Í tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013 sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur lagt fram á Alþingi, er lagt til að þrettán svæði verði friðlýst. Markmið áætlunarinnar er að halda áfram að byggja upp net verndarsvæða til þess að tryggja verndun tegunda, líffræðilegrar fjölbreytni, landslags og náttúru.

Samkvæmt áæltuninni verður eitt svæði friðað vegna jarðfræði, en það er Langisjór og nágrenni hans. Svæðið verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þá er lagt til að mörk friðslandsins í Þjórsárverum verði færð út til norðurs og suðurs þannig að það nái yfir allt votlendi og vistgerð veranna.

Í áætluninni er lögð áhersla á friðun svæða sem hafa að geyma sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir í hættu. Lagt er til að 160 tegundir mosa, fléttna og háplantna verði friðlýstar, en það er mesta friðun tegunda sem ráðist hefur verið í hér á landi. Tegundir plantna hafa ekki verið friðlýstar síðan 1978.

Lagt er til að þrjár tegundir hryggleysingja verði friðaðar, en það yrði í fyrsta sinn semdýrategundir yrðu friðaðar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Nú eru tegundir fugla og spendýra friðaðar allt árið eða hluta af árinu með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Í tillögunni að náttúruverndaráætlun 2009 – 2013 er lagt til að friðlýsing nái til eftirfarandi þrettán svæða:

Jarðfræðisvæði:

a) Langisjór og nágrenni. Langir móbergshryggir úr basalti, myndaðir við sprungugos undir jökli, einkenna svæðið. Eldgjársprungan liggur um svæðið austanvert og er lengsta gígaröð sem gosið hefur á landinu á sögulegum tíma. Langisjór og umhverfi hans er þekkt fyrir náttúrufegurð þar sem dökkbrúnt móbergið ásamt svörtum vikrinum frá Veiðivatnagosinu 1477 kallast á við tært fjallavatnið og mosagróður í fjallahlíðum. Á svæðinu er einstakt samspil jarðelds og jökla við mótun landsins.

Vistgerðir:

a) Orravatnsrústir norðan Hofsjökuls. Þar er að finna sérstæðasta freðmýrasvæði landsins.

b) Stækkun friðlands Þjórsárvera og styrking á friðlýsingarákvæðum Guðlaugstungna. Til að vernda rústamýravist.

c) Stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs með friðun svæða í Skaftártungum og á Síðuafrétti. Mikið er um breiskjuhraunavist í þeim hluta þjóðgarðsins sem tilheyrði áður friðlandi umhverfis Lakagíga.

Plöntusvæði:

a) Snæfjallaströnd – Kaldalón. Mikilvægt svæði fyrir sjaldgæfar háplöntur, m.a. dílaburkna, stóraburkna, fjöllaufung, þúsundblaðarós, fjallabláklukku, skollaber og sandmunablóm.

b) Eyjólfsstaðaskógur. Þar finnst fjöldi sjaldgæfra fléttna sem ásætur á birki.

c) Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar. Merkileg svæði fyrir fjölda sjaldgæfra fléttna sem þrífast sem ásætur á birki þessara svæða.

d) Skóglendi við Hoffellsjökul. Einstakt gróðurfar og sjaldgæfar plöntur.

e) Steinadalur í Suðursveit. Vegna gróðurfars og sjaldgæfra plantna.

f) Gerpissvæðið. Á svæðinu er sérstætt gróðurfar, en á svæðinu finnast allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir eins og fjöllaufungur, lensutungljurt, sóldögg, álftalaukur, mýraberjalyng, bjöllulilja, sifjarsóley o.fl. Svæðið er vinsælt til útivistar.

Verndarsvæði fyrir smádýr/hryggleysingja:

a) Undirhlíðar í Nesjum. Búsvæði tröllasmiðs.

b) Hvannstóð undir Reynisfjalli. Búsvæði brekkubobba.

c) Tjarnasvæði á Innrahálsi í Berufirði. Búsvæði tjarnarklukku.

Áhersla verður lögð á gott samstarf við landeigendur, viðkomandi sveitarstjórnir og heimamenn við framkvæmd 2. náttúruverndaráætlunar og verður gerð grein fyrir framkvæmd hennar, auk annarra friðlýsinga sem hugsanlega verður ráðist í, í árlegri skýrslu umhverfisráðherra til Alþingis.

Heildarkostnaður við Náttúruverndaráætlunina á tímabilinu er áætlaður um 67 m.kr. á verðlagi ársins 2008. Þar af er stofnkostnaður 50 m.kr. en heildar rekstrarkostnaður er 17 m.kr.

Friðlýst svæði 20% af flatarmáli landsins

Fjöldi svæða sem friðlýst hafa verið á grundvelli náttúruverndarlaga eða með sérlögum til náttúruverndar á landinu er nú 96 og er flatarmál þeirra um 19.500 km2, sem samsvarartæplega 20% af flatarmáli Íslands.

Stærsta verkefnið í núgildandi náttúruverndaráætlun var stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann var formlega stofnaður með reglugerð í júní. Vinna við önnur svæði á þeirri áætlun hefur hins vegar gengið hægar en vonir stóðu til. Reynslan sýnir að friðlýsingarferlið getur verið þungt í vöfum og tímafrekt. Búið er að friðlýsa eitt svæði, Guðlaugstungur, samkvæmt henni og tvö svæði til viðbótar verða væntanlega friðlýst fyrir lok árs 2008, þ.e. Vatnshornsskógur og búsvæðavernd fugla í Heimaey og úteyjum Vestmannaeyja. Vinnu og undirbúningi við friðlýsingu annarra þriggja svæða er vel á veg komin. Vinna við fjögur svæði á gildandi áætlun, þ.e. Öxarfjörð, Flateyjardal, Skeiðarársand og Geysi, auk hluta af svæðum á Reykjanesskaganum, hefur gengið hægar og verið í biðstöðu upp á síðkastið.

Við undirbúning tillagna að náttúruverndaráætlun 2009- 2013 hefur verið lögð áhersla á samráð við landeigendur og viðkomandi sveitarfélög.

Önnur svæði hafa verið friðlýst frá 2003 þrátt fyrir að hafa ekki verið á náttúruverndaráætlun. Þrír fólkvangar hafa verið friðlýstir: Hraun í Öxnadal, Krossanesborgir og Einkunnir, eitt náttúruvætti, þ.e. Arnarnesstrþtur í Eyjafirði og friðland við Vífilsstaðavatn. Auk þess var Surtseyjarfriðland stækkað árið 2006 í tengslum við tilnefningu eyjarinnar á heimsminjalista UNESCO og nær friðlandið nú yfir eyjuna, hafsvæðið og hafsbotninn umhverfis eyjuna.

Þessi 96 svæði sem nú eru friðlýst skiptast þannig eftir friðlýsingarflokkum (Þingvallaþjóðgarður er flokkaður sem þjóðgarður þótt hann sé friðlýstur með sérlögum):

  Fjöldi  Stærð í ha. 
Þjóðgarðar   3 1.145.000 
Sérlög  3  427.000
Náttúruvætti 35 29.000
Friðlönd  38  327.000
Fólkvangar 16 42.000
Búsvæði 1 1.744

Auk friðlýstra svæða og náttúruvætta hefur 31 plöntutegund verið friðlýst. Jafnframt eru allir dropsteinar í hellum landsins friðlýstir.

Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009-2013 (pdf).

Kort: Friðlýst svæði og fyrirhugaðar friðlýsingar samkvæmt náttúruverndaráætlun

Fjöldi svæða sem friðlýst hafa verið á grundvelli náttúruverndarlaga eða með sérlögum til náttúruverndar er nú 96 og þau ná yfir tæplega 20% af flatarmáli Íslands.

 

Birt:
4. desember 2008
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Tillaga að nýrri náttúruverndaráætlun“, Náttúran.is: 4. desember 2008 URL: http://nature.is/d/2008/12/04/tillaga-ao-nyrri-natturuverndaraaetlun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: