Lífrænar varnir
Lífrænar varnir hafa aukist í garðrækt á síðustu árum. Þær felast í því að nota lífveru á móti lífveru. Í þessu skyni hafa verið fundin skordýr og gerlar sem ráðast á meindýrin en láta annað í friði. Þetta er rökrétt og sennilega skárra en eitrun og lyfjagjöf. Ástæða þess að varlega skyldi fara í notkun eiturs er sú að það verða alltaf einhverjir einstaklingar sem komast af og hafa þá byggt upp ónæmi. Og það eru þessir einstaklingar sem koma genum sínum áfram til komandi kynslóða.
En önnur ástæða finnst og er hún öllu óhugnanlegri. Ég býst við að flestir hafi heyrt minnst á „týnda hlekkinn“. The typical missing link, eins og Kristján heiti ég Ólafsson mundi orða það. Sumir vísindamenn hafa leitt getum að því að það sé enginn týndur hlekkur til! Heldur hafi, einhverrra hluta vegna, orðið stökkbreytingar. Það er ýmislegt sem rennir stoðum undir þessa tilgátu. Hvað um það, með eiturnotkun gætir þú óvart orðið valdur að stökkbreytingu og skapað skrímslu sem gæti valdið verulegum usla í fánunni og/eða flórunni. Og það skrímsli þarf ekki að vera stórt. Ekki stærra en lús. Eða baktería.
Fyrir nokkrum árum voru gerðar tilraunir með geril á Rannsóknarstöð ríkisins á Mógilsá sem nota átti til að halda í skefjum fiðrildalirfum. Gerill þessi, Baccillus thuringiensis, á að vera, eftir því sem ég best veit, öðrum lífverum hættulaus. Þennan geril mun vera hægt að fá frá fyrirtæki í Englandi sem Frjó hf. hefur umboð fyrir. Það er raunar einn galli á gjöf Njarðar varðandi þennan geril sem er kallaður BT. Reyndar eru gallarnir kannski tveir ef betur er að gáð.
Í fyrsta lafi er BT gerill sem lifir í jarðvegi og ekki er vitað til að þar geri hann flugu mein. Hann mun vera rotnunargerill og ekki hafa nein bein tengsl við aðrar lífverur svo vitað sé. Það er reyndar ekki alveg ljóst á þessari stundu hvaða hlutverki hann gegnir öðru en að brjóta niður leifar annarra lífvera.
Í annan stað er það verkun hans sem skordýraeyðis sem óneitanlega vekur upp spurningar. BT virkar þannig að gró hans berst inn í görn lirfunnar. Þar býr gróið til hýsil utan um sig úr hörðu efni sem er einna líkast kristal og sker lirfuna sundur innan frá svo að hún fer að leka og deyr. Þetta gerist þó aðeins ef sýrustigið í görn lirfunnar er nákvæmlega 8.5 ph. Ef það er meira eða minna gerist þetta ekki. Þetta telja framleiðendur BT galla og eru nú að markaðssetja fleiri afbrigði BT sem umbreytast við annað sýrustig, þ.e. hærra eða lægra. Það er vegna þess að ekki eru allar lirfur með sama sýrustigið í innyflunum. Reyndar hafa framleiðendurnir boðað að innan fárra ára verði BT í ýmsum útgádum fyrir mismunandi tegundir. Gallinn er bara sá að það verða alltaf einhverjar lirfur sem eru afbrigðilegar og komast af og það eru þær sem koma genum sínum til komandi kynslóða. Þar sem er kominn ónæmur stofn og eltingarleikurinn heldur áfram.
Veirur hafa verið að koma á markaðinn erlendis en ekki hef ég séð þær hér og veit ekki til að neinar tilraunir hafi verið gerðar með þær hér á landi. Skordýr er þó hægt að fá hér bæði ránmaura og litlar vespur. Mér er ekki kunnugt um hvort þessi dýr eru nothæf úti undir berum himni en einhver þeirra gætu sjálfsagt plumað sig.
Eitt er það skordýr sem lifir hér og er alveg sérdeilis duglegt við að eyða óværu á plöntum en það er maríuhæna. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju hún er ekki ræktuð hér í stórum stíl og seld á frjálsum markaði. Hún er gullfalleg, meinlaus og dugleg. Það er þó rétt að geta þess að það var gerð tilraun með að sleppa þúsundum maríuhæna sem tíndar voru í norðu-Noregi í Vaglaskógi rétt fyrir 1960. Eftir þrjá-fjóra daga var hún horfin og fór „aungvum“ sögum af örlögum hennar svo að hugsanlega er hún ekki nothæf ef hún er norsk. Það væri kannski betra að reyna að fá “sænska og sósíaldemókratíska” vandamála maríuhænu!
Járnsmiðir, köngulær og hrossaflugur taka drjúgan toll svo það er um að gera að búa þeim góð skilyrði.
Þótt geitungar séu hvimleiðir og árasagjarnir hluta sumars eru þeir drjúgir í lirfuveðum. Þeir fljúga með lirfurnar heim í búið og verpa í þær. Þegar nitin klekkjast út hefur lirfan nóg að éta og snæðir hýsil sinn innan frá. Það má bæta því við að það mun aðeins vera kvenflugan sem stingur að tilefnislausu og eingöngu seinni hluta sumars. Á öðrum árstímum munu geitungar aðeins stinga í sjálfsvörn. Ég minntist áðan á Frjó hf. Það hefur haft á boðstólum ýmsa ránmaura og vespur sem eiga að nýtast gegn meindýrunum. Sum þessara dýra gætu hugsanlega hjálpað til í garðinum því að minnsta kosti nokkur þeirra sætta sig við allt niður í fjögurra stiga hita. Þau eru þó aðallega ætluð fyrir gróðurhús og gætu nýst í bæði heitum og köldum skálum. Flest eru þau svo lítil að maður verður lítið sem ekkert var við þau. Vespurnar eru til dæmis aðeins einn og hálfur millimetri að lengd. Reyndar mun vera bannað að nota þessi kvikindi úti. Það segir sig þó sjálft að það má vera skolli vel lokað gróðurhús sem heldur þessum smáu lífverum innandyra. Ég er nokkuð viss um að þeir hjá Frjói hf. eru fúsir að veita allar upplýsingar um þessi smádýr.
En eins klisjukennt og það hljómar er besta vörnin forvarnir. Með fyrirhyggju má koma í veg fyrir að meindýrin verði plága. Notaðu hrein verkfæri og haltu þeim vel við. Taktu alla stiklinga af heilbrigðum plöntum. Farðu varlega með sáðplöntur og þegar þú plantar þeim. Smá sár á plöntunni opnar sjúkdómum leið. Hugsaðu vel um plöntunar þínar og sjáðu þeim fyrir góðum skilyrðum og næringu. Heilbrigðar plöntur eru eins og heilbrigt fólk, þær verjast sjúkdómum. Aukinheldur þola heilbrigðar plöntur miklu betur skordýraárásir en lélegar plöntur geta drepist.
Hafðu fjölbreytni í plöntuvali. Það er sjaldgæft að sjá veiklulegar plöntur úti í náttúrunni þar sem fjölbreytnin er mikil og umhverfið vinalegt öðrum lífverum.
Reyndu að hæna að þér fugla eins og líf þitt liggi við. Hver fugl sem heimsækir þig gæti tekið í garðinum þínum eitthvað af þeim hundrað skordýrum sem hann étur á sólarhring. Ef þú lendir í maðkaplágu geturðu prófað að úða viðkomandi tré með mildu sápuvatni, maxicrop eða hreinlega að sprauta kröftuglega á það með garðslöngunni. Athugaðu að sprauta líka upp undir blöðin því mörgu meindýranna er illa við að blotna og halda sig því neðan á blöðunum. Þetta máttu þó ekki gera í sól og heitu veðri því tré og blóm geta forkelast og fengið “kvef”.
Hvítlaukur á að fæla frá og hugsanlega gerir hann það þótt ekki hafi ég merkt mun þegar ég gerði tilraun.
Ef þú lendir í vanda með pottaplöntur geturðu búið þér til eitur úr tóbaki og vökvað með því. Tóbak er soðið og síðan er vökvað með því. Tóbak er soðið og síðan er vökvað með soðinu. Jurtaeitur gerir jurtum ekkert mein en guð hjálpi þeim sem reyna að fá sér bita af plöntunum.
Í bókinni Trjáklippingar eftir Stein Kárason er góður kafli um lífrænar varnir og sjálfsagt er hægt að finna víðar upplýsingar um slíkt. Aðalmálið er samt sem áður að búa plöntunum og dýralífinu gott jafnvægi þar sem þau geta þrifist. Og mundu að smá nart er svo miklu, miklu betur en mikið eitur. Það er kannski rétt að endurtaka það sem ég sagði fyrr. Það er miklu skemmtilegra að horfa á skordýrin puða en að horfa á blómin vaxa. Ekki að það sé neitt áhugavert við að horfa á blóm. Þau eru á allan hátt yndisleg. En, þau skarta ekki sínu fegursta til þess að komast í garðana okkar. Þau eru að laða til sín skordýr svo að þau geti stundað sitt kynlíf. Ef eitrað er og engin skordýr eru til staðar mun plöntunum fækka. Ekki láta það henda í garðinum þínum. Gangi þér vel!
Grafík: Lífrænar varnir, Guðrún Tryggvadóttir og Signý Kolbeinstdóttir ©Náttúran.is.
Birt:
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „Lífrænar varnir“, Náttúran.is: 20. júní 2015 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/13-kafli-lfrnar-varnir/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 10. apríl 2007
breytt: 20. júní 2015