Fyrir skömmu var auglýst í sunnlenskum blöðum starfsleyfi fyrir Hellisheiðarvirkjun. Umsagnarfrestur var kynntur þar til 16 október! Orkuveita Reykjavíkur gangsetti virkjunina fyrir þann tíma sem að öllum almenningi var gefinn kostur á að gera athugasemdir við drögin að starfsleyfinu. Drög að leyfinu voru gefin út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands í samræmi við ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerð nr 797/1999 um varnir gegn mengun grunnvatns. Ef athugasemdir berast, þarf að taka tillit til þeirra, taka þær til athuganar, greina og fullreyna sannleiksgildi þeirra. Málið snýst um að taka tillit til vitneskju íbúa þessa lands til að varna umhverfisslysum. Eitt slíkt átti sér stað aðfaranótt 28. september síðastliðinn í virkjuninni.

Gangsetning virkjunarinnar nú, er því skýrt lögbrot, og óþolinmæði OR, byggð á kröfu álvers Norðuráls á Grundartanga um raforku nú, dæmi um það hve lög þessa lands mega sín lítils þegar álver eiga í hlut. Maður spyr sig hvort að kerin séu lögum æðri? Reyndar er í þessu tilviki búið að sanna að svo sé. Gangsetning nýju kerjanna á Grundartanga stóðust tímaáætlun, enda vafalaust mikilvægt þar sem heill her fyrirmanna hefur þurft að taka frá daginn með löngum fyrirvara, til að klippa sama borðann í marga búta við hátíðlega opnun. Starfsleyfiskynningin hefur því farið of seint af stað. OR vissi alltaf að afhenda þyrfti orkuna tímanlega en kannski var vonast eftir seinkun á Grundartanga, sem ekki varð af.
Ekki aðeins hefur virkjunin verið gangsett án starfsleyfis heldur er tækjabúnaður ekki tilbúinn. Hvert fer t.d. gufan úr gufuskiljunum núna? Gufutækin eru ekki tilbúin. Hvert fer þéttigufan nú? Í neyðarholuna? Hvaða áhættu er hér verið að taka?
-

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur þegar gert athugasemdir og íhugar nú næstu skref.

Myndin er af Hellisheiðavirkjun, tekin þ. 19. 08. 2006. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
4. október 2006
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Í gang „án starfsleyfis“ - Eru þarfir álvera öllu fremri?“, Náttúran.is: 4. október 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/an_starfsleyfis/ [Skoðað:18. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 2. maí 2007

Skilaboð: