Forstjóri HS Orku telur fyrirtækið greiða sanngjarnt auðlindagjald
Júlíus Jónsson forstjóri HS Orku hf. vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri við fjölmiðla:
Að undaförnu hefur borið á misskilningi og jafnvel rangfærslum, í umræðum um það gjald sem HS Orku hf er ætlað að greiða fyrir afnot á orkuauðlindum Reykjanesskaga. Að því er látið liggja að um ósanngirni sé að ræða við útreikning auðlindagjaldsins. Það er því við hæfi að skýra þá hugsun sem býr að baki gjaldtökunnar.
Með auðlindgjaldtöku á Reykjanesi er verið að taka fyrstu skrefin í álagningu auðlindagjalda fyrir jarðvarma á Íslandi, því var talið afar mikilvægt að vanda til undirbúningsins - þannig að friður myndi skapast um þetta mikilvæga mál til frambúðar. Þar sem um fyrsta samning sinnar tegundar er að ræða, er líklegt að samningurinn hafi fordæmisgildi þegar auðlindagjald verður ákvarðað í framtíðinni fyrir aðra orkugjafa s.s., vatnsorku sem og hitaveituvatns.
Leitað var til virtustu jarðvísindamanna landsins um hvernig gjaldtökunni verði háttað þannig að farið verði sem best með auðlindina. Fordæmi frá Orkustofnun voru skoðuð. Leitað var eftir óháður áliti frá ráðgjafafyrirtækinu Capacent um hvernig auðlindagjaldtöku er háttað í heiminum og voru sambærilegir samningar í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Filippseyjum og Evrópu voru skoðaðir. Niðurstaðan var að almennt er miðað við auðlindagjald sem er um 2,5% af heildarsölutekjum raforku.
Útreikningar auðlindagjaldsins hjá HS Orku hf byggja á þeim alþjóða viðmiðum sem fram komu í ofangreindum greiningum. Einnig var tekið tillit til meðmæla jarðvísindamannanna og tekið mið af nýtingarhæfni jarðhitavökvans eða gæðastuðli svæðisins, sem er lægri á Reykjanesi vegna seltu, útfellinga og kostnaði við niðurdælingu.
Hvati til góðrar umgengni auðlindar
Ástæða þessarar kröfu um nýtingahæfni er sú hugsun að auðlindagjaldið endurspegli umgengni við auðlindina og gæði jarðhitavökvans. Orkufyrirtækin hafi hag af því að halda virkni auðlindarinnar sem lengst og nýta jarðhitann á sem hagkvæmastan hátt. Þannig er settur inn í útreikning auðlindgjaldsins hvati til sjálfbærrar nýtingar auðlindarinnar. Selta, útfellingar og niðurdæling, hefur þau áhrif að tekjustofn auðlindagjaldsins er 2,1% tekna í Svartsengi en 2.5% á Reykjanesi.
Þessi útreikningur auðlindagjaldsins er byggður á sanngirni með því að tengja auðlindagjaldið beint við sölutekjur orkufyrirtækis. Að sama skapi eru sett inn ákvæði sem hvetja til góðrar umgengni við auðlindina.
Auðlindagjaldið 95 mkr. árið 2012
Reiknað auðlindagjald vegna núverandi raforkuframleiðslu HS Orku er 72 mkr. Það eru 30,3 mkr. vegna Svartsengisvirkjunar og 41,7 mkr. vegna Reykjanesvirkjunar. Gert er ráð fyrir að ríkisvaldið sem einn eiganda lands á Reykjanesi fái 45% auðlindagjaldsins vegna Reykjanesvirkjunar. Fyrirhuguð 100 MW stækkun Reykjanesvirkjunar mun hækka auðlindagjaldið þar í um 65,5 mkr. Þannig er fyrirhugað að HS Orka greiði á þeim tíma um 95 mkr. á ári í auðlindagjald. Eru þá ótalin áform í Eldvörpum sem geta gert um eða yfir 15 mkr. í auðlindagjald.
HS Orka hf greiðir hærra auðlindagjald
Þessir útreikningar eru flóknir og því auðvelt að draga rangar ályktanir. Td. hafa blaðamenn reiknað auðlindagjaldið af heildartekjum HS Orku hf. Vandinn er að inni í heildartekjum eru td. tekjur vegna endursölu raforku frá Landsvirkjun sem eðlilega getur ekki myndað stofn fyrir auðlindagreiðslur HS Orku hf.
HS Orka hf er almennt talin greiða mun hærra auðlindagjald en önnur orkuver í landinu. Hitaveitur eru almennt að greiða 0,7% eða lægra til landeigenda. Auðlindagjald vegna vatnsorkuvera Landsvirkjunar samsvarar um 0,75% sölutekna, en ekki 2,1% (Svartsengi með núverandi niðurdælingu) og 2,5% (Reykjanes) eins og hjá HS Orku hf.
Birt:
Tilvitnun:
Júlíus Jónsson „Forstjóri HS Orku telur fyrirtækið greiða sanngjarnt auðlindagjald“, Náttúran.is: 25. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/25/forstjori-hs-orku-telur-fyrirtaekio-greioa-sanngja/ [Skoðað:15. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. ágúst 2009