Hvað varð um fræðin?
Á baksíðu jurtalækningakvers Erlings Filippussonar hefur Una Pétursdóttir, sem var fædd 1896, krotað þessa uppskrift:
Blóðberg – öll jurtin
Ljónslappi eða maríustakkur – blöð
Vallhumall – blöð og blóm
Silfurmura – blöð Gulmaðra – blöð og blóm
Rjúpnalauf – blöð og leggir Beitilyng – blómstrandi greinar
Jarðarberjalauf (villt) eða hrútaberjalauf
Sólberjalauf
Piparminta – blöð
Sítrónumelissa – blöð
Stjúpmæður eða þrílit fjóla (íslensk) – blöð og blóm
Morgunfrú – blöð og blóm
Hybenrós – ávextir
Kúmenfræ
Sú athugasemd fylgir að ef ekki sé hægt að ná í allar þessar jurtir verði að nota það sem fyrir hendi er hverju sinni. Una hafði lært um jurtir af móður sinni, Sigurlaugu Jósefínu Jósepsdóttur, sem komin var út af Grími græðara og þekkt fyrir að hjálpa mörgum á Sauðárkróki.
Eftirfarandi lýsing segir okkur svolítið um hvað lifir af gamalli hefð:
Dótturdóttir Unu, sem sjálf hefur áhuga á jurtum og framleiðir smyrsl, segir frá með aðstoð móður sinnar. Amma var skírð Una, eftir systur Bólu-Hjálmars sem ól hana upp, og hún vissi hvaða jurt passaði við hvaðeina og líklegast hefur hún sjálf samið þessa teuppskrift, ýmist úr villtum plöntum eða því sem hægt var að rækta. Hún ráðlagði mörgum, og ekki síst fjölskyldunni, með jurtir, en vann ekki sem grasalæknir. Fyrir utan það sem hún lærði af móður sinni kom hún sér upp bókum og keypti alltaf útlend blöð.
Meðan Una bjó í Reykjavík var engar jurtir að fá og hún tíndi njóla vestur hjá Tívolí. Hún notaði blöðin í graut og gerði jafning. Þegar hún fékk garðinn í Kringlumýrinni 1934 þá fór hún að rækta allt venjulegt grænmeti svo sem rabarbara, grænkál, kartöflur og gulrætur, rófur, blómkál, salat og radísur. Ragna í Flóru kom fljótt með fræ. Una fór upp að Baldurshaga til að finna sortulyng í hæðunum, þegar tengdasonur hennar veiktist af nýrnasteinum. Þetta var um vetur en hægt að tína sortulyng allt árið, ef ekki var snjór. Hún sauð upp á sortulynginu og hann drakk 1 glas fjórum sinnum á dag og að lokum pissaði hann steinunum. Una tíndi líka sortulyng þegar verið var í berjamó.
Frá vörubílastöðinni Þrótti var keypt far, aftan á palli, upp fyrir Rauðavatn til berjatínslu og þá notaði hún tækifærið til að tína grös – og mikið af þeim. Aldrei voru keypt meðöl á heimilinu en fjallagrasaseyði var mikið notað og þau soðin í vatni og leginum hellt af. Hún lét krakkana drekka seyðið en notaði grösin í grauta.
Horblöðku var erfitt að fá í bænum og hún var þvegin vel og látið sjóða upp og reynt að ná sem mestu úr henni. Sauð oft þrisvar sinnum upp á horblöðkunni og þótti betra að drekka þriðju suðuna en að fá ekki neitt. Þótti voða gott fyrir ný run og til að eyða gallsteinum. „Amma stóð upp í klof í tjörnunum í Flóanum að tína horblöðkuna, og læknaði sig sjálf af blöðrubólgu með sortulyngsseyði, sem hún sauð mikið af.“ Uppáhalds kvefmeðalið var stór rófa, sem væn hola var gerð í og kandís settur í holuna og látinn renna vel í rófuna – var eina þrjá daga að renna – tók líklega smávegis af jurtum með, blóðberg var ágiskun þeirra. „Þetta var kvefmeðal og gefið í matskeið á morgnana og aftur áður en við fórum að sofa.“ Maður Unu veiktist hastarlega af magasári og eftir uppskurð lá hann á Landakoti. Hún tíndi þá mikið af litlum, ungum fíflablöðum, setti í mixer og bætti í agnarögn af rjóma og færði honum meðan sárið var að gróa. Sólberjalauf sauð hún til að auka mjólk hjá dótturdóttur sinni, þegar hún átti sitt fyrsta barn.
Úr Ætigarðinum - handbók grasnytjungsins, eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.
Myndin sýnir ýmsar lækningjurtir sem tíndar hafa verið og liggja í þurrkgrindum á námskeiði Dr. Christian Osika í gerð jurtalyfja í Reykholti sumarið 2004. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Hvað varð um fræðin?“, Náttúran.is: 7. nóvember 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/07/hva-var-um-fr/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 7. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014