Skipulagsstofnun leggst gegn því að Bitruvirkjun á Hellisheiði verði reist vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Þá setur stofnunin skilyrði fyrir Hverahlíðarvirkjun.

Á vef Skipulagsstofnunar, má nálgast álitið en þar segir m.a. að um sé að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og búi svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Sjá álit stofnunarinnar.

Helstu niðurstöður Skiuplagsstofnunar:
"Það er niðurstaða Skipulagsstofnunar að bygging Bitruvirkjunar sé ekki ásættanleg vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Um er að ræða lítt snortið, fjölsótt útivistarsvæði í nágrenni þéttbýlis/höfuðborgarsvæðisins og býr svæðið yfir stórbrotnu landslagi sem m.a. einkennist af fjölbreyttri hveravirkni. Fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis. Skipulagsstofnun telur ljóst að upplifun ferðamanna innan áhrifasvæðis Bitruvirkjunar myndi gerbreytast þegar horft er til umfangs fyrirhugaðra framkvæmda og þeirra ásýndarbreytinga sem þær hefðu í för með sér. Stofnunin telur að í ljósi þess yrði ferðaþjónusta og útivist eins og hún er stunduð í dag samkvæmt framlögðum gögnum ekki lengur möguleg innan áhrifasvæðis virkjunarinnar. Stofnunin telur að ráða megi bæði af umfjöllun í matsskýrslu sem og í umsögnum og athugasemdum að um verði að ræða mikil neikvæð, óafturkræf og varanleg áhrif á ferðaþjónustu og almenna útivist vegna breyttrar ásýndar svæðisins og verulegs ónæðis af völdum hávaða bæði á framkvæmda- og rekstartíma.

Stofnunin telur að ekki sé gerlegt að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar á framangreinda umhverfisþætti með mótvægisaðgerðum þannig að hún
teljist ásættanleg. Þá telur stofnunin ljóst að ef litið er til samlegðaráhrifa Bitruvirkjunar með núverandi virkjunum, háspennulínum og fyrirhugaðri virkjun við Hverahlíð á Hengilssvæðið í heild sinni, nái þessi áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu til enn umfangsmeira svæðis og
áhrifin verði að sama skapi umtalsvert meiri og neikvæðari. Skipulagsstofnun telur ljóst að með auknu raski á Hengilssvæðinu fari verndargildi lítt snortinna svæða þar vaxandi.

Varðandi áhrif Bitruvirkjunar á aðra umhverfisþætti þá liggur fyrir að mikil óvissa er um áhrif á jarðhitaauðlindina, áhrif á loftgæði ráðast alfarið af virkni hreinsibúnaðar fyrir brennisteinsvetni sem fyrirhugað er að koma upp og áhrif á grunnvatn ráðast af því að skiljuvatni verði veitt um fóðraðar niðurrennslisholur niður fyrir grunnvatnsborð.

Óvissa er um breytingar á yfirborðsvirkni á áhrifasvæði virkjunar á Bitru. Skipulagsstofnun telur að komi til aukinnar virkni geti það leitt til neikvæðra áhrifa á jarðmyndanir, örverulíf hvera, gróður og smádýralíf."

"Skipulagsstofnun telur að búast megi við viðvarandi ónæði fyrir ferðamenn á mjög umfangsmiklu svæði í nágrenni fyrirhugaðrar virkjunar við Bitru. Miðað við framlögð gögn telur stofnunin að gera megi ráð fyrir ónæði vegna hávaða m.a. í Reykjadal, í Fremstadal, á Ölkelduhálsi og niður í Þverárdal. Stofnunin telur að um verði að ræða verulega neikvæð, varanleg áhrif á ferðaþjónustu og útivist og ljóst að upplifun kyrrðar á stóru svæði í nágrenni fyrirhugaðs framkvæmdasvæði verður ekki fyrir hendi."Myndin er frá Ölkelduhálsi.

Efri myndin er af Daníel Tryggva Guðrúnarsyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni að baða sig í heita læknum í Reykjadal þ. 17. maí 2008. Neðri myndin er af læknum, innar í Lambagili. Ljósmyndir: Einar Bergmundur.

Birt:
19. maí 2008
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Skipulagsstofnun leggst gegn Bitruvirkjun“, Náttúran.is: 19. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/19/skipulagsstofnun-leggst-gegn-bitruvirkjun/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: