Runnar hafa orðið æ vinsælli á síðari árum enda má segja að þeir séu eins konar “mýkingarefni”. Þeir draga úr andstæðum og tengja saman tré, blómabeð og grasflatir. Þá er líka hægt að nota runna til að hylja það sem ekki á að vera áberandi eins og til dæmis safnkassa. Ef þú hefur komið í skóg hefurðu eflaust veitt því athygli að á skógarmörkunum vaxa runnar. Á skógarmörkunum er dýra- og plöntulífið einnig fjölbreyttast. Það er vegna þess að þar er birtan líka fjölbreyttust. Þá er rétt að geta þess að birtan er líka betri undir þaki laufskógarins en í barrskóginum. Þess vegna eru barrskógar næstum eyðimerkur í samanburði við laufskóginn.
Fæstir hafa nú samt það stóra garða að þar sé rými fyrir skóg. En flestir ættu að geta gert góða eftirlíkingu af skógarjaðri. Þar koma runnar til sögunnar. Undir þeim og á þeim lifir ógrynni smádýra og á þessum smádýrum lifa stærri dýr og svo enn stærri dýr á þeim. Það er nú ekki dónalegt að hafa “mini” fæðukeðju fyrir utan stofugluggann og geta fylgst með lífsbaráttu þessara litlu vina okkar. Því fleiri skordýr þeim mun fleiri fuglar. Og þá er nú vissara að setja bjöllu á köttinn.
Það eru einkum þrjú atriði sem þú þarft að hafa í huga ef ætlunin er að gera velheppnaðan skógarjaðar. Hafa þarf mörg plöntulög, hvert ofan á öðru.
Mikinn fjölda svæðisbundinna plantna frá trjám niður í þekjuplöntur. Síðast en ekki síst þarf að hafa nógu mikið af dauðu og rotnandi efni, allt frá trjádrumbum niður í fína laufmold. Það að hafa mörg plöntulög er góð hugmynd, jafnvel þótt aðeins sé verið að rækta framandi innfluttar jurtir en ekki verið að gera villigarð. Þú kemur fleiri plöntum fyrir á hverju svæði. Þá hefur hvert lag sín ákveðnu smádýr. Þú munt komast að því ef þú fylgist vel með, að hver fuglategund aflar sér fæðu í ákveðnum lögum. Þrestirnir á botninum, auðnutittlingar í runnunum og svo framvegis.
Hverju lagi fylgja viss lífsskilyrði sem plöntunum í laginu fyrir neðan líkar best. Þegar byrjað er frá grunni geta komið upp vandamál. Planta þarf því sem þrífst á hverjum stað á hverjum tíma en það tekur nokkur ár fyrir trén og runnana að vaxa upp og skapa endanleg skilyrði á botninum. Skilyrðin breytas sem sagt og það sem þrífst í dag gæti átt erfitt uppdráttar þegar frá líður. Þess vegna er plöntuval fremur vandasamt í byrjun og vanda verður vel til verka. Því nær sem dregur
jörðu minnkar ljósið sem plönturnar fá en skjólið eykst og þessvegna verður plöntuvalið vandasamara. Þar sem það tekur tíma fyrir trén og runnana að ná fullri stærð er ekki ólíklegt að í byrjun getir þú ræktað ljóselskar plöntur eins og berjarunna ýmiss konar undir trjánum.
Það er áríðandi að gróðursetja að minnsta kosti eitt nokkuð stórt tré í garðinum, t.d. birki, reyni, eða lerki, jafnvel þótt garðurinn sé lítill. Sumir eru svo heppnir að hafa það stóran garð að geta plantað nokkrum trjám. Burtséð frá því að þú ert að senda fuglum og skordýrum merki um að þarna séu lífskilyrði fyrir þau, er gaman að planta einhverju verður miklu stærra en við og lifir miklu lengur.
Ekki planta stærri trjám en svona tveggja metra háum. Settu frekar niður fleiri tré og grisjaður svo þegar þörf er á en það er þegar krónurnar eru farnar að vaxa saman.  Hafðu svona um það bil þrjá metra á milli trjánna. Þá hefurðu pláss á milli þeirra og undir þeim fyrir annan gróður og samtímis keppa þau um birtuna og hafa stuðning og skjól hvert af öðru. Eftir fáein ár hafa þau myndað lauf og greinaþak sem skþlir því sem undir er. Þegar þú ferð að velja þér tré er áríðandi að skoðða rótarkerfið sem á að vera greinótt og heilbrigt. Þá er líka áríðandi að tréð hafi traustan stofn sem er í greinilegum vexti upp en ekki út á hlið.
Þegar fram líða stundir verður of þröngt um tré með aðeins þriggja metra millibili svo þú neyðist til að grysja. Þá velur þú úr lélegustu trén og fellir þau. Greinarnar geturðu kurlað og dreift yfir beðin. Stofnana kubbarðu niður og raðar þeim í hrúgu, mokar mold yfir, sópar ofan af og plantar eða sáir í blómstrandi jurtum.
Þegar þú þarft að losna við vinnuna við að grafa upp stórar rótarhnyðjur kemur hér ráð. Þegar þú hefur fellt tréð borar þú ofan í sárið á hnyðjunni nokkrar holur. Þú hefur holurnar bæði djúpar og nokkuð sverar. Þessar holur fyllir þú af kalíumnítrati eða saltpétri. Þegar rótin er dauð, hellirðu steinolíu yfir og kveikir í. Þá ætti rótarhnyðjan að brenna og breytast í kolefni og þú losnar við heilmikinn gröft.
Best er að planta trjánum á vorin áður en þau laufgast eða á haustin eftir lauffall. Eftir það má fara að huga að runnunum sem er annað lagið ofanfrá. Með réttu vali er hægt að láta runnana mynda tvö eða jafnvel þrjú lög. Til dæmis er hægt að nota ylli eða úlfareyni sem stærstu runnana, þá ýmsa mispla, víðitegundir eða kvisti að ógleymdum berjarunnum sem annað lag og lágvaxnara. Í þriðja lagið má nota lágvaxna kvisti, víðitegundir eða mispla. Runnum ætti að planta með um meters millibili, reyndar fer það eftirendanlegri stærð runnans hversu langt millibilið á að vera. Þegar þeir eru komnir í moldina ætti að klippa þá nokkuð. Það örvar greinavöxt.
Ef þú ert að byrja frá grunni ættirðu að einbeita þér að trjám og runnum fyrstu tvö árin. Um leið og skuggi fer að myndast geturðu farið að koma fyrir blómum. Þú skalt þó alveg frá byrjun setja niður eins mikið af haustlaukum og þú getur. Í nokkur ár setti ég niður sex til átta hundruð lauka á hverju hausti, alveg þangað til ég var kominn með góðan grunn af botnsgróðri undir trén. Þeir voru búnir að blómstra flestir löngu áður en trén laufguðust og fóru að skyggja á. Þegar frá leið þurfti bara að setja niður fáeina einæringa eins og hþasintur og túlípana. Fyrstu árin verða óhjákvæmilega “göt” á milli trjánna sem er náttúrulega ekkert annað en boðskort fyirr bannsett “illgresið”.
Hvað er maðurinn nú að fara? gæti einhver hugsað. Verið getur að þú undrist að ég skuli vera jafnlítið hryfinn af illgresi og næsti maður. Einnig gætirðu spurð hvort ekki sé bara allt í lagi að hafa illgresi. Er það ekki bara náttúrulegt? Það er með illgresið eins og annað í þessum heimi. Sumt viljum við, annað ekki. Best er að nota fyrirbyggjandi aðgerðir gegn innrás illgresisins. Í götin milli trjánna og yfir beðin er gott að strjá trjákurli. Það er núorðið hægt að kaupa hjá Skógræktinni. Með tíð og tíma gengur það niður í jarðveginn og verður að mold og næringu fyrir plönturnar.
Vorið 1994 fjárfesti ég í kurlara sem ég fékk í Húsasmiðjunni, það var reyndar meira úrval hjá Þór í Ármúla. Þessi kurlari er einhver besta fjárfesting í garðáhöldum sem ég hef gert. Allar greinar að kústskafts sverleika sem ekki eiga að verða að stiklingum fara í gegnum kurlarann og verða að þessu fína kurli sem ég strái ofan á beðin. Þegar ég hafði sett þetta ofan á beðin tók ég fljótlega eftir því að dýralífið í kurlinu var alveg með eindæmum. Þar fann ég tegundir sem ég hafði aldrei séð áður nema á mynd. Og ánamaðkurinn maður. Ég kem aldrei til með að þurfa að kaupa mér maðk ef mér dettur í hug að bjóða nokkrum möðkum með veiðidellu með mér í veiðitúr. Bara fara út í beð með vasaljós eftir að skyggja tekur og hirða þá upp. Annað sem fylgir kurli og þó enn frekar deyjandi og dauðum trágreinum er sveppagróður. Mér er það minnisstætt úr Barmó þegar sverum stofni silfurreynis sem búið var að búta niður var hrúgað saman og mold mokað yfir, hversu skrautlegir sveppirnir voru og gerðarlegir sem uxu þar seinni hluta sumars. Sveppir eru næstum alls staðar í jarðvegi. Þeir vaxa neðanjarðar og geta myndað geysistóra lífveru. Það er talið að stærsta lífvera heims sé sveppur sem þekur hektara lands í henni Ameríku. Þeir mynda net í jarðveginum sem kallast á útlendum málum “mycelium”. Gorkúlan eða hatturinn, sem vex upp úr jörðinni, er aðeins æxlunarfæri tegundarinnar. Sveppir eru ekki plöntur, heldur sér flokkur þar sem þeir hafa blaðgrænu og geta þvi ekki stundað ljóstillífun eins og plöntur, þörungar og gerlar. Þeir lifa margir á plöntum og plöntuleifum og brjóta niður trénið svo jafnvel harðviður verður að mjúku jukki sem aðrar lífverur eiga auðveldara með að nýta sér. Flestir sveppir eru til hins mesta gagns en sumir eiga það til við vissar aðstæður að fara úr böndunum ef svo má segja og drepa hþsilinn sem þeir lifa á. Flestir æðri skógarsveppir hér á landi eru hinir bestu matsveppir bæði fyrir hina litlu vini okkar og okkur sjálf. Ef þú þekkir ekki sveppinn sem þú sérð skaltu ekki leggja þér hann til munns því einstaka getur verið eitraður eða haft aðrar óvæntar verkanir sem ekki verða tíundaðar hér.
Það er þó eitt með það sem eitrað er í náttúrunni. Margt gefur eitrun til kynna með ákaflega vondu bragði eða sterkum lit, svo að ef þú smakka á einhverju litskrúðugu sem er bæði beiskt, rammt og bragðvont, spýttu því strax og skolaðu munninn.
Nú gætu sumir freistast til að álykta að þetta þþddi að villigarðurinn væri fullur af eitruðum tegundum og því varasamur. Því er í rauni öfugt farið. Garður sem er í góðu jafnvægi er töluvert heilbrigðari en garður sem er í gjörgæslu efnafræðinnar í formi áburðar, skordýra- og illgresiseiturs.
Ef þú þarft einhverra hluta vegna að fella stórt tré, kannski vegna þess að það er farið að standa öðrum gróðri fyrir þrifum eða skyggja á, skaltu endilega búta stofninn niður og nota hann til að byggja upp beð eins og að framan var lýst. Svo skaltu setjast á góðviðrisdegi svona  ári seinna og fylgjast með skordýralífinu í kringum bútana. Það kæmi mér ekki á óvart þótt þú uppgötvaðir að bútarnir væru orðnir að nokkurs konar skordýrafjölbýli. Og í rakanum í kjallaranum (undir) búa sniglarnir og fleiri skordýr sem koma út á næturnar í döggina í fæðuleit. Þar sem svona stofnbútar eru svo fullir af lífi eru stærri dýr nösk á að finna sér fæðu þar. Köngulær og járnsmiðir eru tvær tegundir sem eru fljótar að uppgötva að þetta er eins og stórmarkaður hvað mat varðar. Og þar sem köngulær eru, þar eru bæði þrestir og starar og auðnutittlingar. Jafnvel sólskríkja og maríuerla í æðisgenginni leit að fæðu fyrir unga sína sem bíða með opna gogga í trjákrónunum fyrir ofan eða í hreiðurskössunum sem þú hefur sett upp fyrir þessa skemmtilegu konsertmeistara.
Þá komum við að plöntuvali í “villigarðinn” þinn. Það segir sig sjálft að plöntur úr náttúrulegri flóru landsins eru heppilegri fyrir dýralífið en innfluttar.
Íslenskar plöntur og dýralíf hafa þróast saman um þúsundir ára eða frá lokum síðustu ísaldar og hafa þar af leiðandi verið hér miklu lengur en maðurinn. Þú þarft ekki annað en fara út í náttúruna til þess að sjá jafnvægið sem þar ríkir. Á þessum langa tíma sem flóran og fánan hafa þróast saman hafa plönturnar komið sér upp vörnum sem gagnast þeim gegn litlu átvöglunum. En plönturnar þurfa á litlu átvöglunum að halda til frjóvgunar svo þær fara milliveginn og gefa skordýrunum mátulega mikið að éta í staðinn fyrir greiðann. Þetta jafnvægi raskast stundum vegna einhverra áfalla og/eða sérstakra skilyrða, oft veðurfræðilegra. Eitt dæmi um þetta eru óvenjulega mildir vetur þegar furu- og sitkalúsin ná sér á strik. Þær eiga fáa náttúrulega óviini hér svo þær geta grasserað óáreittar áður en skaðinn sem þær valda kemur í ljós.
En plöntur og skordýr vinna samt saman. Plönturnar blómstra og ilma ekki okkar vegna. Þær eru að tryggja sér frjóvgun. En hvernig fara þær að því að tryggja að býfluga sem heimsækir til dæmis fingurbjargarblóm fari beint á næsta fingurbjargarblóm? Það væri lítið gagn í því fyrir blómið ef flugan færi með frjóduftið á fjólur. Það skyldi þó ekki vera að blómið framleiddi milt vímuefni fyrir fluguna og tryggði þannig að flugan færi beint á næsta blóm sömu tegundar? Hver veit, en plöntur eru sérlega sniðugar lífverur.
Af þessu leiðir að þú ert að flestu leyti betur settur með eins mikið af innlendum plöntum í garðinum þínum og þú hefur tök á að hafa þar. Nú er einn galli á því að hafa eingöngu innlendar urtir í þínum blómagarði eins og skáldið sagði. Hann er sá að íslensk flóra er fremur fátæk af trjám og runnum þótt blómplöntu séu nógar. Þó eru nokkar tegundir sem hiklaust má telja innlendar, bæði sökum þess að þær hafa unnið sér þegnrétt og eins hims að þær hafa “alltaf” verið hér. Þetta eru ýmsar víðitegundir (Salix), birki (Betula) að sjálfsögðu, reynir (Sorbus acuparia) og blæösp er ákaflega skriðul og fjölfar sér ört með rótarskotum. Svo eru nokkrar grenitegundir eins og sitkagreini (Picea sitchensis), sem reyndar er nokkuð viðkvæmt fyrir sitkalús auk þess að verða ákafæega stórt og með grunnar rætur og þar að leiðandi valt, rauðgreni (P. Abies) og blágreni (P. Engelmannii). Furur (Pinus), þótt fallegar séu, geta verið varasamar vegna furulúsar. En sú barrtegund íslensk sem mér finnst fallegust er íslenski einirinn (Juniperus communis). Hann er allt of lítið notaður í garða að mínu viti og er laus við ýmsa kvilla sem hrjá aðrar barrtegundir. Íslensk þyrnirós (Rosa pimpinellifolia) er innfædd og einn af fallegustu runnum sem til er að mínu áliti. Fjalldrapi (Betula nana) er annar smárunni sem er fíngerður og fallegur, en hann er varasamur að því leyti að hann er ekki hrifinn af öðrum gróðri í kringum sig og hefur þær varnir að hann gerir öðrum plöntum erfitt eða ókleift að þrífast við hliðina á sér og stela frá sér birtu og næringu. Getum hefur verið að því leitt að hann eitri jarðveginn í kringum sig eða einhver sveppur sem lifir í sambýli við hann ráðist á rótarkerfi keppinautanna. Af runnum er víðirinn (Salix) fjölbreyttastur í vexti og stærð og auðvelt ætti hverjum og einum að koma sér upp dágóðu safni af víðitegundum í garðinum sínum. Berjarunnar eins og rifs, sólber og stikilsber (Ribes) hafa fyrir löngu unnið sér þegnrétt hér. Um trjágróður vísast að öðru leyti til hinnar ágætu bókar Ásgeirs Svanbergssonar Tré og runnar á Íslandi og Skrúðgarðabókarinnar. Þá er stóra garðabókin, hið magnaða rit, svo stútfull af upplýsingum að það hálfa væri nóg.
Innlendar blómplöntur eru geysimargar og fjölbreyttar. Þeim hefur á stundum verið lítill gaumur gefinn vegna hrifningar á framandi erlendum plöntum. Málið er að þessar innnfluttu plöntur hafa aðrar varnir en þær innfæddu. Þær hafa flestar komið sér upp vörnum gegn fánu sem ekki finnst hér. Sem dæmi má nefna að á Englandi vaxa tvær eikartegundir Quercus petrea og Quercus robur. Þessar tvær tegundir halda uppi hvorki fleiri né færri tegundum hryggleysingja en 248 hvor. Margir þessara hryggleysingja geta ekki lifað á neinu öðru en þessum tveimur tegundum eika. Nú hafa verið fluttar inn til Bretlands amerísk rauðleik (Q. Rubra) og tyrkjaeik (Q. Cerris) ásamt sígrænni eik (Q. Ilex). Á þessum þremur síðarnefndu tegundum geta aðeins lifað fjórar eða fimm tegundir breskra hryggleysingja. Dæmið snýst við ef þessar þrjár tegundir eru skoðaðar í heimkynnum sínum. Það er því ekki ósennilegt að á innfluttum tegundum hér sé svipað upp á teningum.
Þetta þýðir þó ekki að þú skulir útlægar gera allar innfluttar plöntur. Heldur hitt að þú ættir að reyna að koma sem flestum innlendum tegundum fyrir í stað þeirra erlendu, En nú kann einhver að segja að fábreytnin hér á landi sé þessu “fjötur um rót”. Ekki er ég sammála því. Og það sem meira er, ég skal aldrei viðurkenna það. Málið er að okkar heimskauta- og túndrugróður er ákaflega sérhæfður og því þarf að búa honum rétt skilyrði. Það getur þýtt að þú þurfir að fara á stúfana og flytja rétt tegund jarðvegs í garðinn þinn. En er það nokkuð mál að fara og ná í svo sem eina eða tvær fötur af möl á uppblásnum mel og melasólin (Papaver radicatum) og blóðbergið (Thymus arcticus) gæti dafnað við sem ákjósanlegust skilyrði? Þær plöntur sem mynda botnlagið geta verið fjólur (Viola), klukkur (Campanula), sóleyjar (Papaver og Ranunculus), lyklar (Primula), murur (Potentilla) og steinbrjótar (Saxifraga). Ef þú getur ekki fengið þessar plöntur í gróðrarstöðvum, og flestar stöðvar bjóða upp á mikið úrval innlendra plantna, ættirðu að geta náð þér í fræ af þessum tegundum annaðhvort hjá fræsölum eins og til dæmis Gróðurvörum, Frjói, Blómavali, eða hjá Garðyrkjufélagi Íslands. Einnig geturðu farið á stúfana út í náttúruna og náð þér í fræ af viðkomandi plöntu þar sem hún vex. Þá sérður í leiðinni hvernig skilyrðum hún er vön og hvernig best er að útbúa þau heima hjá þér og sá fræjunum beint á staðinn þar sem plantan á að vaxa.

Illgresi:
“Illgresisfræin” berast víða að og það er nokkur sannleikur í að eins árs fræfall þýði illgresi í sjö. Margar þessara plantna hafa fræ með ótrúlega löngum líftíma. Í tilraun sem hófst 1902 kom í ljós að fræ ellefu tegunda sem voru grafin það ár, voru enný á spírunarhæf tuttugu árum seinna. Átta tegundir voru lifandi eftir fjörutíu ár og tvær tegundir spíruðu eftir sextíu ár. Reyndu að varna því að “illgresið” var að mynda fræ.

Villiblóm:
Vegna þess að þau hafa þróast án afskipta mannsins eru flest villiblóm kröfuhörð á þau skilyrði sem þau geta þrifist við. Lykillinn að árangri í ræktun þeirra er að svara þörfum þeirra um jarðveg, birtu og vatn. Þú skalt reyna að fá sem flest fræ frá fræsölum eða gróðrarstöðvum. Einnig er hægt að fá fræ hjá Garðyrkjufélagi Íslands en þá verður maður að vera félagi. Að margborgar sig þó að mínu viti.

Birt:
10. apríl 2007
Tilvitnun:
Þorsteinn Úlfar Björnsson „7. kafli - Runnar, skógarjaðarinn“, Náttúran.is: 10. apríl 2007 URL: http://nature.is/d/2007/04/10/7-kafli-runnar-skgarjaarinn/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: