Loftslags- og loftgæðastefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn í dag. Stefnan er eitt af Grænu skrefunum í Reykjavík og meginmarkmið hennar er að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum og bæta loftgæðin í borginni.

Reykjavíkurborg er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem setur sér stefnu af þessu tagi. Stýrihópur hefur undanfarið unnið að undirbúningi stefnunnar og meðal annars lagt fram fjölda tillagna um hvernig innleiða megi stefnuna.

Stefnan er tvískipt og fjallar annars vegar um langtímaáhrif á loftslag í heiminum og hins vegar um skammtímaáhrif á það loft sem borgarbúar anda að sér dag hvern.

Dregið verður úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík um 35% til ársins 2020 og 73% til ársins 2050. Hlutfall samgangna er um 70% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík og meðhöndlun úrgangs um 20%.

Í dag losar hver íbúi í Reykjavík um 3 tonn af koldíoxíði (CO 2 ). Ef markmið stefnunnar um heildarlosun gróðurhúsalofttegunda ná fram að ganga verður losun á hvern íbúa um 1,7 tonn koldíoxíð árið 2020 og um 0,6 tonn árið 2050.

Losun gróðurhúsalofttegunda í Reykjavík er fyrst og fremst vegna bílaflotans. Önnur viðamikil uppspretta losunar eru urðunarsvæðin í borginni og finna þarf leiðir til að draga úr myndun úrgangs og nýta lífrænan úrgang. Til dæmis með framleiðslu metangass sem til verður á urðunarstöðum og knýja með því bílaflota borgarinnar.

Draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda með ýmsu móti, meðal annars með breyttu skipulagi innan borgarinnar, þar sem íbúar geta sótt vinnu í sínu hverfi og þurfa þá ekki að keyra til vinnu. Mörg tækifæri felast í kolefnisbindingu til dæmis með frekari skógrækt í borgarlandinu sem vegur upp á móti þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem á sér stað.

Loftgæði í Reykjavík eru almennt talin góð, en umferðin er hinsvegar  meginvaldur svifryksmengunar. Markmið stefnunnar er meðal annars falið í því að loftið í Reykjavík skuli iðulega vera heilnæmt.

Dæmi um starfsemi sem hefur áhrif á loftgæði eru t.d. framkvæmdir á vinnusvæðum þar sem rykmengun getur orðið mikil, stóriðja í nágrenni Reykjavíkur  og uppblásturssvæði fjarri byggð. Allt hefur þetta áhrif á loftgæði í borginni og leita þarf leiða til að minnka mengunaráhrifin með öllum tiltækum ráðum.

Reykjavíkurborg leggur sig fram um að hafa frumkvæði að samstarfi við íbúa, fyrirtæki, stofnanir, nágrannasveitarfélög og ríkið með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka loftgæði á höfuðborgarsvæðinu.

Borgaryfirvöld munu ennfremur styðja við og hvetja til rannsókna er varða loftslags- og loftgæðamál. Þá segir í stefnunni að íbúar Reykjavíkur verði ávallt upplýstir um stöðu loftslags- og loftgæðamála í Reykjavík.

Sjá Loftslags- og loftgæðastefna Reykavíkurborgar.
Sjá greinargerð með stefnunni
.
Sjá raunhæf markmið
 og kynningu.
Kynning á stefnunni.

Mynd frá kynningu á Grænum skrefum Reykjavíkurborgar á Samgönguviku. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
1. september 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Lofslags- og loftgæðastefna Reykjavíkurborgar“, Náttúran.is: 1. september 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/01/lofslags-og-loftgaeoastefna-reykjavikurborgar/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: