Kyndilmessa
Hún er 2. febrúar og heitir líka „hreinsunarhátið blessaðrar Maríu meyjar”. En samkvæmt Móselögum taldist kona óhrein í fjörutíu daga, eftir að hún hafði alið sveinbarn. Og því gekk María með Jesúbarnið til helgidómsins fjörutíu dögum eftir 25. desember til að láta hreinsast. Hreinsunarháttur Maríu sést fyrst getið í Jerúsalem snemma á 4. öld, en er þá reyndar bundin við 14. febrúar, þar sem þá var fæðingardagur Jesú enn talinn 6. janúar. Hátíðin var svo fyrirskipuð árið 524 af Jústiníanusi keisara í Miklagarði, en þar geisaði þá pestnæmur sjúkdómur, og vildu menn treysta því, að María eyddi pestinni. Henni var þá gefið heitið „Fundur Herrans og móður hans með Símoni og Önnu”, sbr. 2. kapítula Lúkasarguðspjalls. Árið 690 skipaði Sergius páfi í Róm, að á hreinsunarhátíðinni skyldi vígja öll þau kerti, sem ætluð væru til kirkjunnar á árinu. Á þessum degi var á miðöldum einnig farin mikil skrúðganga innan kirkju og utan og um kirkjugarð. Bar þá hver maður logandi kerti, bæði klerkalið og söfnuður.
Af þessi öllu fékk hátíðin nafnið missa candelarum sem þýðir kertamessa. Það orð sést oft í íslenskum fornbréfum frá 15. og 16. öld, en fyrir þann tím og eftir siðbreytingu er orðið kyndilsmessa allsráðandi. Ekki er með öllu ljóst, hvernig á því nafni stendur, en benda má á þrjú atriði: hljóðlíkinguna við engilsaxneskuna candel mæssan, en þaðan mun orðið hafa borist í íslensku einsog margt fleira í kirkjumáli, ekki er víst, að á þessum tíma hafi verið glögg skil milli merkingar orðanna kyndill og kerti. Hugsanlegt er, að í áðurnefndri skrúðgöngu utan kirkju hafi reynst ókleift að bera logandi kerti úti í norrænu þorraveðri og því verið notaðir kyndlar. Munnlegar sagnir hafa verið um þær leifar þessa katólska siðar, að leitast hafi verið við að ljóma bæinn upp með kertaljósum meir en ella á kyndilmessu. Laust fyrir aldamót telja þó fróðir menn, að þetta sé löngu útdautt. Á hinn bóginn eimdi lengi eftir af þeirri þjóðtrú, að sólskin á kyndilmessu væri illsviti svo sem segir í þessari alkunnu vísu:
Ef í heiði sólin sést á sjálfa kyndilmessu snjóa vænta máttu mest maður upp frá þessu.
Til eru vitnisburðir um nafngreint fólk, sem svo mikla trú hafði á þessari spá, að það bölvaði sólskini á kyndilmessu eða breiddi jafnvel fyrir glugga, ef sólin skein glatt á þessum degi. Varðandi atvinnulífið er þess annars að geta, að daginn eftir kyndilmessu hófst vetravertíð á Suðurlandi.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Björnsson „Kyndilmessa“, Náttúran.is: 2. febrúar 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/11/kyndilmessa/ [Skoðað:23. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 11. apríl 2007
breytt: 2. febrúar 2015