falleg og vel nothæf. Einnig bæði túnvingull (Festuca richardsonii) og blávingull (F. Vivipara). Ilmreyr (Anthoxanthum odoratum) er grófgerður en fallegur og myndar þúfu með tímanum. Ef lóðin þín er gömul og gróin stendurðu öðruvísi að málum. Þá tekur það um það bil tvö ár að gera hana að engi. Það sem byrja þarf á, er að framræsa lóðina vel. Ef bleytan er mikil gæti reynst nauðsynlegt að gera lokræsi. Grófur sandur og/eða vikur ofan á grasflötina hjálpar líka. Ef hvort tveggja er notað er best er að blanda því saman og dreifa því oft í þunnu lagi á flötina. Svo þarf að slá, og slá snöggt og taka grasið og setja í safnhauginn eða í matjurtagarðinn þar sem það verður að næringu. Það má alls ekki láta grasið liggja vegna þess að þú ert að taka næringuna úr jarðveginum en næringaríkur jarðvegur er kjörlendi fyrir grófar grastegundir. Þá verður þú að standast þá freistingu að dreifa áburði á flötina. Þegar þú hefur gert þetta í svona tvö ár hefurðu minnkað frjósemi jarðvegisins og þú munt veita því athygli að grófu grastegundunum hefur fækkað. Þá er kominn tími til að fara að sá og setja niður lauka. Það er jafnvel mögulegt að hafa tvær tegundir engja. Hvort um sig þarf ekki að vera stórt. Nokkrir fermetrar er nóg. Eftir að blómgun og fræmyndun snemmblómstrandi plantna er lokið, í júni eða júlílok, er sá hluti flatarinnar sleginn reglulega út sumarið. Muna að taka grasið. Það er þó ekki vitlaust að láta það liggja aðeins og þorna áður svo fræbaukarnir opnist og plönturnar sái sér.
Athugaðu að fræin verða að vera orðin þroskuð áður en þú slærð. Næsta flöt er svo slegin frá því í lok ágúst eða byrjun september. Þennan hluta þarf að slá með orfi, annaðhvort handknúnu eða vélorfi. Og heyið fer í burtu. En best er samt að láta svona engi eiga sig og slá aldrei! Nú kann einhver að segja að ekki sé slegið út í haga og vissulega er það rétt. En á mörgum stöðum úti í haga eru húsdýr á beit sem koma í staðinn fyirr ljáinn. Þar sem húsdýr komast ekki að er gróðursamfélagið oft fábreyttara. Ef til vill mætti hugsa sér að brenna sinuna svona þriðja hvert ár. Það er þá gert mjög snemma vors, slökkviliði er látið vita og garðslangan er höfð tiltæk! Á seinustu árum hafa líffræðingar sett sig mjög upp á móti bruna. Þeir segja að það eyðileggi örverulífið í efsta lagi jarðvegsins og vissulega er það rétt, svo langt sem það nær. En á móti má benda á að eldurinn er hluti náttúrunnar og hann nær ekki að hita jarðveginn niður fyrir 4-5 sentimetra. Þá má einnig benda á tegundir sem þurfa beinlínis eld til þess að opna efnaloka í fræbaukunum. Svo gilda kannski önnur lögmál þegar verið er að svíða nokkra fermetra en ekki fleiri hektara.
Ef skilyrðin á enginu þínu eru rétt, fjölgar villiblómunum þínum jafnt og þétt, ár frá ári. Þau sem pluma sig best benda þér á hvaða aðrar tegundir gætu gengið líka. Það er best að gera þetta allt í rólegheitum og planta kannski tveimur til þremur nýjum tegundum árlega. Þegar þú plantar eða sáir gerirðu það “hipsumhaps” eins og skáldið sagði. Ein aðferð sem reyndist mér vel með haustlauka var að hrista þá  saman í fötu svo þeir blönduðust vel. Svo stillti ég mér upp á miðju “enginu” og þeytti úr fötunni beint upp í loftið. Laukunum var potað niður þar sem þeir lentu.
Aðalmálið fyrir “villi” engi er lítil næring. Sultur hjálpar mörgum villiplöntum til að ná yfirhöndinni yfir mörgum frekari og gráðugri tegundum. Svo eru ýmsar plöntur sem framleiða áburð. Þær plöntur skaltu forðast á enginu. Þær þekktustu eru smári og lúpína sem beinlínis framleiða köfnunarefni. Eða réttara sagt gerkar sem lifa í sambýli við þær á rótum þeirra.
Þær tegundir sem þú vilt hafa á enginu þurfa helst að vera lágvaxnar og fíngerðar grastegundir og valdar tegundir villiblóma sem henta sláttumynstri þínu. Þegar þú ferð að sá í engið notarðu fremur lítið fræ og því er erfitt að sjá jafnt. En við kunnum ráð við því. Við blöndum fræinu saman við sag eða sand. Það hefur annan kost og hann er sá að þú sérð betur hvar þú hefur sáð. Góð blanda af grösum er túnvingull (Festuca richardsonii), rauðvingull (F. Rubra), hálíngresi (Agrostis capillaris), tþtulíngresi (A. Vinealis), vallarsveifgras (Poa pratensis), fjallasveifgras (P.alpina), vallarfoxgras (P. Alpinum), háliðagras (Alopecurus pratensis), og ilmreyr (Anthoxanthemum odoratum) til að fá góða lykt þegar þú slærð. Þessum fræjum blandarðu saman og notar svona tvö grömm á hvern fermetra. Þess vegna er gott að blanda þeim í eitthvað annað efni þegar maður sáir þeim. Það er nokkuð gott ráð að skipta blöndunni til helminga og sá öðrum hlutanum í eina átt og hinum í aðra sem myndar rétt horn á fyrri yfirferð. Annað geturðu líka gert en það er að fara út í náttúruna og taka þroskað fræ af þeim grösum sem þér finnst falleg og sá þeim í engið þitt. Þegar þú hefur sáð grösunum sáir þú blómplöntunum. Þú getur annað hvort sáð hverri tegund fyrir sig eða blandað tveimur eða fleiri saman. Þegar sáningu er lokið valtarðu yfir eða býður krökkunum í götunni í fótbolta á enginu. Þær tegundir blóma sem hægt er að sá í engið eru til dæmid blákolla (Prunella vulgaris), brjóstagras (Thatlictrum alpinum), bláklukka (Campanula rotundifolia), lokasjóður (Rianthus minor), maríulykill (Primula stricta), völudepla (Veronica chamaedrys), túsúra (Rumex acetosa), gullmura (Potentilla crantzii), brennisóley (ranunculus acris), gulmaðra (Galium verum), stúfa (succisa pratensis), rauðkollur (knautia arvensis), blágresi (geranium sylvaticum), ljósberi (lycnis alpina), vallhumall (achillea ptarmica) og svo er reynandi að planta sigurskúf (ephilobium angustifolium). Miklu fleiri tegundir væri hægt að tína til en eitthvað verðurðu að gera sjálfur. Það er þó rétt að vara við sigurskúfinum því hann getur orið að mögnuðu illgresi ef hann fær sjálfdæmi. Raunar segja sumir að hann ætti alls ekki að flytja í garða.
Þú skalt ekki búast við miklu blómskrúði sumarið eftir sáningu. Reyndar skaltu stilla sláttuvélina þína eins ofarlega og þú getur og slá engið þannig fyrsta sumarið eftir sáningu. Ástæðan er sú að það örvar rótar- og blaðvöxt plantnanna og grösin breiða úr sér. Annað árið eftir sáningum ef vel hefur tekið til, koma blómin til með að stela athyglinni og þú hefur blómaskrúð fyrir augunum viku eftir viku. Og dýralífið fylgir, bæði bþ og fiðrildi.
Það er eitt enn sem vert er að taka fram um engið. Það er svo sem augljóst ef þú hugsar út í það. Eftir að hafa komið þér upp fjölbreyttri flóru á næringarsnauðum jarðvegi er það alveg bannað að úða með einhverjum kemískum efnum. Hvort heldur það heitir áburður eða eitur. Það er alveg sama hvað hver segir, mundu að engið þitt er þarna til þess að veita plöntum og lífverum skjól. Ef þú ert einhvern tíma í vafa, sestu þá niður í ljósaskiptunum og hlustaðu og horfðu. Ef allt er eins og það á að vera, og þér hefur heppnast ætlunarverkið, þá heyrirðu í litlu kvikindunum. Sum sérðu líka og þá veistu að engið þitt er frábært. Svo er það ekki amalegur bónus að það verður fallegra og fallegra með hverju árinu sem líður. Og það er ekki slæmt.

Líftími skordýraeiturs.
Það hefur komið á daginn að ýmis efni sem áður var haldið að eyddust og brotnuðu niður í jarðveginum, haga sér öðruvísi en menn áttu von á. Meira að segja efni sem áður var talið að væru mjög skammlíf eins og Ethylene dibromide. Auk þess verða sum skordýraeitur, einkum þau sem skyld eru Parathion, miklu eitraðri og langlífari þegar þau brotna niður og bindast öðrum efnum jarðvegsins.

Lífsvökvinn “Maxicrop”.
Ýmdar athyglisverðar niðurstöður hafa komið í ljós í tilraunum sem gerðar hafa verið með þangvökva og plöntur allt frá 1959. Þessar tilraunir hafa m.a. leitt eftirfarandi í ljós. Aukin uppskera, lengri geymslutími ávaxta og grænmetis, hærra spírunarhlutfall fræja, meira frostþol plantna í vexti og meiri mótstaða gegn skordýrum og sveppasýkingum. Það sem kom þó mest á óvart var að því veikari sem blandan var þeim mun betur gagnaðist hún. Mælt er með því að nota hana í hlutföllunum 1:100-1:400 og úða henni á plönturnar.

Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „5. kafli - Flatir og engi“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/5-kafli-flatir-og-engi/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: