Úr Fréttabréfi Svansins
Efling Svansins
Svanurinn náði góðum árangri á árinu 2009. Mikill áhugi er meðal íslenskra fyrirtækja fyrir Svansvottun í kreppunni. Ein af ástæðum þessa aukna áhuga fyrir vottun er vistvæn innkaupastefna ríkisins sem var innleidd í vor. Stefnan hefur að leiðarljósi að minnka umhverfisáhrif opinberra innkaupa og bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem þurfa að bjóða umhverfisvænni valkosti til að mæta kröfum ríkisins.
Alls bárust 16 umsóknir um Svansvottun til Umhverfisstofnunar árið 2009. Fjöldi íslenskra Svansleyfa í byrjun árs 2010 var fimm: Hjá Guðjón Ó prentsmiðjan, Prentsmiðjan Oddi, Sólarræsting, ISS ræstingarsvið auk línusápu, penslasápu og iðnaðarhreinsi frá Undra. Ætla má að heildarfjöldi erlendra Svansmerktra vörutegunda á landinu sé um 150. Augljóst er að úrvalið gæti verið miklu betra, þar sem alls er búið að votta fleiri en 6000 vörutegundir á Norðurlöndunum.
Gott samstarf var með atvinnulífinu á mörgum sviðum á liðnu ári. Einkum má nefna prentiðnaðinn og ræstingafyrirtæki sem sýndu mikinn áhuga fyrir Svansvottun. Meðal annars var haldinn samstarfsfundur með leyfishöfum og umsækjendum um kynningarmál Svansins, vinnufundur fyrir prentsmiðjur og kynningarfundur fyrir hótel á árinu. Greinilegt er að miklir möguleikar liggja í Svansvottun fyrir íslenska framleiðslu og þjónustu.
Svanurinn var víða kynntur árið 2009. Meðal annars má nefna Umhverfisþing, Staðardagskrár-ráðstefnuna, Græna daga Háskólans auk Svansmálstofunnar í febrúar. Gefinn var út sérstakur kynningarbæklingur um Svaninn ásamt ísskápssegli sem sýndi helstu umhverfismerkin. Einnig var Facebook síða Svansins opnuð í lok. Hafin var vinna við gerð kynningarefnis fyrir verslanir, m.a. hillumerkingar, standa o.fl.
Svanurinnn 20 ára - kynningarátak í maí
Svanurinn varð 20 ára þann 6. nóvember 2009, en ákvörðun um stofnun merkisins var tekin af Norrænu ráðherranefndinni þann dag árið 1989. Svanurinn hefur náð ótrúlegum árangri á tuttugu árum og er leiðandi umhverfismerki á Norðurlöndum og víðar.
Í tilefni 20 ára afmælisins undirbýr Umhverfisstofnun kynningarátak í byrjun maí til að efla umhverfismerkta vöru og þjónustu á Íslandi. Við leitum nú að samstarfsaðilum meðal smásöluverslana, heildsala, innflutningsaðila, leyfishafa og umsækjenda Svansins til að taka þátt í átakinu. Svanurinn verður áberandi í fjölmiðlum meðan átakið stendur yfir, en við viljum einnig tryggja að umhverfismerktar vörur séu samtímis sýnilegar í verslunum og víðar. Fyrirhugaðir eru margvíslegir viðburðir svo sem grænir dagar í verslunum, leikir, sýningar o.fl. - allt eftir því hver niðurstaðan úr samstarfinu verður .
Undirbúning átaksins hefst með hugarflugsfundi og umræðum um hvernig hægt er að ná hámarksárangri með umhverfismerktum vörum og þjónustu. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 11. mars á Grand Hótel kl. 13-16, skráning á annemaria@umhverfisstofnun.is
Nýttt logo umhverfismerki Evrópusambandsins, Blómið
Evrópusambandsið kynnti nýlega nýtt útlit á umhverfismerki sambandsins, Blóminu. Auk þess eru fyrirhugaðar mikar breytingar á merkinu, m.a. hvað varðar innleiðingu nýrra viðmiða, fjármögnun merkisins og kynning. Hægt er að fylgjast með fréttum um Evrópublómið á vefsvæði merkisins.
Norræna umhverfismerkið Svanurinn
Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta 66 mismunandi vöru- og þjónustuflokka, þar á meðal þvottaefni, pappír, tölvur, hótel, veitingastaði, ræstiþjónustu, vistvænt eldsneyti o.fl. o.fl. Umhverfisstofnun hefur umsjón með Svaninum á Íslandi. Nánari upplýsingar um Svaninn: www.svanurinn.is, www.nordic-ecolabel.org.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Úr Fréttabréfi Svansins“, Náttúran.is: 8. mars 2010 URL: http://nature.is/d/2010/03/08/ur-frettabrefi-svansins/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 30. desember 2010