Vetrarspírun
Með hækkandi sól er gaman að taka fram spírubakkann og þetta er fljótlegasta ræktun sem hægt er að hugsa sér. Það er sérviska mín að finnast fræið eigi að fá að sofa í friði framan af vetri, og ég fer því ekki að láta spíra fyrr en eftir nýár. Alfa-alfa fræið, eða refasmári, og mungbaunir eru auðveldust viðfangs. Refasmárafræin eru fljótust til, tekur aðeins örfáa daga að fá ætar spírur, en mungbaunirnar eru örlítið seinteknari. Ef fjölskyldan tekur spíruátinu vel er sjálfsagt að reyna fleiri tegundir.
Það er mikilvægt að sinna spírunum vel, vökva ríkulega tvisvar á dag, og hafa ekki of kalt á þeim. Til að fá börn og unglinga til að borða spírur er best að leyfa þeim að borða þær með puttunum. Þetta á við um allt grænmeti. Þá er eins og frummaðurinn, sem er grafinn djúpt í sál okkar, fái að lifna við og lofti örlítið um fornar og náttúrutengdari kenndir. Þegar fyrsta ferska grænmetið kemur set ég spírubakkann aftur á hilluna og þakka fyrir þjónustuna. Hveitigras er af sumum ræktað til manneldis í heimahúsum og það er hægt að gera árið um kring.
Grasið er klippt þegar það hefur náð um 10 cm hæð, hakkað og pressað í sérstökum kvörnum og safinn drukkinn. Maðurinn getur ekki melt gras en safinn gerir honum gott. Því er trúað að gras eitt og sér innihaldi þau efni sem liggja til grundvallar gæðum mjólkur, enda nærast kýr aðeins á grasi. Hugsanlega er ungt bygg ekkert síðra fyrir okkur en hveitigras. Gömul saga er til um fátæk hjón sem voru sökuð um sauðaþjófnað því börn þeirra voru svo þrifleg eitt harðindavorið. Í ljós kom að konan hafði soðið gras í mjólkinni áður en hún gaf börnunum hana. Mikið meira átti hún ekki.
Hægt er að taka kökk af húsapunti og setja inn í hlýju, vökva hann og láta vaxa og pressa grasið en sjóða ræturnar í seyði. Sólveig Eiríksdóttir hefur bent á að leggja megi fræ og korn í bleyti yfir nótt, setja þau síðan í blöndung og nota í hristing næsta morgun. Þetta er ágætis tilbrigði við spírunina. Í hæsta máta einföld garðyrkja líka. Sólblóma-, sesam-, graskerja- eða hörfræ, sem hafa legið í bleyti yfir nóttina, mýkjast og meltast betur. Þau fara síðan með vatninu í blöndunginn. Það má gera tilraunir með hveiti og bygggrjón, refasmára- og mungbaunaspírufræ. Spurning hvort ein nótt dugar eða betra í sumum tilfellum að hafa þær fleiri.
Ég bæti í þetta þurrkuðum ávöxtum, sem ég hef líka lagt í bleyti yfir nóttina. Það er betra fyrir meltinguna að leggja þurrkuðu ávextina í bleyti. Fylling í hristinginn má vera sojamjólk, fjallasúrmjólk, matskeið af skyri eða lífræn jógurt. Svo má bæta í vatni og ferskum ávöxtum eins og eplum, perum eða banönum. Ber eru góð þegar þau eru til staðar. Þetta er fjölbreytt næring og dugar alveg í morgunmat. Aðferðin er þægileg og fyrirhafnarlítil, ef maður man að undirbúa sig kvöldið áður og leggja í bleyti það sem þarf.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Vetrarspírun“, Náttúran.is: 24. janúar 2016 URL: http://nature.is/d/2007/11/05/vetrarsprun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. nóvember 2007
breytt: 24. janúar 2016