Hún er fimmti mánuður vetrar að forníslensku tímatali og hefst sunnudaginn í 18. viku vetrar eða 18.-24. febrúar. Um hana er hið sama að segja og þorra, að orðið kemur fyrir í fornritum, en allt er óvíst um merkingu þess. Helst hallast orðsifjafræðingar að því, að það eigi skylt við snjó eða aðra úrkomu. Má enda telja líklegt, að góa hafi verið önnur vetrar- eða veðurvættur við hlið þorra. Orðið góiblót kemur og fyrir í Flateyjarbók á sama stað og þorrablót, enda er hún kölluð dóttir þorra í þeirri tröllasögu.

Þar segir:
„Það var tíðinda einn vetur að Þorrablóti, að Gói hvarf í brott og var hennar leita farið og finnst hún eigi. Og er sá mánuður leið, lét Þorri fá að blóti og blóta til þess, er þeir yrði vissir, hvar Gói væri niður komin. Það kölluðu þeir Góiblót.” Um heimildargildi þessarar frásagnar er hið sama að segja og áður var nefnt varðandi þorra. En ekki hafa góublót verið tekin upp í neinum mæli á síðari tímum á borð við þorrablót. Helst er það á allrasíðustu áratugum að félög nefni fagnað sinn góublót, ef hann einhverra hluta vegna dregst fram yfir þorra. Heimildir um eitthvert tilhald á heimilum á fyrsta degi góu eru jafngamlar og varðandi þorra eða frá því snemma á 18. öld. Og nafnið konudagur er jafngamalt bóndadeginum: kemur fyrst fyrir í bókfest í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Sami meiningarmunur er auðvitað um það, hvort hjónanna eigi að fagna góu eða bjóða henni í garð. Á hinn bóginn er eftirtektarverður viss afstöðumunur manna til góu og þorra eins og hann birtist einkum í kvoðlingum. Segja má, að menn beri óttablandna virðingu fyrir þorra, en reyni fremur að vingast við góu og höfða jafnvel til kvenlegrar mildi, sbr. kviðlinginn: Góa á til grimmd og blíðu gengur í éljapilsi síðu. Enda er þá dag verulega tekið að lengja og vor í nánd. Menn leyfa sér því að segja: Velkomin sértu góa mín og gakktu í bæinn. Vertu ekki úti í vindinum vorlangan daginn. Stundum er einsog verið sé að hnýta í þorra um leið og góu er gefið undir fótinn: Góa kemur með gæðin sín gefst þá nógur hitinn. Fáir sakna þorri þín þú hefur verið skitinn. Sömu þjóðsagnir og um þorra eru varðandi móttöku góu, einmánuðar og hörpu. Gestgjafar þeirra eiga að hoppa fáklæddir á öðrum fæti kringum bæinn og draga helst brókina eftir sér á fætinum. Ekki hefur fengist staðfest, að þetta hafi verið iðkað í reynd nema í gamni, en þó mætti vera fótur fyrir þessu. Gæti þá verið um að ræða einskonar veðurgaldur. Þessum gestum er auðsýnd ofurkurteisi eða auðmýkt til að sanna, hversu óðfús maður sé að fagna þeim. Í annan stað kynni hér að vera á ferðinni þesskonar hermigaldur, að með því að taka léttklæddur á móti sé verið að særa veðurguðinn til að vera léttur á bragði. Húsfreyjur voru víðast á einhvern hátt tengdar góudeginum fyrsta. En til var sú skoðun, að síðasti dagur góu, góuþrællinn, væri eignaður þeim konum, sem átt höfðu barn í lausaleik.

Birt:
24. febrúar 2013
Höfundur:
Árni Björnsson
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Góa“, Náttúran.is: 24. febrúar 2013 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/g/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 26. febrúar 2013

Skilaboð: