Grenndarkynning Umhverfisstofnunnar (UST) vegna umsóknar ORF Líftækni hf (ORF) um leyfi til að rækta erfðabreytt bygg á allt að 10hektara svæði í landi Gunnarsholts markar ef til vill nokkur tímamót í samskiptum almennings, stjórnsýslu og stofnana. Fyrir það fyrsta varð fundurinn um fimm klukkustundir og öll umræða málefnaleg og upplýsandi á báða bóga. Víða er mikil andstaða við ræktun erfðabreyttra lífvera og þá ekki síst utanhúss þar sem ómögulegt er að einangra hinar breyttu lífverur frá umhverfi og náttúru. Fundinum stýrði Karl Karlsson frá UST og gerði það með sóma. Hann gætti þess vel að fulltrúar ólíkra sjónarmiða kæmust að.

Nokkur gagnrýni hefur verið á umsóknarferlið og kynningu en grenndarkynning þessi var lítið auglýst utan svæðisins þótt málið varði allt landið. Ekki var leitað til nema lögboðinna nefnda og stofnana þótt heimild sé að leita álits mun víðar. Og væri ef til vill rétt að hafa sem flesta við borðið þegar eins umdeild mál er til meðhöndlunar. Í ljós kom á fundinum að ORF hefur tvívegis fengið leyfi til tilraunaræktunar utan dyra en þá voru engar kynningar eða opinberar umræður um leyfin. Þau leyfi voru fyrir mun umfangsminni og skemmri tilraunir, en það leyfi sem nú er til umfjöllunar er til stærstu tilraunar af þessu tagi í Evrópu. Mistök voru gerð í tilkynningu til ESB þar sem fram kom að ræktunarsvæðið yrði að hámarki 1 hektari þegar í raun var átt við 10 hektara.

Til fundarins var boðað 22. þ.m. á vef UST og vefnum bondi.is, engar fréttatilkynningar fóru til fjölmiðla, samtaka eða hagsmunaaðila annara en tengdust málinu með beinum hætti. Fundurinn var svo haldinn 26. þ.m. og frestur til að skila inn athugasemdum miðaður við miðnætti 28. þ.m.. Þetta þykir mörgum mikill asi og ekki falla undir góða stjórnsýsluhætti enda aðeins tæp vika frá því að margir heyrðu af málinu í fyrsta skipti þar til lokað er fyrir móttöku athugasemda.

UST viðurkenndi að hraðinn væri vegna óska ORF um að geta sáð sem fyrst og náð uppskeru í sumar.

Flestir fundargesta sem tóku til máls kröfðust þess að málinu yrði frestað og opin, upplýst og gagnrýnin umræða færi fram áður en ný r frestur yrði gefin til að gera athugasemdir við þetta tiltekna mál. Þess bera að geta að heildarstefna varðandi ræktun erfðabreyttra lífvera í opinni náttúru Íslands liggur ekki fyrir. En frumvarp er til meðferðar á Alþingi og sú löggjöf sem fyrir er hafnar í meginatriðum slíkri ræktun. En veitir þó heimild til að veita slík leyfi ef engin ástæða er talin til að óttast.

ORF heldur því að sjálfssögðu fram að hér sé um nær fullkomlega örugga og næsta áhættulausa tilraun að ræða. En vísindamenn sem voru á staðnum treystu sér ekki til að gefa afgerandi svar heldur notuðu orðalag með fyrirvörum svosem: ætla má, líklegt má telja, ólíklegt er, nánast öruggt o.s.fr.v. Sem skilur eftir rými fyrir efasemdir og í gildandi lögum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að er vísað til svonefndrar varúðarreglu sem segir að náttúran eigi ávallt að njóta vafans sé hann fyrir hendi. Og hér liggur efinn, svo vitnað sé í Shakespeare, í því að hið erfðabreytta bygg getur mögulega blandast melgresi og áhrif þessa yrkis á míkróflóru og smádýralíf er ekki þekkt.

Engar grunnrannsóknir hafa verið gerðar á svæðinu sem mæla líf, efnaskipti og búskap til að skapa viðmiðunarflöt til að mæla og meta hugsanleg áhrif þessarar ræktunar í framtíðinni. Ekki hefur verið tekið til fjármagn svo hlutlausir aðilar geti rannsakað og metið mögulegar breytingar á lífríkinu. Engar tryggingar hafa verið áætlaðar til að bæta tjón sem gæti átt sér stað. Ekki hafa verið gefin út stöðluð próf, aðgengileg utanaðkomandi til að mæla hugsanlegt smit.

Það eru semsagt margir lausir endar að mati sérfræðinga á svið erfðabreyttrar ræktunar og náttúruvísinda.

Þótt markmið ORF um að framleiða lyf og hráefni til lyfjagerðar með það leiðarljósi að lækka lyfjaverð séu göfug hlýtur krafa almennings í landinu, bænda, umhverfisverndarsamtaka  og annara hagsmunaaðila í svona stóru máli að vera að varlega sé stigið til jarðar. Reynsla heimsins af óðagoti er slæm og margt sem talið hefur verið hættulaust og nánast hollt, eins og t.d. reykingar, hafa sýnt sig vera stórskaðlegt.

Ef slys verður í vistkerfi getur það leitt til hluta sem gera bankakrísuna að brandara. Margir sunnlendingar muna t.d. sveppaplágu sem stakk sér niður og eyddi nánast öllum víði á svæðinu. Víða má sjá ummerki innrásar tegunda eins og lúpínu og kerfils sem leggja undir sig móa og mela um land allt. Plöntur geta lifað í nýju umhverfi nokkur ár áður en afbrigði þróast sem hefur aðlagast kringumstæðum og leggur af stað í landnám sem erfitt er að stöðva. Og eyðir þá stundum hefðbundum tegundum á ferð sinni.

Niðurstaða í þessu máli hlýtur í ljósi almannahagsmuna, góðrar stjórnsýslu og varúðarreglunnar að vea sú að ákvörðun um þetta leyfi verið frestað. Opin, upplýst og gagnrýnin umræða fari fram og þegar allir sem þess óska hafa haft tækifæri til að mynda sér upplýsta skoðun verði umsóknarferlið endurtekið með þeim hætti sem máli af þessari stærðargráðu sæmir.

Það er skemmst að minnast þess hvernig ákvörðunum um virkjun Kárahnjúka var troðið gegnum kerfið og gagnrýnendur gerðir tortryggilegir og hafðir að spotti þótt tíminn hafi nú sannað að margt sem varað var við hefur nú reynst hafa átt við rök að styðjast.

Nú eru ný jir tímar opinnar, gagnsærrar og lýðræðislegrar stjórnsþlsu. Látum þennan fund og þessa ákvörðun marka þau tímamót sem nánast allir hafa beðið.
Birt:
8. júní 2009
Höfundur:
Einar Bergmundur
Uppruni:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Nýju fötin keisarans enn og aftur“, Náttúran.is: 8. júní 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/03/nyju-fotin-keisarans-enn-og-aftur/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 3. september 2009

Skilaboð: