Fundur um stækkun álversins verður haldinn í Bæjarbíói þann 21. febrúar n.k.

Nú er hafin kosning um hvort stækka eigi álver Alcan í Straumsvík, en sjálfur kjördagurinn verður 31. mars n.k. Samfylkingarfólk í Hafnarfirði heldur opinn fund um þessa spurningu n.k. miðvikudag, 21. febrúar í Bæjarbíói að Strandgötu 6 í Hafnarfirði og hefst fundurinn kl. 20:00.

Frummælendur:
Jón Baldvin Hannibalsson fyrrv. ráðherra og sendiherra,
Tryggvi Harðarsson fyrrv. bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og
Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingiskona.

Allt stefnir í að kosningar um nýtt deiliskipulag sem heimili næstum þrefalda stækkun álvers Alcan í Straumsvík, geti valdið tímamótum í umræðunni um umhverfismál og stóriðju á Íslandi.
Samfylkingin sem er í meirihluta í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, hafði frumkvæði að því að setja þetta viðkvæma mál í kosningu meðal bæjarbúa, en bæjarfulltrúarnir sjálfir hafa ákveðið að
tjá sig ekki opinberlega um afstöðu sína. Því þótti nauðsynlegt að efna til opins fundar um þetta mikilvæga mál.

Jón Baldvin hefur að undanförnu tekið þátt í umhverfisumræðunni sem einn af talsmönnum Varmársamtakanna í Mosfellsbæ. Þórunn hefur látið umhverfismálin sig miklu skipta sem
þingmaður Samfylkingarinnar og Tryggvi sem innfæddur Hafnfirðingur, hefur alist þar upp sem nágranni álversins frá því það var byggt. Minna má og á að formaður Samfylkingarinnar
hefur lýst yfir andstöðu sinni við stækkun álversins í Straumsvík.

Umhverfismálin nú í aðdraganda alþingiskosninga, fá stöðugt aukna athygli. Það sýna fjölmennir fundir víða um land m.a. í Árnesi, þar sem nærri 500 manns mótmæltu fyrirhug-
uðum virkjunum í Þjórsá, sem eiga að sjá nýju álveri í Straumsvík fyrir rafmagni.
Þó að fundurinn í Bæjarbíói sé á vegum Samfylkingarfólks í Hafnarfirði, er hann öllum áhugamönnum opinn.
Sól í Straumi hvetur bæjarbúa til þess að mæta á fundinn og taka þátt í umræðum um stækkunarmálið.

Sól í Straumi. Sjá solistraumi.org. >
Birt:
19. febrúar 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fundur um stækkun álversins í Straumsvík - Sól í Straumi“, Náttúran.is: 19. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/fundur_staekkun_straumsvik/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 29. apríl 2007

Skilaboð: