Upplyýsingarveita um græna kosti í ferðamennsku opnaði í dag á Farfuglaheimilinu í Laugardal. Að Græna hringborðinu standa Farfuglaheimilið í samstarfi við verkefnið Lifandi vegvísa á Höfuðborgarstofu, en þar geta ferðamenn og heimafólk fengið upplýsingar um græna vöru og þjónustu alla daga í sumar.

Þetta er nýjung í íslenskri ferðaþjónustu og hugsuð til að efla umhverfisvitund og ábyrgðarkennd íslenskra og erlendra ferðamanna. Gestir eru hvattir til að ganga um náttúruna af virðingu og gera sitt besta til að draga úr umhverfisáhrifum ferðalagsins og njóta menningar og fjölbreyttra samfélaga. Með þjónustu Græna hringborðsins er gestum og gangandi gert auðveldara að njóta sjálfbærs lífstíls og ferðalaga.

Græna borgin Reykjavík og umhverfi hennar, náttúra og útivistarmöguleikar eru kynnt, en borgin komst í úrslit sem Græn borg Evrópu á síðasta ári. Græna hringborðið kemur einnig til með að bæta enn frekar blómlegt lífið í Laugardalnum og hvetja gesti borgarinnar til að nýta sér það sem svæðið hefur upp á bjóða og styrkja þannig nærumhverfið.

Auk þess að þjónusta borgarbúa og ferðamenn er Græna hringborðið starfsnaám fyrir ungt fólk. Græna hringborðið er vettvangur fyrir starfsnema til að auka þekkingu sína á umhverfinu, umhyggju fyrir náttúrunni og virðingu fyrir menningu þjóða, fræðast meira um vistvænan lífsstíl og ferðamennsku og þjálfa tungumálakunnáttu sína og samskiptahæfileika. Farfuglaheimilið í Laugardal er fjömenningarlegur vinnustaður með alþjóðlega tengingu og sterk mannúðargildi. Það er mikils virði fyrir ungt fólk að læra á vinnustað þar sem umhverfisvottun er ein af meginforsendum trausts reksturs og taka þá reynslu með sér út í lífið.

Riddarar Græna hringborðsins vilja biðla til borgarbúa og fyrirtækja að láta vita af grænni þjónustu og vöru og deila góðum hugmyndum og koma við í Laugardalnum eða hafa samband í síma 553 8110 eða á greendesk@hostel.is.

Þess má geta að eitt aðalverkfærið sem riddarar Græna hringborðsins nota við upplýsingagjöfina er Grænt Íslandskort og Grænt Reykjavíkurkort, bæði í vefútgáfut sem og nýrri prentútgáfu sem dreift verður til ferðamanna og Reykvíkinga enda er græna kortið bæði á íslensku og ensku.

Ljósmynd: Nokkrir af riddurum Græna hringborðsins á opnuninni í dag,

Birt:
23. júní 2011
Tilvitnun:
Ásta Kristín Þorsteinsdóttir „Farfuglaheimilið í Laugardag opnar Grænt hringborð“, Náttúran.is: 23. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/23/farfuglaheimilid-i-laugardag-opnar-graent-hringbor/ [Skoðað:25. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. júní 2011

Skilaboð: