Earthcheck leysir Green Globe af hólmi
Vottunarkerfið EarthCheck hefur leyst Green Globe af hólmi í ferðaþjónustunni á Íslandi og í stórum hluta heimsins. Þar með er úr sögunni áralangur samskiptavandi milli eigenda merkisins og fagfólks sem unnið hefur að útbreiðslu og vottun kerfisins.
Fyrirtækið EC3Global í Ástralíu hefur þjónustað Green Globe kerfið á Íslandi nokkur síðustu ár. EC3Global hefur mjög traust faglegt bakland, og hefur með aðstoð þess byggt upp bæði þá staðla sem notaðir voru í Green Globe og samanburðarkerfið (Benchmarkingkerfið) EarthCheck, sem gerir það mögulegt að bera frammistöðu einstakra fyrirtækja saman við önnur fyrirtæki í sömu grein á sama svæði. EC3Global hefur þannig skapað og eignast allt sem máli skiptir í þessu kerfi, nema Green Globe heitið og merkið sem því fylgir. Þetta er nú í eigu Green Globe International (GGI) í Bandaríkjunum í gegnum breskt dótturfyrirtæki. GGI er skráð á hlutabréfamarkaði vestra og er því rekið í hagnaðarskyni. Þar er hins vegar ekki til staðar fagþekking á umhverfismálum. Um nokkurt skeið hafa þessir aðilar tekist á, að mestu á bak við tjöldin, væntanlega m.a. um gjaldtöku fyrir aftnot af merkinu. Þetta hefur m.a. þróast á þann hátt að GGI hefur komið sér upp dótturfyrirtækinu Green Globe Certifications (GGC) sem býður fyrirtækjum þjónustu, sem fljótt á litið virðist sambærileg við þjónustu EC3Global, þó að faglegt bakland sé vanburða. GGI hefur með öðrum orðum komið sér í aðstöðu til að verðleggja EC3Global út af markaðnum.
Sú þróun sem hér hefur verið lýst, leiddi til þess að EC3Global ákvað að rifta samstarfinu við GGI. Þar með missti EC3Global aðgang að Green Globe heitinu og merkinu, en á móti misstu GGI og GGC réttinn til að nota innihald kerfisins, þ.e.a.s. staðlana og samanburðarkerfið. Því má segja að merkið og gróðavonin sitji eftir hjá GGI, en þekkingin og kerfið sjálft hjá EC3Global. EC3Global þurfti því að kynna nýtt merki. Þetta var gert í febrúar 2010 þegar nýja EarthCheck merkið var gert opinbert.
Meginniðurstaðan er þessi: EC3Global er ekki lengur háð utanaðkomandi aðilum varðandi afnot af merkinu og þar með verðlagningu, en þetta hafði um langt skeið skapað óvissu í starfinu. Green Globe heitið og merkið er vissulega fyrir bí, en eftir stendur heilstætt kerfi sem EC3Global getur byggt upp og þjónustað með langtímahagsmuni í huga.
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Earthcheck leysir Green Globe af hólmi“, Náttúran.is: 13. september 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/19/earthcheck-leysir-green-globe-af-holmi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. apríl 2010
breytt: 13. september 2010