Nýuppteknar rófur.Það er eðlilegt að breyta um mataræði eftir árstíðum. Á vorin og yfir sumartímann borðum við gjarnan græn blöð. Á haustin og veturna vill líkaminn frekar rótarávexti og hvíla sig frá blaðsalati yfir dimmasta skammdegið. Nú er gott að hafa saman kartöflu- og rófustöppu. Í það eru mjölmeiri og eldri kartöflur betri. Sjóðið saman kartöflu- og rófubita í svolitlu vatni. Hlutföllin mega vera 2 bollar af kartöflum og 1 bolli af rófum eða gulrótum. Best er að vatnið sé svo lítið að það rétt dugi til að sjóða án þess þó að kartöflurnar brenni við. Ef enn er vatn í pottinum þarf að hella því frá, setja í væna klípu af smjöri og ögn af mjólk eða rjóma, eftir því hvað stappan er blaut, og svo ögn af múskati, salt ef vill, og slá allt saman með stöppu eða vélþeytara. Í þetta er gott að setja brytjað grænkál, steinselju, jafnvel spírur, finnist eitthvað í frystinum, búrinu eða garðinum.

Gulrótasúpa
1/2 kg gulrætur
1/4 kg kartöflur
1 1/2 lítri vatn eða (kjöt)soð
1 msk söxuð steinselja (má vera úr frystinum)
graslaukur ef til er (má líka vera úr frystinum)

Gulræturnar eru hreinsaðar og sömuleiðis kartöflurnar, skornar smátt og soðnar uns þær eru meyrar. Sett í matvinnsluvél og maukað. Saltað ef vill. Setjið út í 3 msk rjóma, saxaða steinselju og graslauk. Svo má halda eftir svolitlu af gulrótunum, mauka þær ekki en skera smátt og bæta út í súpuna síðast, ef maður vill hafa súpuna sparilegri. Þessa súpu má jafna með 2 eggjarauðum. Þetta er dönsk uppskrift. Það sést á henni.

Rófur með ristuðum sesamfræjum
Sneiðið rófur í fingurþykka strimla og setjið á pönnu og steikið en ekki við mjög háan hita. Rófurnar eiga að vera mjúkar og fallega rauðbrúnar. Á meðan eru þurrristuð sesamfræ og þeim stráð yfir rófurnar þegar þær eru tilbúnar. Með þessu má hafa sojasósu.

Rússneskt síldarsalat með rauðrófum
2–3 góð saltsíldarflök með lauk
hvítur jafningur 1–2 bollar
soðnar makkarónur 2 bollar
stórt, súrt epli
1 bolli súrsaðar rauðrófur, smátt skornar

Þessu er blandað saman svo salatið verði fallega rautt og haft með góðu brauði.

Kartöflur
Stærstu kartöflurnar höfum við geymt þar til síðast og þá er gaman að breyta til og baka þær í ofni á beði af salti. Fáeinar kartöflur úr geymslunni, sem spíra snemma, má setja í mjólkurfernur með mold og stinga niður strax og vorar. Það er þó æskilegra að kaupa ósýkt útsæði heldur en að taka það hjá sjálfum sér ef hrúður, kláði eða minnsta óværa hefur búið um sig. Séu enn til kartöflur frá haustinu er best að sjóða þær með spírunum og brjóta svo spírurnar af eftir suðu. Þá fer minna af kraftinum út í vatnið.

Þegar komið er fram undir lönguföstu förum við að huga að útsæðinu. Þá er sól farin að hækka á lofti og ræktunarfiðringurinn örlítið farinn að segja til sín. Það var alltaf svolítið hátíðlegt að teygja sig eftir flata, stóra spírukassanum.

Bráðum fer maður að sá og er farinn að taka fræboxið úr köldu geymslunni og kíkja eftir fræjum í búðum og á ferðalögum. Útbreiðsla kartöflunnar og fólksfjölgunin í Evrópu hélst nokkuð í hendur og líklega er töluvert samband þar á milli. Almenningur mætti kartöflunni af tortryggni í fyrstu. Grasafræðingar heilluðust af henni en útbreiddu óviljandi þá vitneskju, að hún er af hinni eitruðu náttskuggaætt, sem gerði það að verkum að ýmsir fengu á henni ímigust. Aðrir voru á móti nýjungum eins og oft vill vera.

Kartaflan er auðræktanleg, og þar sem henni var vel tekið komst fleira fólk af, eins og á Írlandi en þar fjölgaði fólkinu um helming og er það þakkað kartöflunni. Þegar svo kartöflumyglan herjaði um miðja 19. öldina létust jafn margir úr hungri eða flýðu land, sem því nam. Þessi þróun var ekki eins sýnileg hér á landi. Sá sem fyrstur er vitað til að hafi ræktað kartöflur hér er sænskur barón, Hastfer að nafni. Hann hélt til á Bessastöðum og þetta var árið 1758. Björn í Sauðlauksdal fékk sína fyrstu uppskeru tveimur árum síðar.

Á allra fyrstu árum ræktunar hér á landi gat verið erfitt að fá útsæði nógu snemma á vorin, svo uppskeran varð rýr, en nú borðum við sum hver hálfan líkamsþunga okkar af kartöflum árlega.

Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.

Ljósmynd: Nýuppteknar rófur, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
3. október 2014
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Nú er tími rótanna“, Náttúran.is: 3. október 2014 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/n-er-tmi-rtanna/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 7. október 2014

Skilaboð: