Umhverfisráðherra afhendir landgræðsluverðlaunin
Landgræðsla ríkisins veitti hin árlegu landgræðsluverðlaun við hátíðlega athöfn á Kirkjubæjarklaustri í liðinni viku. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, afhenti verðlaunin. Verðlaunahafar eru hjónin Drífa Hjartardóttir og Skúli Lýðsson á Keldum á Rangárvöllum, Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Árnesinga og Landgræðslufélag Skaftárhrepps. Verðlaunin voru afhent í tengslum við landgræðsludag, sem Landgræðslufélag Skaftárhrepps hélt í samstarfi við Landgræðsluna.
Við afhendingu verðlaunanna sagði Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra að það hefði verið fróðlegt að fá að kynnast starfi frjálsra félagasamtaka á sviði landgræðslu. Starf frjálsra félagasamtaka og sá félagsauður sem í þeim byggi skipti miklu máli til að ná árangri og skapa samstöðu um aðgerðir í landgræðslu, sem og allri annarri náttúruvernd. Stofnun og uppbygging félaga um landgræðslu á sér ekki mjög langa sögu en fyrsta landgræðslufélagið var stofnað árið 1992 í Öræfasveit. Landgræðsla ríksins hefur staðið þétt að baki þessum félögum og hefur félögunum fjölgað hægt og bítandi í landinu. Í ávarpi sínu fjallaði umhverfisráðherra einnig um grasrótarstarf Landgræðslunnar í gegnum verkefnið Bændur græða landið þar sem bændur og landeigendur taka ábyrgð á uppgræðslu sinna eigin landa. Sagði ráðherra slík verkefni, sem væru unnin á anda sjálfbærrar þróunar, varða veginn til framtíðar.
Í niðurlagi ræðunnar sagði umhverfisráðherra: ,,Við stöndum á ákveðnum krossgötum í okkar samfélagi. Okkur hafa þó kannski – loksins – opnast augu fyrir mikilvægi sjálfbærrar þróunar samfélagsins. Það er mín trú að sjálfbær þróun er ekki ein leið út úr kreppunni heldur eina leiðin. Í því mikilvæga endurreisnarstarfi sem við fáumst nú við er mikilvægt að hugleiða hver eru hin raunverulegu gildi, hvað er það sem skiptir mestu máli fyrir okkur sem þjóð og fyrir framtíðina. Hugsjónir og gildi landgræðslustarfsins, sem endurspeglast vel í þessum glæsilegu handhöfum landgræðsluverðlaunanna, eiga vel við í endurreisnarstarfinu framundan. Þið eru vön að hugsa fram á veginn og vinna að verkefnum sem oft vaxa hægt en örugglega til langrar framtíðar".
Nánar er fjallað um verðlaunin og verðlaunahafana á heimasíðu Landgræðslunnar.
Mynd: Á Kirkjubæjarklaustri. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhendir Óskari Þór Sigurðssyni landgræðsluverðlaunin. Mynd: Jón Ragnar Björnsson og Hreinn Óskarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðherra afhendir landgræðsluverðlaunin“, Náttúran.is: 19. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/19/umhverfisraoherra-afhendir-landgraeosluverolaunin/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.