Um nagladekk og svifrik í Reykjavík
Hlutfall negldra dekkja í Reykjavík var kannað 22. janúar síðastliðinn og reyndust 42% ökutækja vera á nagladekkjum og 58% á ónegldum dekkjum. 47% ökutækja voru á negldum dekkjum á sama tíma í fyrra. Árið 2005 voru um það bil 56% bifreiða á negldum dekkjum. „Þetta er jákvæð þróun sem dregur úr svifryksmengun í borginni, því nagladekkin slíta hratt upp malbiki,“ segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá mengunarvörnum Umhverfissviðs.
Svifryk (PM10) hefur mælst tvisvar sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörk frá áramótum við Grensásveg en mörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Farstöð Umhverfissviðs var staðsett á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar á tímabilinu 7. desember 2007 til 16. janúar 2008 og mældist svifryksmengun þar fimm sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkum. Styrkur svifryks fór á sama tíma tvisvar sinnum yfir heilsuverndarmörkin við Grensásveginn. „Þetta bendir til þess að meiri mengun sé við Miklubraut-Stakkahlíð en Miklubraut-Grensásveg. Aftur á móti er einnig ljóst að framkvæma þarf fleiri mælingar til að sjá hvort þetta ástand gildi árið um kring og mæla á fleiri stöðum í Hlíðahverfi,“ segir Anna Rósa. Svifryk (PM 10) má fara árið 2008 átján sinnum yfir heilsuverndarmörk, samkvæmt reglugerð nr. 251/2002.
Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) er annað efni sem mælt er á mælistöðvum Umhverfissviðs og eru sólarhrings-heilsuverndarmörk þess 75 míkrógrömm á rúmmetra. NO2 fór ekki yfir mörkin við Grensásveg. Þau fóru hins vegar yfir mörkin við Miklubraut 8. janúar. NO2 fór einu sinn yfir við klukkustundamörkin við Grensásveginn en átta sinnum yfir á Miklubraut. Klukkustundarmörkin eru 110 míkrógrömm á rúmmetra. Samkvæmt reglugerð má fara sjö sinnum yfir sólarhrings-heilsuverndarmörkin og 175 sinnum yfir klukkustundarmörkin.
Aðaluppspretta köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) í Reykjavík er frá umferð en stærsti hluti þess verður til vegna oxunar á köfnarefnismónoxíðs með ósoni (O3). Hár styrkur þess er talinn hafa neikvæð áhrif á heilsu fólks.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfissvið Reykjavíkurborgar „Um nagladekk og svifrik í Reykjavík“, Náttúran.is: 30. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/30/um-nagladekk-og-svifrik-i-reykjavik/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.