Í næstu viku hefst 15. loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Hið fyrsta var haldið árið 1995 en Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Sjá vef ráðstefnunnar en.cop15.dk

Aðildarríkina hafa í samræmi við samþykktir 13. loftslagsþingsins í Bali árið 2007 stefnt að tímamótasamþykkt í Kaupmannahöfn er leysi af hólmi Kyoto-bókunina frá 1997. Ekki þykir seinna vænna því Kyoto-bókunin rennur út 2012 og eigi ný r sáttmáli að vera lagalega bindandi verða þjóðþing aðildarríkjanna að fullgilda samkomulagið í tíma og veitir ekki af þremur árum. Mikið liggur því við að samkomulag náist í Kaupmannahöfn.

Önnur ástæða þess að mikið liggur á er að takist ekki að hámarka losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu innan 5 ára (ekki er talið raunhæft að ná því fyrr) og draga síðan hratt úr útstreymi ghl næstu áratugi þar á eftir er vonlítið um að samfélagi þjóðanna takist að stöðva hraðar loftslagsbreytingar heldur munu jöklar heims, smáir sem stórir, bráðna. Óhjákvæmilega.

Nú þykir nánast vonlaust að samkomulag takist í Kaupmannahöfn um lagalega bindandi samkomulag; samkomulag er bindi aðildarríkin að þjóðarrétti. Ein helsta ástæða þess er að mikið vantraust ríkir milli ríkja þriðja heimsins og iðnríkjanna. Hin fyrr nefndu telja að loforð iðnríkja um fjárhagslega og tæknilega aðstoð til að þróast með sjálfbærum hætti hafi reynst hjóm eitt. Þau eigi þvi engan annan kost en að þróast með sama mengandi hætti og iðnríkin auðguðust á.

Mörg þróunarríki sjá einnig fram á hrikalegar afleiðingar loftslagsbreytinga, eyðimerkurmyndun, hækkun yfirborðs sjávar, aukna tíðni ofsaveðurs og annarra búsifja; að iðnríkin hafi í litlu uppfyllt gefin loforð um aðstoð til að verjast þeim.

Bent hefur verið á að innan fárra áratuga muni Hollendingar þurfa að efla flóðvarnir gríðarlega vegna hækkunar yfirborðs sjávar en kostnaðinn muni þeir ráða við og tækninni ráða þeir yfir. Á hinn bóginn muni fátæk ríki á borð við Líberíu eða Bangladess alls ekki gera það. Hvorki fjárhagslega né tæknilega. Þó er það svo að iðnríki á borð við Holland bera langmesta ábyrgð á þeim vanda sem upp er kominn.

Ástralía og Nýja Sjáland hafa boðist til að taka á móti landflótta íbúum láglendra eyja í Kyrrahafi sem verða landlausir þegar yfirborð sjávar hækkar. En hvaða ríki munu taka á móti hundruðum milljóna íbúa láglendra delta á borð við Bangladess, Kalkútta eða Níl?

Ráðstefnan í Kaupmannahöfn snýst því að miklu leyti um réttlætismál. Rétt þróunarríkja til að þróast með sjálfbærum hætti, jafnan rétt íbúa heimsins til að nýta andrúmsloftið með sjálfbærum hætti.

Við bendum á ágæta umfjöllun Fréttaauka ríkissjónvarpsins s.l. sunnudag.

Birt:
2. desember 2009
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Líður að Loftslagsþingi“, Náttúran.is: 2. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/02/liour-ao-loftslagsthingi/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: