Rekstraraðilar farfuglaheimilanna á Akranesi, Bíldudal og Grundarfirði tóku nýverið á móti HI-Quality gæðavottun Alþjóðasamtaka Farfugla (Hostelling International). Vottunin er veitt fyrir innra gæðaeftirlit og gæði í aðbúnaði og þjónustu.

Farfuglaheimili víða um heim hafa unnið eftir HI-Quality gæðakerfinu frá árinu 2004, en það hefur hingað til einungis staðið stórum heimilum til boða. Gestgjafar heimilanna þriggja tóku því að sér að þróa og aðlaga viðmið fyrir smærri heimili fyrir Hostelling International í samvinnu við Farfugla á Íslandi. Innan gistikeðjunnar starfa yfir 4000 farfuglaheimili víða um heim og mörg smærri heimili hafa beðið spennt eftir eftir niðurstöðu þróunarvinnu á gæðakerfinu. Það er Farfuglum mikill heiður að til þeirra hafi verið leitað til að stýra þessu þróunarverkefni, en fyrst þegar kerfið var tekið í notkun fyrir stór heimili tók einmitt Farfuglaheimilið í Laugardal þátt í smíði þess ásamt alþjóðlegum kollegum sínum.

Það hefur margsýnt sig að fyrirtæki sem vinna með gæðakerfi ná meiri yfirsýn í rekstri og eru með frábært tæki í höndunum til að bæta starf sitt. Farfuglaheimili sem eru með HI-Quality gæðavottun fá að jafnaði betri umsagnir gesta en áður og hafa náð hagkvæmni í rekstri, öllum til hagsbóta.

Ljósmynd: Frá hægri; Magnús Freyr Ólafsson Farfuglaheimilinu Akranesi, Silja Baldvinsdóttir Farfuglaheimilinu Bíldudal, Johnny Cramer Farfuglaheimilinu Grundarfirði.

Birt:
26. mars 2012
Tilvitnun:
Ásta Krisín Þorsteinsdóttir „Frumkvöðlar í gæðamálum“, Náttúran.is: 26. mars 2012 URL: http://nature.is/d/2012/03/26/frumkvodlar_i_gaedamalum/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 27. mars 2012

Skilaboð: