Í bréfi frá Náttúruverndarsamtökum Íslands til Skipulagsstofnunar dagsett þ. 29. júní 2007 segir:

Álver í Helguvík – frummatsskýrsla

Athugasemdir Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Náttúruverndarsamtök Íslands telja að frummatsskýrsla Norðuráls standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til framkvæmdaraðila samkvæmt lögum nr. 106/2006 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Náttúruverndarsamtök Íslands benda einkum á tvennt:

1) Meta verður tengdar framkvæmdir (orkuver og raflínulagnir) sameiginlega með álverinu. Að öðrum kosti fæst ekki heildarmynd af umhverfisáhrifum þess og framkvæmda sem óhjákvæmilega tengjast. Ekki liggur ekki fyrir mat á sumum þeirra framkvæmda.

2) Umfjöllun Norðuráls um útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá álverinu er ófullnægjandi og á köflum villandi. Gera verður kröfu um betri og nákvæmari upplýsingar um hvort framkvæmdin standist lagalegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókunni. Ennfremur verður að vera ljóst að bygging álversins standist þær pólitísku skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir.
Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda

Á bls. 48 í frummatsskþslu segir:

Til þess að uppfylla sinn hluta samkomulagsins við Norðurál vinnur Orkuveita Reykjavíkur að stækkun Hellisheiðarvirkjunar úr 90 MWe í 270 MWe, en mat á umhverfisáhrifum þar að lútandi liggur fyrir. Þá er undirbúningur hafinn að byggingu tveggja nýrra virkjana á Hellisheiði, sem eru áformaðar á næstu árum45. Hér er um að ræða allt að 135 MWe virkjun í þremur 45 MWe einingum á Ölkelduhálssvæði og aðra allt að 90 MWe virkjun í tveimur 45 MWe einingum við Hverahlíð (mynd 11.2). Miðað við 92,5% nýtingartíma eru þetta um 1.090 GWh/ári á Ölkelduhálssvæði og 730 GWh/ári í Hverahlíð. Virkjanirnar eru báðar matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. og er matsferli þeirra hafið. Gert er ráð fyrir að álit Skipulagsstofnunar liggi fyrir um mitt ár 2007.

Fyrir þessu er tilgreind munnleg heimild, Hjörleifur Kvaran, aðstoðarforstjóri.

Í frummatsskýrslu á bls. 49. segir:

Hitaveita Suðurnesja er með nokkra raforkukosti til athugunar. Hér er um að ræða stækkun Reykjanesvirkjunar um allt að 75 MWe (600 GWh/ári) og lítil stækkun í Svartsengi, eða um 10 MWe (85 GWh/ári). Fyrir liggur sameiginlegt rannsóknarleyfi í Krþsuvík, það er fyrir Sandfell, Seltún og Austurengjar og Trölladyngju. Í Trölladyngju hafa verið boraðar tvær rannsóknarholur. Í gangi er undirbúningur að borun næstu rannsóknarholu en ekki er enn vitað á hvaða svæði það verður. Orkuöflunargeta hvers svæðis er talin 100 MWe eða 840 GWh/ári. Allar þessar framkvæmdir eru matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. nema ef til vill stækkunin í Svartsengi. Sú framkvæmd gæti fallið undir 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum, það er framkvæmd sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Verði það raunin þarf í því tilviki að útbúa fyrirspurnarskýrslu um matsskyldu stækkunarinnar. Gera má ráð fyrir að matsferli vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar geti hafist haustið 2007 en matsferli vegna hinna virkjunarstaðanna í fyrsta lagi um áramótin 2007/2008.

Fyrir þessu er tilgreind munnleg heimild, Júlíus Jón Jónsson, forstjóri Hitaveitu Suðurnesja.

Auk þess segir á bls. 49.

Auk framangreindra virkjunarkosta Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja er hugsanlegt að Landsvirkjun geti útvegað orku.

Væntanlega veltur afhending orku frá Landsvirkjun til álvers í Helguvík á samningum um sölu á orku frá Landsvirkjun til ný s álvers í eigu Alcan. Með öðrum orðum, orkukostir fyrir álver í Helguvík eru mjög á reiki og ómögulegt fyrir almenning að átta sig á hver umhverfisáhrifin af því verða.

Í 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum segir:

Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.

Umhverfisáhrif orkuframkvæmda og vegna raflínulagna eru ekki ljós, en á bls. 50 í frummatsskýrslu Norðuráls er birtur eins konar verslunarlisti (shopping list) yfir hugsanlega virkjunarkosti. Af tilgreindum virkjunarkostum hafa 4 verið metnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, aðrar ekki og sums staðar hafa rannsóknir ekki hafist og/eða orkugeta er óljós.

Af þeim virkjunarkostum þar sem mati á umhverfisáhrifum er lokið eru þrjár mjög umdeildar í heima héraði og skipulagsferli þar jafnvel ekki lokið.

Mat á umhverfisáhrifum línulagna
Náttúruverndarsamtök Íslands lögbundið að lagning raflína vegna álvers í Helguvík verði metin sameiginlega í samræmi við 2. mgr. 5 gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í frummatsskýrslu, bls. 51 segir, að

Landsnet hefur hafið skoðun á línuleiðum til fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Fyrir
liggur að nauðsynlegt er að leggja tvær 245 kV línur með að minnsta kosti 700 MVA flutningsgetu að álverinu.

Ennfremur segir á bls 51:

Ekki er enn að fullu ljóst hver endanleg orkuþörf fyrirhugaðs álvers verður né hvaðan orka mun koma og því er óvissa um línuleiðir frá væntanlegum virkjunum.

Í ljósi ofansagðs má ljóst vera að umhverfisáhrif álvers í Helguvík geta ekki orðið ljós nema að fyrirliggi mat á umhverfisáhrifum vegna lagning rafmagnslína.

Náttúruverndarsamtök Íslands gera kröfu um að umhverfisáhrifa allra tengdra framkvæmda verði metin saman, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2006. Einkum umhverfisáhrif vegna virkjana og línulagna. Skipulagsstofnun ákveði því að virkjunarkostir og línustæði verði tilgreind nákvæmlega af framkvæmdaaðila í samræmi við áætlaða stærð álvers í Helguvík og þeir metnir sameiginlega í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2006. með síðari breytingum.

Ennfremur benda Náttúruverndarsamtök Íslands á 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, þar sem segir m.a.:

Í skýrslunni skal tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kunna að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu. Þá skal gera grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu. ...

Náttúruverndarsamtök Íslands telja að frummatsskýrsla framkvæmdaraðila standist ekki þær kröfur sem gerðar eru í 9. gr. laga nr. 106/2006 enda illmögulegt fyrir almenning að gera sér grein þeim áhrifum sem álverinu fylgir kunna að hafa á umhverfis sitt. Ekki síst í ljósi þess að umhverfisáhrif orkuöflunar og raflínulagna á eru að miklu leyti ókunn.


Losun gróðurhúsalofttegunda

Í frummatsskýrslunni er ítrekað vitnað til loftslagsstefnu íslenskra stjórnvalda. Það er ástæða til að ætla að sú stefna hafi breyst eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum. Í viðtali við Morgunblaðið þann 10. júní s.l. sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra m.a.:

„Við blasir að Íslendingar munu þurfa að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stjórnvöld sömdu um undaný águ síðast þegar samið var, en það er mat manna sem best þekkja til að slíkt sé óraunhæft núna. Ég vil ekki sækja undaný águr á þessum vettvangi. Í næstu samningum þarf að tryggja að öll ríki sem máli skipta verði með takmörkun á losun gróðuhúsalofttegunda. Það hefur setið á hakanum að ganga í það brýna verkefni að gera framkvæmdaáætlun um að minnka losunina, en við verðum eins og aðrir að axla ábyrgð. Heildarmyndin er stór og flókin en markmiðið er skýrt: Að draga úr losun gróðuhúsalofttegunda."

Í umræðum á Alþingi um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands þann 31. maí s.l. sagði umhverfisráðherra:

Á sviði loftslagsmála verður ráðist í að gera framkvæmdaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Aðgerðir sem miða að því að stemma stigu við loftslagsbreytingum og hlýnun lofthjúpsins eru meðal brýnustu verkefna samtímans. Það er skylda okkar að skapa almennan ramma sem hvetur fólk og fyrirtæki til þess að draga úr mengun, t.d. með því að hygla umhverfisvænum bílum á kostnað þeirra sem menga meira svo eitt lítið dæmi sé nefnt.

Þessu til viðbótar er ástæða til að benda á fréttatilkynningu utanríkisráðherra frá 8. júní s.l. en þar segir:

Utanríkisráðherra leiddi umræður um loftslagsmálin og Ráðherrarnir ræddu um svæðisbundið samstarf, þ.m.t. norðurslóðamál og hugmyndir um hvernig efla megi vettvang Eystrasaltsráðsins. Einnig voru ráðherrarnir sammála um að Norðurlöndin ættu að gegna lykilhlutverki í að raunhæf og metnaðarfull niðurstaða náist á ráðherrafundi Loftslagssamningsins í Kaupmannahöfn 2009. (Undirstrikun Náttúruverndarsamtök Íslands.)

Af ofansögðu má ráða að ný ríkisstjórn hyggist styðja við markmið Evrópusambandsins um að samkomulag verði að nást á alþjóðavettvangi um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á næsta samningstímabili Kyoto-bókunarinnar. Því verður að ætla að stjórnvöld muni túlka ný lög um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 65 28. mars 2007, þröngt. Draga verður í efa að sú túlkun standist sem fram kemur í frummatsskýrslunni og birtist í töflu 10.1 þess efnis að samkvæmt ákvörðun 14/CP.7 (íslenska ákvæðinu við Kyoto-bókunina) geti útstreymi koltvísýrings í lok fyrsta skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar verið 1924 þúsund tonn á ári, að því tilskyldu að losun að meðaltali yfir tímabilið verði innan við 1600 þúsund tonn á ári.

Í ljósi yfirlýsinga utanríkisráðherra og umhverfisráðherra sem vitnað er til að ofan er hæpið að íslensk stjórnvöld fallist á slíka túlkun. Náttúruverndarsamtök Íslands benda á niðurstöðu lögfræðiálits, Dr. Roda Verhayen, gerð fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands í mars 2006, sbr. umsögn um frumvarp í viðhengi.

Til að sinna skyldum sínum samkvæmt alþjóðalögum en þó einkum og sér í lagi samkvæmt ákvæði 14/CP.7 [íslenska ákvæðinu], er Íslandi heimilt að nýta að fullu undaný águna um þær 8 miljónir tonna af CO2 sem veitt var og ber ekki skylda til að sækja um á ári hverju að fá til ráðstöfunar 1,6 miljónir tonna af CO2. Þrátt fyrir þetta getur ríkisstjórnin ekki sótt um að auka umfang verkefnisins og útblástur sem fellur undir þetta ákvæði með það fyrir augum að skapa óbreytt ástand (status quo) og heimila landi að undanskilja iðnaðinn frá reglugerð um útblástur. Slíkt myndi brjóta í bága við þá skyldu Íslands að draga úr útblæstri til lengri tíma litið. Ef Ísland reyndi að semja á ný um svipaðar undaný águr fyrir næsta samningstímabil myndi það ganga a svig við og vera andstætt skuldbindingum þess samkvæmt alþjóðalögum. [...]

Samkvæmt 9. gr. laga um losun gróðurhúsalofttegunda „skal skal gefa út áætlun eigi síðar en 1. október 2007 um úthlutun losunarheimilda til atvinnurekstrar vegna tímabilsins 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.” Fyrst þegar sú áætlun liggur fyrir er ljóst hvernig stjórnvöld munu túlka lög nr. 65/2007. Þangað til ber að hafna afar rúmum túlkunum af því tagi sem Norðurál kynnir í frummatsskýrslunni.

Við bætist að gufuaflsvirkjanir valda nokkurri losun gróðurhúsalofttegunda. Nýja Sjáland hefur túlkað skuldbindingar sínar þannig að gera skuli grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda til skrifstofu Rammasamningsins Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Bonn. Þar með verður að gera ráð fyrir slíku útstreymi í skuldbindingum Íslands. Óvissa um orkuöflun og mengun sem af hlýst undirstrikar því nauðsyn þess að framkvæmdir vegna álvers í Helguvík verði metnar sameiginlega.

Varðandi losun gróðurhúsalofttegunda vilja Náttúruverndarsamtök Íslands vekja athygli á að sá fasti sem Norðurál notar fyrir losun koltvísýrings fyrir hvert framleitt tonn af áli er ekki hinn sami og Alcan í Straumsvík hafa áður notað í matsskýrslu 2002 og Fjarðaál í matsskýrslu árið 2006. Alcan notaði fastann 1,551 tonn CO2/tonn, Fjarðaál notaði 1,45 tonn CO2/tonn en Norðurál 1,46. Miðað við Alcan yrði losunin mun meiri fyrir áætlaða framleiðslu Norðuráls í Helguvík og ástæða til að spurja hverju þessi munur sæti.


Virðingarfyllst,

f.h. Náttúruverndarsamtaka Íslands,

Árni Finnsson.
Birt:
2. júlí 2007
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Athugasemdir um frummatsskýrslu um álver í Helguvík“, Náttúran.is: 2. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/02/athugasemdir-um-frummatsskrslu-um-lver-helguvk/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: