Gæti þurft að henda þúsundum plantna
Bitnar eingöngu á landsbyggðinni
Björn B. Jónssonframkvæmdastjóri Suðurlandsskóga segir að ef af þessari skerðingu verði sé það gríðarlegt högg. „Mér sýnist að ef af þessu verður þá þurfi að henda einhverjum þúsundum plantna sem þegar er búið að ganga frá samningum um kaup á í gegnum Ríkiskaup. Þetta þýðir niðurskurð á launum til bænda og það má auðvitað segja að þarna sé á ferðinni niðurskurður sem bitnar eingöngu á landsbyggðinni. Þetta er mjög slæmt mál, sérstaklega núna þegar þessi verkefni voru farin að ganga gríðarvel. Hver einasta króna sem sett hefur verið í þennan málaflokk hefur verið að nýtast og um 80 prósent af þessum fjármunum hafa farið í launagreiðslur. Þetta eru gríðarlega róttækar aðgerðir og ég er mjög uggandi vegna þessa.“
Ekki í samræmi við markmið í loftslagsmálum
Valgerður Jónsdóttir framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga tekur í sama streng og Björn. „Mín viðbrögð eru fyrst og fremst vonbrigði. Þarna hefði verið tækifæri til að auka atvinnusköpun á landsbyggðinni og ekki veitir nú af í þessu árferði. Þetta getur haft mjög vond áhrif til framtíðar og mun fyrst og fremst bitna á bændum og gróðrarstöðvunum. Það er nú svo að skógrækt er því marki brennd að það þarf að gera áætlanir til framtíðar og trjáplöntur er ekki hægt að geyma von úr viti frekar en mjólk. Það gæti alveg farið svo að það þyrfti að henda plöntum.“
Valgerður bendir jafnframt á að þessi ákvörðun sé trauðla í takt við markmið Íslands í loftslagsmálum. „Það er engin leið betri til að binda koltvísýring en skógrækt og þetta dregur auðvitað verulega úr þeim árangri.“ Forsvarsmenn skógræktarverkefnanna funduð með fulltrúum landbúnaðarráðuneytisins á föstudaginn var og segir Valgerður að auðvitað sé ráðuneytinu þröngt sniðinn stakkurinn. „Það ríkti engin gleði með þetta þar og mér heyrðist á máli manna að litlar lýkur væru á að dregið yrði úr þessum niðurskurði. Þetta er hið versta mál því þessi niðurskurður snertir ákaflega marga.“
Birt:
Tilvitnun:
Bændablaðið „Gæti þurft að henda þúsundum plantna“, Náttúran.is: 30. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/31/gaeti-thurft-ao-henda-thusundum-plantna/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 31. desember 2008