Hvernig ökum við að vistvænni framtíð? - verður metan lykilorðið? er yfirskrift ráðstefnu sem haldin var á Grand hótel í dag. Ráðstefnan var haldin í tilefni af 10 ára gassöfnun í Álfsnesi. Sjá frétt um ráðstefnuna.

Ögmundur Einarsson framkvæmdastjóri SORPU bs. flutti erindi um sögu metanöflunar sem hófst hérlendis fyrir 10 árum síðan. Metan er 40 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíd, komist það óbeislað út í andrúmsloftið. Sé það aftur á móti beislað og unnið úr því eldsneyti „metangas“, með áburð (moltu) sem aukaafurð, losna gróðurhúsaloftegundirnar ekki úr læðingi heldur verða að vistvænum orkugjafa. Metan hf. (sjá metan.is) framleiðir nú metangas sem nægt gæti til að knýja 4000 bíla en metanbílaflotinn hérlendis er þó einungis 55 bílar. Ögmundur lýsti þrautasögu frumkvöðlanna sem lýsti sér í skilningsleysi stjórnvalda, trega í stjórnsýslunni, í bílaumboðunum og hjá fjölmiðlum en enný á  hefur ekki tekist að vekja athygli fjölmiðla á verkefninu svo nokkru nemi. Næstum engin umfjöllun hefur verið um metan þó að hér sé um að ræða lausn í margföldum skilningi.
Metangasið er tilbúið og nóg af því og ekki þarf að búa til aðferðafræðina og stunda tilraunaakstur, eins og tilfellið er með vetnisverkefnið. Það er oft auðveldara að vinna að „verkefnum“ en að taka raunverulegar lausnir í notkun. En auðvitað þarf að hafa mörg egg í körfunni og nauðsynlegt að líta til lengri og skemmri tíma í þessum málaflokki eins og öðrum.
-
Myndin er frá ráðstefnunni.  Trevor Fletcher eigandi flutningafyrirtækisins Hardstaff í pontu. Fyrirtæki eins og Hardstaff, sem setja umhverfisáhrif reksturs síns í forgang, vinna á sitt band viðskiptavinahóp sem hafa umvherfismál að leiðarljósi og markaðssetja sig sem slík. Hvað er langt í að krafa fyrirtækja til flutningsaðila sinna verði sú sama hér á landi? Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
-
Sjá glærur af fyrirlestrum ráðstefnunnar.

Birt:
9. febrúar 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hvernig ökum við í átt að vistvænni framtíð? - verður metan lykilorðið?“, Náttúran.is: 9. febrúar 2007 URL: http://nature.is/d/2007/03/16/metan_lykilordid/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 16. mars 2007
breytt: 19. apríl 2007

Skilaboð: