Hún er 13. desember. Lúsía var samkvæmt helgisögn kristin jómfrú í Sýrakúsa á Sikiley, sem leið píslavættisdauða árið 304 fyrir kristilegt skírlífi. Önnur sögn hermir, að ungur aðalsmaður hafi hrifist af fegurð augna hennar, en hún rifið þau úr sér og sent honum á diski. Sjónina fékk hún þó aftur fyrir kraftaverk.

Dýrkun hennar breiddist fljótt út um alla Ítalíu og norður um Evrópu snemma á miðöldum. Lítið kveður þó að henni á Norðurlöndum lengi vel og engar kirkjur sjást þar henni helgaðar utan tvær á Íslandi, á Melum og í Reykjadal. Í hinni síðari var og eina Lúsíumyndin, sem getið er á Norðurlöndum fram á 16. öld. Íslensk þýðing Lúsíusögu er einnig til.

Eftir siðabreytinguna varð með öldunum allmikil breyting á eðli Lúsíu á Norðurlöndum, einkum Noregi og Svíþjóð. Hún fékk gælunafnið Lusse eð Lussi og varð smám saman að einum helsta fulltrúa hinn hættulegu myrkravætta í skammdeginu, nokkurskonar Grýla. Hefur þar margt um valdið, en fyrst og fremst það, að dagur hennar var mjög í nánd við stysta dag ársins, svo og skyldleiki nafns hennar við eitt heiti Andskotans, Lúsífer.

Hin ljóskrýnda, fagra og góða Lúsía, sem nú er einkum heiðruð í Svíþjóð, er miklu yngra fyrirbæri og að sínu leyti hliðstæð við aukna ljúfmennsku jólasveinanna okkar. Kannski kemur einhverntíma að því, að Grýla verði gæðakona.  Lúsíuhátíð hefur engin verið á Íslandi, fyrr en Sænsk-íslenska félagið hóf að halda upp á dag hennar árið 1954. En sá mannfagnaður er bundinn við þann félagsskap og aðra sænskmenntaða Íslendinga.

Mynd: Santa-Lucia eftir Filippino Lippi (1457 – 1504).

Birt:
13. desember 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Lúsíumessa“, Náttúran.is: 13. desember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/lsumessa/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 1. janúar 2013

Skilaboð: