Fréttatilkynning frá Vottunarsstofunni TÚN

Villtar íslenskar heilsuplöntur og æðarvarp:
Sjálfbærar náttúrunytjar á Dyrhólaey fá vottun

Ábúendur í Dyrhólahverfi í Mýrdal hafa hlotið vottun til staðfestingar á sjálfbærum landnytjum í Dyrhólaey. Annarsvegar er um að ræða vottun samkvæmt alþjóðlegum reglum um lífræna framleiðslu til söfnunar á villtum heilsuplöntum. Hinsvegar eru vottaðar nytjar á æðarvarpi til söfnunar á dún samkvæmt reglum Túns um sjálfbærar náttúrunytjar. Vottorð þessu til staðfestingar voru nýlega afhent ábúendum.

Vottunin er til marks um aukinn áhuga bænda á því að nýta villta stofna jurta og dýra til verðmæta- og atvinnusköpunar undir formerkjum lífrænnar og sjálfbærrar þróunar.

Ábúendur í Dyrhólahverfi hafa öldum saman nytjað Dyrhólaey með mismunandi hætti. Lengi vel var eyin aðsetur útræðis, þar var beitt búfé, sjófugl fangaður, eggjataka og dúnsöfnun stunduð. Á síðari árum hafa nytjar fyrst og fremst beinst að æðarvarpi og jafnframt hyggjast bændur nýta ýmsar heilsuplöntur sem þar vaxa í talsverðum mæli. Nytjar á æðardún eiga sér reyndar aldagamla hefð í Dyrhólahverfi.

Vottun þessara nytjaþátta er liður í því að vernda náttúrufar Dyrhólaeyjar og bæta jafnframt tjón sem af ýmsum orsökum hefur orðið á landi og lífríki staðarins á liðnum árum. Í verndunar- og nytjastarfi sínu vinna ábúendur náið með Umhverfisstofnun, en Dyrhólaey var lýst friðland samkvæmt náttúruverndarlögum árið 1978.

Dyrhólaey bætist nú í hóp nokkurra íslenskra fyrirtækja sem hafa fengið vottun Túns til lífrænna nytja á villtum plöntum. Þá er Dyrhólaey annað dúnbýli landsins sem fær vottun á æðarvarp, en Æðey í Ísafjarðardjúpi er einnig vottuð til dúntekju og dúnvinnslu.

Áhugi á nýtingu villtra íslenskra jurta til ýmiss konar framleiðslu hefur aukist umtalsvert á síðustu árum og misserum. Þær má hagnýta til vinnslu á drykkjum, fæðubótarefnum, græðiefnum og snyrtivörum, auk ýmiss konar efna til frekari vinnslu. Æðardúnn er mikilvæg útflutningsafurð en er einnig hagnýtt innanlands til framleiðslu á sængum.

Lífrænar afurðir og vottaðar náttúruafurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun, til pökkunar í neytendaumbúðir, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur um lífræna framleiðslu.

Nánari upplýsingar um vottun lífrænna afurða:

Vottunarstofan Tún ehf.
Laugavegi 7
101 Reykjavík
tun@mmedia.is

Nánari upplýsingar um nytjar á Dyrhólaey:

Ábúendur í Dyrhólahverfi
Vatnsskarðshólum & Garðakoti
871 Vík í Mýrdal
S. 487 8500 info@dyrholaey.com Þorsteinn Gunnarsson & Margrét Guðmundsdóttir
S. 487 1441 eva@eva.is Eva Dögg Þorsteinsdóttir & Vigfús Páll Auðbertsson

Birt:
24. apríl 2007
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Sjálfbærar náttúrunytjar á Dyrhólaey fá lífræna vottun“, Náttúran.is: 24. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/24/sjlfbrar-nttrunytjar-dyrhlaey-f-vottun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 17. júní 2011

Skilaboð: