Það er í tísku að vera grænn. Það er einfaldlega orðið svolítið kúl. En hvað gerum við ef við viljum vera græn og bókstaflega í tísku? Jú það er nefnilega meira í boði en maður áttar sig á.

Spænska tískufatafyrirtækið Skunkfunk hefur ákveðið að nota bambusefni, lífræna bómull og sojabaunaefni í nýju sumarlínuna sína. Flíkurnar eru ekki flestar bara umhverfisvænar heldur praktískar, þægilegar, flottar og endast vel. Hver flík er með merki sem á stendur úr hverju hún er gerð en ekki eru öll fötin gerð úr umhverfisvæn uefni enn. Skunkfunk vörurnar er hægt að fá í 11 verslunum hér á landi (sjá lista) og 700 öðrum verslunum í V-Evrópu og Rússlandi.

Hin þekkta tískuvöruverslun Urban Outfitters hefur lengi verið með línu þar sem má finna endurunnin föt og fylgihluti. Þeir taka semsagt gömul eða notuð föt og fylgihluti og endurhanna. Hver vara er því einstök og aðeins til í einu eintaki. Í fyrsta skipti í ár er línan seld á netinu og því aðgengilegri fyrir mun fleiri.

Enamore breska tískuundirfatafyrirtækið sem var stofnað fyrir aðeins um þremur árum hefur aldeilis náð vinsældum þar í landi. Á síðasta ári kom út ný undirfatalína frá þeim og voru allar vörurnar úr 60% hampi og 40% silki. Þar eru líka framleiddir fylgihlutir og almennur fatnaður og eru allar vörurnar gerðar úr lífrænum eða sjálfbærum efnum.

Timberland merkið er vel þekkt fyrir gæða vörur og fyrir það að vera frumkvöðlar í tískuheiminum í umhverfisvernd. Þeir hafa nú komið út með nýja skólínu. Skólínan fyrir karlmenn er kölluð „Earthkeepers“ eða „verðir jarðar“ og inniheldur sú lína nokkrar mismunandi tegundir af skóm að velja úr sem allir eru gerðir úr náttúrulegum, sjálfbærum og endurunnum efnum. Því miður eru kvennmanns skórnin ekki úr sömu efnum og því ekki eins spennandi og karlmannslínan. Timberland skó er hægt að fá í Timberland versluninni í Kringlunni.

Hjá Smart Glass collection er hægt að fá fallega skartgripi úr endurunnu gleri. Það er skartgripahönnuðurinn Kathleen Plate sem hannar gripina en þeir eru úr flöskum af ýmsum gerðum. Hún hefur t.d. hannað úr Skyy Vodka flöskum og Pellegrino vatnsflöskum, ásamt bjór og vínflöskum. Vörurnar hennar hafa lengi verið vinsælar og á meðal viðskiptavina hennar eru Aveda og Coca Cola.

Þið sjáið því það að vera grænn og að vera í tísku gengur vel upp.

Því miður fást enn fáar af þessum vörum hér á landi en stóran hluta af þeim er hægt að panta á netinu.

Myndin er af nýju Skunkfunk línunni og tekin af heimasíðu þeirra.

Birt:
26. júní 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Vertu grænn, vertu í tísku “, Náttúran.is: 26. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/26// [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: