Daníel les tómata af tómatjurtum í stofuglugganumMér gengur illa að kaupa forræktaða tómata og láta þá skipta um loftslag, þó það virðist viturlegur vinnusparnaður. Ég sái því til þeirra og ræktaði þá lengi við sólarglugga nærri svalahurðinni til að fæla burt flugur. Sólþroskaðir tómatar beint af plöntunni eru hreint sælgæti. Þó er ég gjörn á að steikja þá á pönnu eða hafa ristaða með brauði vegna þess að ég er í hópi þeirra sem þola takmarkað ferska tómata.

Bruschetta
Tómata og ristað brauð kalla Ítalir bruschettu. Þeir vilja ljóst, svolítið gróft brauð með góðri skorpu, rista það létt báðum megin undir grilli og nudda síðan með hvítlauksrifjum. Tómatarnir eru skornir í sneiðar og þær settar á brauðið og ólífuolía yfir. Svo er kryddað með ögn af salti og pipar og brauðinu brugðið aftur undir grillið. Áður en borið er fram er stráð yfir smátt söxuðu kryddi eins og steinselju, óreganó, graslauk eða garðablóðbergi og heilli eða saxaðri basilíku. Sumir notað aðeins basilíkuna.

Tómatsósa
Frökkum finnst hrein forsmán að hafa ekki alltaf við höndina heimalagaða tómatsósu. Ágæt uppskrift er svona:
1 kg vel þroskaðir tómatar, helst sólþroskaðir
2 laukar skornir smátt
3 marðir fleygar af hvítlauk
handfylli af saxaðri steinselju
ólífuolía, salt, pipar, lárviðarlauf, garðablóðberg og ögn af sykri
Skrælið tómatana með því að dýfa þeim í sjóðandi vatn svo hýðið springi og merjið þá síðan. Takið stóra pönnu, svo vatnið gufi fljótar upp, og hitið á henni 2 msk af olíu og bætið í hana hvítlauknum og steinseljunni. Hrærið þetta í eina mínútu, setjið síðan örlítið af vatni, laukinn og tómatana á pönnuna. Eldið þetta með afgangnum af kryddinu í 1 klst. og bætið þá í ögn af sykri til að vinna á móti súrnum í tómötunum. Þetta er mjög góð sósa með fiski. Það má setja rjómaost og/eða fleiri kryddjurtir út í sósuna og smakkast vel.

Ratatouille
Fyrr eða síðar munu þeir sem rækta tómata, kúrbít, grænar paprikur eða eggaldin, og þó ekki sé nema eitt af þessu, komast upp á lag með að útbúa þennan ágæta Miðjarðarhafsrétt. Hann er einfaldur þegar maður hefur einu sinni gert hann. Sagt er að galdurinn liggi í því að undirbúa hverja tegund grænmetis fyrir sig áður en þeim er blandað saman. Það þarf ekki að hugsa mikið um að skræla, nema laukinn og tómatana, því það þykir gefa betra bragð að hafa hýðið með. Ratatouille má borða heitt eða kalt. Þetta er stór uppskrift og hana má vel helminga. Hún kemur frá hjarta Provence-héraðs. Einn af þeirra uppáhaldsréttum er sá, að hafa með þessu vel útvatnaðar, þykkar sneiðar af saltfiski sem steiktur er á pönnu eða í ofni.

6 litlir kúrbítar, skornir í bita með hýðinu á
2 stórir laukar, flysjaðir og skornir í sneiðar
3 grænar, rauðar eða gular paprikur, sem fræhúsin hafa verið tekin úr, brytjaðar
6 tómatar, afhýddir í heitu vatni
3 hvítlauksrif marin
3 negulnaglar
2–3 eggaldin, flysjuð ef vill og skorin í nokkuð stóra bita. Hýði eggaldins er svolítið grófara en hýði kúrbíts en ég flysja ekki.

Steikið kúrbítinn fyrst og síðan eggaldinið á pönnu. Setjið til hliðar á pappír og leyfið fitunni að síga af. Setjið grænu paprikuna á meðan í sjóðandi vatn og látið standa. Látið laukinn svitna á pönnunni. Nú má blanda saman tómöt-um, kúrbít, eggaldini, lauk og paprikum í þykkan, stóran pott og láta hvít-laukinn í síðast. Bætið í stórri visk af bouquet garne (lárviðarlaufi, steinselju og garðablóðbergi) og látið suðuna koma hægt upp. Sjóðið síðan varlega uns stærstu bitarnir eru meyrir en halda þó vel lögun sinni. Bætið í salti og pipar. Það skiptir ekki öllu máli þó hlutföllin séu ekki nákvæm. Miðjarðarhafsbúar vilja gjarnan taka fræhúsið og safann úr tómötunum og nýta aðeins kjötið. Það gerir réttinn þurrari.

Úr bókinni Ætigarðurinn - handbók grasnytjungsins eftir Hildi Hákonardóttur. 

Ljósmynd: Daníel les tómata af tómatjurtum í stofuglugganum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
18. ágúst 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Tómatar“, Náttúran.is: 18. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2007/08/30/tmatar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 30. ágúst 2007
breytt: 18. ágúst 2014

Skilaboð: